fbpx
Mánudagur 22.apríl 2019
Eyjan

Segir klofningshótanir Styrmis ótrúverðugar og dregur hann til ábyrgðar vegna hins„ógeðslega“ samfélags

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 22. mars 2019 10:34

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyjan greindi frá því í gær að Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, teldi næsta víst að Sjálfstæðisflokkurinn myndi klofna ef ráðherrar flokksins kysu ekki gegn þriðja orkupakkanum. Mátti skilja á orðum hans að hann sjálfur myndi standa fyrir því að kjúfa Sjálfstæðisflokkinn með stofnun annars sjálfstæðisfélags um fullveldi Íslands.

Það er alltént skilningur Össurar Skarphéðinssonar, fyrrverandi ráðherra og formanns Samfylkingarinnar, sem skrifar heillangan pistil um þetta „uppgjör“ Styrmis gegn Sjálfstæðisflokknum.

Segir hann uppgjör Styrmis þó ekki vera við Sjálfstæðisflokkinn, heldur við sjálfan sig og segir hann sjallana bera mesta á byrgð á hinu „ógeðslega samfélagi“ líkt og Styrmir hefur talað um og nú reyni Styrmir að skrifa sig frá Sjálfstæðisflokknum, hvar hann var svo lengi innvígður og innmúraður og Styrmir sé því sjálfur hluti af hinu alræmda „djúpríki“ sem Styrmir nefndi á dögunum.

Össur, sem er beittur penni, greinir pistil Styrmis með dassi af háði:

„Styrmir Gunnarsson, sem stundum talar og skrifar einsog óljós útgáfa af Ögmundi Jónassyni, hótar því nú í sögulegri grein á styrmir.is að a) berjast gegn forystumönnum Sjálfstæðisflokksins á landsfundi, b) vinna gegn einstökum þingmönnum hans í prófkjörum, c) stofna sérstakt uppreisnarfélag innan flokksins, d) kljúfa að lokum flokkinn og e) ganga til liðs við Miðflokkinn svo fremi ekki verði farið að minnihlutasjónarmiðum hans varðandi hinn. s.k. “þriðja orkupakka.” Hann virðist gefa sér fyrirfram – kannski eðlilega – að slagurinn sé þegar tapaður og á viðburðaríkri ævi virðist Styrmir ætla að láta síðasta stóra slaginn snúast um að eyðileggja Sjálfstæðisflokkinn endanlega sem hinn sjálfkrafa valdaflokk. Þetta er svipað og kaþólski biskupinn í Landakoti hóti því að bannfæra móðurkirkjuna í Róm. Styrmir byrjar á að láta svipuna ríða um herðablöð Bjarna Benediktssonar og segir að fyrsta vers verði mótblástur gegn forystu flokksins á landsfundi. Það muni birtast í “verulega minnkandi hlutfalli þeirra, sem greiða forystumönnum atkvæði sitt.”

Klofningsframboð

„Annað vers verður svo stofnun “sérstaks Sjálfstæðisfélags um fullveldi Íslands”. Í þeim iðrum flokksins sem dunda sér við samsæri þekkir Styrmir greinilega króka og kima. Hann upplýsir að umræður um stofnun félagsins séu ekki að byrja heldur hafi staðið stopult mánuðum saman. Þriðja vers hinnar hönnuðu atburðarrásar felst svo í að vinna í prófkjöri gegn þeim þingmönnum flokksins sem leyfa sér að hafa aðra skoðun en honum er þóknanleg á orkupakkanum,“

segir Össur sem telur þetta augljósa hótun um að Styrmir ætli að beitasér sjálfur:

„Þessu næst, segir Styrmir, mun orrustan “óhjákvæmilega koma fram í fylgi flokksins.” – Varla er hægt að lesa þetta öðru vísi en svo að Styrmir hóti með sveitum sínum að berjast með virkum hætti gegn sínum gamla flokki í næstu þingkosningum drepi hann ekki þriðja orkupakkann.“

Sigmundur stóra ástin

Össur líkir málinu við harmleik, sem skyndilega breytist í tragikómedíu þegar Styrmir kynnir Miðflokkinn til sögunnar:

„Lokaatriði þessa harmræna leikrits þegar búið að gera eins mikið havarí og frekast er unnt innan flokksins er svo að ganga fylktu liði með “Sjálfstæðisfélag um fullveldi Íslands” til stuðnings við Miðflokkinn! -Eða hvað annað ber að lesa úr lítt dulinni hótun lokaorða Styrmis: “Á hliðarlínunni bíður Miðflokkurinn…” Líklega myndu bókmenntafræðingar segja að það breyti svo leikritinu úr harmleik yfir í tragikómedíu að skv. handriti er það Sigmundur Davíð sem verður síðasta stóra ástin í lífi höfundar.“

Orkupakkaafsökun

Össur telur að þriðji orkupakkinn geti varla verið ástæðan fyrir hótunum Styrmis:

„Styrmir Gunnarsson er semsagt reiðubúinn til að ganga milli bols og höfuðs á sínum gamla flokki út af “orkupakka” sem er ekki hættulegri en svo, að einn helsti skoðanabróðir hans og samstarfsmaður gegnum tímann, Björn Bjarnason, sem í dag mætti kalla eina “elder statesman” Sjálfstæðisflokksins, skrifar hverja greinina á fætur annarri til að sýna fram á skaðleysi hans gagnvart fullveldinu. Einu sinni var Björn þó helsta átrúnaðargoð Styrmis í öllu sem laut að Evrópu. Réttilega. Þetta er ekki trúverðugt í mínum augum. Margboðað upgjör Styrmis við sinn gamla flokk er varla út af orkupakka númer þrjú. Uppgjör Styrmis er fyrst og fremst löngu tímabært uppgjör hans við sjálfan sig og hlutverkið sem hann lék á stóra sviðinu í íslenskum stjórnmálum.“

Litið um öxl

Össur gerir tilraun til að greina hugarástand Styrmis þar sem hann segir hann hafa verið hluta af vandamálinu sem ritstjóri Morgunblaðsins:

„Það er ekki endilega auðvelt fyrir Styrmi Gunnarsson að líta yfir ferilinn. Að eigin sögn var hann í hópi hinna “innvígðu og innmúruðu” sem áratugum saman mótuðu íslenskt samfélag eftir sínu höfði. Það var gert í gegnum lítt dulda samþættingu flokksskipaðs embættismannaveldis, agavald Morgunblaðsins og forystu Sjálfstæðisflokksins. Saman var þetta feðraveldi eina holdi klædda “djúpríkið“ sem nokkru sinni hefur verið til á Íslandi.

Styrmir notaði margvísleg meðul – ekki öll fögur. Hann hefur sjálfur upplýst að á þeirri vegferð kom hann upplýsingum um stjórnmálaskoðanir annarra samferðamanna til erlends stórveldis sem komu í veg fyrir að þeir gátu ferðast til Bandaríkjanna og fengið vinnu við tiltekin störf. Guð einn veit hvernig hann og flokkur hans notuðu þær upplýsingar að öðru leyti. Þetta gerði Styrmir af því hann taldi það þjóna þörfum samfélagsins sem hinir “innvígðu og innmúruðu” vildu skapa. Það getur ekki verið auðvelt að horfast í augu við slík verk í dag.

Niðurstaðan af öllu saman var það sem hann sjálfur undir lok langrar ævi hefur kallað “ógeðslegt” samfélag. Þó ber það samfélag rík höfundareinkenni hans sjálfs. Það þarf bein til að bera svona niðurstöðu. Sumir gætu það – aðrir ekki. Það er meðal skýringanna á því að um langa hríð hefur Styrmir verið að skrifa sig frá Sjálfstæðisflokknum. Mér hefur virst það einkum stafa af því að hann er fyrir löngu búinn að skilja að flokkurinn sem hann stýrði að hluta til bak við tjöldin úr ritstjórastóli Morgunblaðsins – og skrifaði fyrir alþýðupólitíkina dags daglega – ber mesta ábyrgð á hinu “ógeðslega” samfélagi.

Orkupakkinn er ábyggilega prýðilegt tilefni til margboðaðs uppgjörs við flokkinn sem líf hans hefur snúist um. En fyrst og fremst er Styrmir í löngu tímabæru uppgjöri við sjálfan sig.“

Sjá einnig: Segir hörð átök innan Sjálfstæðisflokksins leiða til klofnunar:„Stór hópur flokksmanna mun ekki fyrirgefa“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“