fbpx
Mánudagur 22.apríl 2019
Eyjan

Segir hörð átök innan Sjálfstæðisflokksins leiða til klofnunar: „Stór hópur flokksmanna mun ekki fyrirgefa“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 21. mars 2019 13:34

Styrmir Gunnarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Á forsíðu Morgunblaðsins í dag (og á mbl.is í gærkvöldi) er frá því sagt, að þingflokkar stjórnarflokkanna þriggja hafi komið saman til fundar í Ráðherrabústaðnum í gær þar sem fyrirhuguð afgreiðsla á svonefndum orkupakka 3 frá ESB á Alþingi hafi verið til umræðu. Þetta þýðir að hörð átök eru framundan innan Sjálfstæðisflokksins  um málið og sennilega innan Framsóknarflokksins líka. Staðan innan VG er óljósari,“

segir Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann telur að Sjálfstæðisflokkurinn gæti klofnað verði þriðji orkupakkinn samþykktur og nýtt félag um fullveldi Íslands stofnað:

„Á næsta landsfundi munu afleiðingarnar koma fram í harkalegum deilum í umræðum um málið og við kjör forystumanna a.m.k. í verulega minnkandi hlutfalli þeirra, sem greiða forystumönnum atkvæði sitt. Þá er ekki ólíklegt að umræður hefjist fyrir alvöru um stofnun sérstaks Sjálfstæðisfélags um fullveldi Íslands, sem hefur stöku sinum verið reifað á undanförnum mánuðum. Átök af þessu tagi munu óhjákvæmilega koma fram í fylgi flokksins. Strax í gærkvöldi eftir fréttina á mbl.is komu fram yfirlýsingar á Facebook frá nafngreindum einstaklingum þess efnis, að gerðist þetta mundu þeir hinir sömu hætta að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Í ljósi þess að fylgi flokksins virðist komið niður í fjórðung má hann ekki við meira fylgistapi. Á hliðarlínu bíður Miðflokkurinn þótt forystumenn hans hafi ekki úr háum söðli að detta þegar kemur að samskiptum við ESB. Á að trúa því að þingmenn vilji kalla þessi ósköp yfir þann flokk, sem hefur hafið þá til vegs á Alþingi og í ríkisstjórn?“

Þvælt í gegnum þingið

Hann segir að komið hafi í ljós síðastliðið haust að grasrótin innan Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki viljað taka því þegjandi og hljóðalaust að þingmenn flokksins samþykktu þriðja orkupakkann:

„Verði þetta að veruleika má gera ráð fyrir að tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins leggi málið fyrir á þann veg, að eftir nákvæma yfirferð á fram kominni gagnrýni sé niðurstaða þeirra sú, að engin hætta sé á ferðum (og vafalaust einhver svokölluð sérfræðiálit lögð fram því til stuðnings) og ekki ólíklegt að einhvers konar yfirlýsing frá Brussel verði lögð fram því til staðfestingar. Sennilega átta ráðherrarnir sig ekki á, að fólk er fyrir löngu búið að sjá í gegnum „sérfræði“álit og að almennir borgarar taka ekki mark á yfirlýsingum frá Brussel, þar sem tilbúnir orðaleikir hafa blómstrað meir og betur en áður hefur þekkst.“

Uppskera líkt og þeir sá

Styrmir segir ekki ólíklegt að málið verði keyrt í gegnum þingið á skömmum tíma, forystumenn stjórnarflokkanna muni sjá til þess. En það muni hafa afleiðingar í för með sér:

„En hvað mun gerast innan Sjálfstæðisflokksins í framhaldinu? Þeir þingmenn flokksins, sem greiða atkvæði með orkupakkanum munu missa traust flokksmanna með afgerandi hætti. Verði þeir þess ekki varir á næstu vikum munu þeir finna það skýrt og greinilega í prófkjörumvegna næstu alþingiskosninga. Hér er nefnilega ekki á ferð venjuleg pólitískt álitaefni heldur grundvallarmál, sem varðar fullveldi Íslands og yfirráð yfir einni af helztu auðlindum landsins,“

segir Styrmir og bætir við :

„Stór hópur flokksmanna mun ekki fyrirgefa þeim þingmönnum, sem bregðast í slíku máli.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“