fbpx
Mánudagur 15.apríl 2024
Eyjan

Már skilar góðu búi – athyglisverð ráðning nýs bankastjóra

Egill Helgason
Miðvikudaginn 24. júlí 2019 20:51

Ásgeir Jónsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Miðað við stöðuna í íslenskum efnahagsmálum mætti ætla að Már Guðmundsson hafi staðið sig ágætlega sem seðlabankastjóri. Sumpart erum við að lifa nýja tíma í íslenskri hagstjórn þar sem hægt er að koma vöxtum nálægt einhverju sem eðlilegt getur talist. Um þetta skrifaði hagfræðingur nú í vor:

„Fréttablaðið hringdi í mig í gær – og spurði um mitt álit á 50 punkta stýrivaxtalækkun Seðlabankans. Ég sagði vaxtalækkun jákvæð tíðindi – enda munar miklu um lægri fjármagnskostnað nú þegar rekstrartekjur fyrirtækja eru almennt að dragast saman.

Hér er þó mun meira undir: Frá seinna stríði hafa allar hagsveiflur hérlendis endað með gengisfalli og verðbólgu en við erum nú að ná því nú að lenda hagkerfinu með öðrum hætti. Og við getum notað peningastefnuna til þess að mýkja lendingu efnahagslífsins í stað þess að þurfa að hækka vexti í mót samdrætti til þess að styðja við fallandi gengi krónunnar – líkt og gerðist árið 2001 og 2008.

Þrír þættir skipti þar mestu máli.

Í fyrsta lagi er enn viðskiptaafgangur til staðar, enda hefur alls ekkert hrun átt sér stað í ferðaþjónustu, heldur hefur greinin aðeins verið að hægja á sér. Sú þróun var raunar hafin áður en WOW air féll. Viðskiptaafgangurinn myndar mikilvægan stuðning við krónuna.

Í öðru lagi hefur sparnaður almennt verið meiri á síðustu árum og einkaneysla minni – heldur en áður hefur þekkst – sem aftur leiðir til minni innflutnings og hærra jafnvægisgengis krónunnar. Við höfum – þrátt fyrir allt – ekki misst hagkerfið út í þenslu, ofhitnun og verðbólgu þrátt fyrir mikið vaxtarskeið. Það er mjög jákvætt og veldur því að ekki er þörf á gengisleiðréttingu. Með þessu er brotið blað í íslenskri hagsögu.

Í þriðja lagi búum við yfir öflugum gjaldeyrisforða. Seðlabankinn getur þannig leyft sér að minnka vaxtamun við útlönd með því að lækka vexti án þess að eiga á hættu að gengið gefi eftir. Það gátum við til dæmis ekki árin 2008 og 2001

Allt þetta þýðir að við séum farin að geta beitt peningastefnunni meira í líkingu við önnur lönd til þess að milda niðursveifluna – og tryggja stöðugleika.“

Hagfræðingurinn sem setti þetta saman er Ásgeir Jónsson. Hann tekur nú við embætti seðlabankastjóra. Ásgeir er víðsýnn maður og fjölmenntaður. Hefur ekki bara ritað margt um hagfræði heldur líka um sagnfræðileg efni, hagsögu, skipulagsmál, og hann hefur gefið út bók með kvæðum Jóns Arasonar og skrifað að henni formála.

Hann ólst upp í sveit, í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi og síðar á Hólum í Hjaltadal. Ásgeir hefur lýst því skemmtilega hvernig var að vera sveitastrákur og alast upp í talsverðri einangrun. Hann er sonur Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi þingmanns VG – maður les óskemmtileg ummæli samskiptamiðlum um að ráðning hans stafi að einherju leyti af því. En þeir eru ekki samferðamenn í pólítík feðgarnir. Ásgeir er alþjóðasinnaður og frjálslyndur eins og sjá má á grein eftir hann sem birtist í vor í Mannlífi. Það er engin leið að líta á ráðningu Ásgeirs sem pólitíska. Þarna er fylgt þeirri stefnu sem var mörkuð eftir hrun að ráða fagmenn í Seðlabankann – sem betur fer.

Ásgeir fær oft slæma útreið á Facebook vegna starfa sinna í kringum hrun. Þeir sem þekkja til hans tala hins vegar afar vel um hann. Gylfi Magnússon, helsti keppinautur hans um stöðuna, skrifar á Facebook:

„Ég þekki Ásgeir vel og af góðu einu. Við höfum starfað saman árum saman, um tíma í sömu deild en undanfarin ár við svipuð verkefni í sitthvorri deildinni hjá Háskóla Íslands. Við höldum áfram að vinna saman en nú á vettvangi Seðlabankans. Ásgeir er vel til þess fallinn að takast á við þetta vandasama verkefni og ég óska honum til hamingju með skipunina.“

Maður sér líka oft að fólk hnjóðar í Ásgeir vegna þess hvernig hann talar. Það er eitt dæmið um það hvernig Facebook er farvegur fyrir ókurteisi og yfirgang. Ásgeir stamar – hefur þann djöful að draga. En hann má eiga að hann hefur að mestu leyti unnið bug á því.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Ásgeiri reiðir af í Seðlabankanum. Það er varla að vænta stórvægilegrar stefnubreytingar, en fólk ætti að bíða aðeins með sleggjudómana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Fyrrverandi forstjóri Reita: Hús eru byggð of þétt og of mikill hraði í byggingarframkvæmdum

Fyrrverandi forstjóri Reita: Hús eru byggð of þétt og of mikill hraði í byggingarframkvæmdum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Skipta út bankaráði Landsbankans í heild sinni eftir TM-hneykslið

Skipta út bankaráði Landsbankans í heild sinni eftir TM-hneykslið
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ásakanir um lýðskrum og óráðsíu gengu á víxl á fundi borgarstjórnar og spurt hvort enginn viti hversu margir milljarðar eru farnir

Ásakanir um lýðskrum og óráðsíu gengu á víxl á fundi borgarstjórnar og spurt hvort enginn viti hversu margir milljarðar eru farnir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Bjarkey ráðherra í fyrsta skipti

Bjarkey ráðherra í fyrsta skipti