fbpx
Föstudagur 14.desember 2018
Eyjan

Kalman krefst afsagnar Steingríms vegna Kjærsgaard

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 7. ágúst 2018 09:40

Jón Kalman Stefánsson, rithöfundur.

Jón Kalman Stefánsson, rithöfundur, krefur Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, afsagnar vegna boðs Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, til Íslands í tilefni af Þingvallafundinum sögulega í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í pistli Jóns í danska blaðinu Information og  Kvennablaðið greinir frá.

Jón segir að Steingrímur ætti að biðjast afsökunar á að hafa boðið Piu hingað til lands og ávarpað hátíðarþingfund Alþingis. Þá ætti Steingrímur að segja af sér og leyfa öðrum að taka við stöðu forseta Alþingis.

Steingrímur hefur þó sjálfur svarið af sér þá synd að hafa boðið Piu Kjærsgaard hingað til lands, sú ákvörðun hafi verið tekin þegar Unnur Brá Konráðsdóttir hafi gegnt embætti forseta Alþingis.

Unnur Brá hefur ekki viljað tjá sig um málið við Eyjuna.

 

Jón Kalman segir í grein sinni að Kjærsgaard sé stjórnmálamaður sem álíti eigin menningu æðri og betri og vilji halda henni hreinni. Hann líkir henni við Marine Le Pen í Frakklandi og Donald Trump í Bandaríkjunum, þau stundi svipuð stjórnmál.

Þá segir hann að Íslendingar geti ekki staðið hjá og horft í aðra átt meðan fasismi læðist aftan að öðrum Evrópubúum, dulbúinn grímu lýðræðis sem boði hatur og umburðarleysi gagnvart öðrum skoðunum í stað samræðu og samkenndar.

Jón Kalman var nýlega tilnefndur til  bókmenntaverðlauna „Nýju akademíunnar“, sem er eins konar staðgengill Nóbelsverðlaunanna fyrir bókmenntir, sem lesa má nánar um hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af