fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Hægrið á sigurbraut í Grikklandi – öfgaflokkar ná sér ekki á strik

Egill Helgason
Miðvikudaginn 3. júlí 2019 22:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru kosningar hér í Grikklandi á sunnudaginn. Maður verður reyndar ekki var við að sé mikil stemming fyrir þeim. Í raun er skrítið að halda sumarkosningar í þessu landi, hingað er vænst 35 milljóna ferðamanna á þessu ári. Háferðamannatíminn er að byrja og margir, einkum ungt fólk, eru í burtu frá heimilum sínum að vinna í ferðaþjónustu.

Spennan er ekki mikil varðandi úrslitin. Eins og kunningi minn sagði við mig, gamla elítan tekur við af nýju elítunni. Alexis Tsipras forsætisráðherra verður rutt frá völdum og flokki hans Syriza. Frá sjónarhóli kjósenda er það í refsingarskyni fyrir loforð sem ekki var staðið við, stór fyrirheit sem reyndust innantóm, langvinna aðhaldsstefnu. Þegar Syriza tók við völdum 2015 var hann talinn vinstri sinnaðasti flokkur sem var við stjórn í Evrópu. Nú má segja að hann sé orðinn ósköp venjulegur krataflokkur. Flokknum er spáð um 28-29 prósenta fylgi.

Sigurvegari kosninganna verður án efa Nýtt lýðræði eða Nea Demokratia. Sá flokkur er ekki ólíkur Sjálfstæðisflokknum íslenska, að öðru leyti en því að hann er mjög Evrópusinnaður. Nea Demokratia er stórt bandalag sem nær frá hægri og yfir á miðjuna, mjög hagsmunatengt, það er ekki tilviljun að núverandi formaður og tilvonandi forsætisráðherra, Kyriakos Mitsotakis (sjá mynd) er kominn af þekktri valdafjölskyldu, faðir hans var forsætisráðherra frá 1990 til 1993. Pólitísk áhrif í Grikklandi ganga mjög oft í erfðir.

Nea Demokratia er með 38-39 prósenta fylgi í skoðanakönnunum. Það mun hjálpa flokknum að mynda ríkisstjórn að sá flokkur sem fær flest atkvæði hreppir 50 þingmenn í nokkurs konar bónus. En raunin gæti líka orðið sú að Nea Demokratia þurfi að semja við smáflokka um stuðning.

Annars má segja að það sé merkilegt eftir allar hremmingarnar sem Grikkland hefur gengið í gegnum í kreppunni hversu lítt öfgaflokkar eiga upp á pallborðið. Hinn ógeðfeldi nýnasistaflokkur Gyllt dögun er ekki með nema um 4 prósent í skoðanakönnunum, fylgið hrynur frá því í síðustu kosningum. Kommúnistaflokkurinn er með sín föstu 5 prósent sem ekkert fær haggað. Elleniki Lisi eða Gríska lausnin er smáflokkur sem gæti náð nokkrum mönnum inn, hann vill að Grikkir halli sér að Rússum.

Horfur eru á að þriðji stærsti flokkurinn verði Kinal, en það er hreyfing sem er samsett úr smáum miðjuflokkum og leifunum af Pasok, sósíalistaflokknum sem eitt sinn var stórveldi í grískum stjórmálum. Þessum flokki er spáð um 8 prósenta fylgi, þannig að það má með sanni segja að núorðið séu Nea Demokratia og Syriza turnarnir í grískum stjórnmálum.

Mera25, flokkur Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra, hagfræðings og mælskumanns, hefur verið að sækja aðeins í sig veðrið og virðist eiga möguleika að ná mönnum á þing. Flokkurinn mælist með meira en 3 prósenta fylgi – en þar liggur markið til að fá þingmenn kosna.

Eins og fyrr segir eru Grikkir furðu lítt snoknir fyrir öfgapólitík þrátt fyrir hina hrikalegu kreppu sem hefur ríkt í landinu. Tilraunin með Syriza fór á sinn hátt út um þúfur – flokkurinn reyndist vera þægur lánadrottnum Grikklands en breytti í raun ekki miklu. Nea Demokratia segir að vinstri mennirnir í Syriza hafi eytt dýrmætum tíma sem hefði mátt nota til að hífa Grikkland upp úr kreppunni. Tsipras forsætisráðherra segir á móti að efnahagsástandið hafi farið batnandi – og að það sé Nea Demokratia að kenna að Grikkir steyptust ofan í hina djúpu kreppu.

Vissulega er nokkuð til í því. Samt varla von á stórkostlegum breytingum við stjórnarskiptin. Stærstu flokkarnir eru hallir undir Evrópusambandið. Nea Demokratia segist hins vegar ætla að lækka skatta, álögur á Grikki hafa hækkað mjög á krepputímanum, Nea Demokratia segir að ríkið hafi tekið of mikið til sín. Til dæmis vill flokkurinn lækka skatta á fyrirtæki. Þeir eru hins vegar skuldbundnir til þess að skila fjárlagaafgangi upp á 3,5 prósent til ársins 2022 en eftir það er kveðið á um að hann skuli vera 2,2 prósent. Þetta bindur hendur tilvonandi ráðamanna ansi mikið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus