fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Birgir segir ekki „tilefni“ til almennrar atkvæðagreiðslu – Styrmir svarar um hæl

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 23. júlí 2019 09:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sú ólga sem ríkt hefur meðal grasrótar Sjálfstæðisflokksins um þriðja orkupakkann er sögð ná inn fyrir raðir þingflokksins einnig, að sögn Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, sem hefur verið leiðandi í andstöðunni gegn innleiðingu orkupakkans. Hann hefur hvatt til þess að safnað verði undirskriftum til að knýja fram atkvæðagreiðslu, líkt og reglur flokksins heimili samkvæmt 6. Grein skipulagsreglna flokksins, sem kveður á um að ef 5000 undirskriftir nást, sé miðstjórn flokksins skylt að láta fara fram almenna kosningu um það málefni sem um ræðir.

Engin fordæmi – Ekkert tilefni

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gefur lítið fyrir hugmynd Styrmis í Morgunblaðinu í dag, og segist ekki vita til þess að nein undirskriftasöfnun sé hafin. Hann telur ekkert tilefni til slíkrar atkvæðagreiðslu heldur og að engin fordæmi séu fyrir því að heimildinni, sem sé nýleg af nálinni, hafi verið beitt:

„Þetta mál hefur að mínu mati fengið mun meiri umfjöllun og gagnrýni en innihald þess gefur tilefni til. Það er út af fyrir sig staða sem þarf með einhverjum hætti að bregðast við, en gefur að mínu mati ekki tilefni til almennrar atkvæðagreiðslu,“

Segir Birgir og nefnir að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér þær breytingar sem andstæðingar hans tali fyrir. Hann býst þó við að þingflokkurinn fundi um málið á næstunni:

„Þingflokkurinn hefur rætt það, vegna þessara skiptu skoðana innan flokksins, að það sé brýnt að nota sumarið til að eiga samtöl við flokksmenn með einum eða öðrum hætti og ræða þetta mál, koma sjónarmiðum á framfæri og hlusta á athugasemdir.“

Engin andmæli innan þingflokksins

Um meint ósætti innan þingflokksins varðandi orkupakkann, segir Birgir:

„Ég veit það eitt að þegar ákvarðanir voru teknar í þessum efnum innan þingflokksins, þá var það gert án andmæla og ég tel enga ástæðu til að ætla annað en að sú samstaða sem verið hefur í þingflokknum haldist.“

Vilji andstæðinga orkupakkans innan flokksins er að flýta flokksráðsfundi sem áætlaður er í september, og halda hann áður en þingið kemur saman til að ræða orkupakkann. Birgir segir það ekki koma til greina, finna þurfi annan vettvang til slíkra fundarhalda:

„Flokksráðsfundur er haldinn af öðru tilefni og til þess að fjalla almennt um stefnumörkun flokksins, en ekki til að taka afstöðu til einstakra mála. Það er nokkuð umhendis að færa jafn stóran og viðamikinn fund til.“

Haft er eftir Matthildi Skúladóttur, stjórnarmanni í Verði, fulltrúaráði sjálfstæðisfélagsins í Reykjavík, að margir séu óánægðir með ríkisstjórnina og stöðu málsins og undir orð hennar taka Erlendur Borgþórsson, formaður hverfafélags sjálfstæðismanna í Smáíbúða-, Bústaða og Fossvogshverfi og Jón Kári Jónsson, formaður hverfafélags flokksins í Hlíða- og Holtahverfi.

Rökleysa hjá Birgi

Styrmir svarar Birgi á heimasíðu sinni í morgun og segir röksemdarfærslu hans ekki ganga upp:

„Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, er einhver bezti greinandi á íslenzka pólitík, sem ég hef kynnzt um dagana og þekki hann vel vegna samstarfs okkar á ritstjórn Morgunblaðsins á hans yngri árum. Og einmitt þess vegna koma mér á óvart þau rök, sem hann notar gegn því að efnt verði til undirskriftasöfnunar meðal flokksmanna um almenna atkvæðagreiðslu í þeirra hópi um orkupakkamálið með tilvísun í skipulagsreglur Sjálfstæðisflokksins, á forsíðu Morgunblaðsins í morgun.

Getur verið að þetta séu þau rök, sem forystusveit Sjálfstæðisflokksins ætli að nota gegn því að slík undirskriftarsöfnun fari fram?! Að „heimildinni hafi aldrei verið beitt“?! Til hvers var hún sett inn í skipulagsreglurnar? Var það bara sýndarmennska? Og „að hún hafi nýlega komið inn“?! Hvað þarf hún að verða gömul til þess að henni megi beita?! Svona röksemdir ganga nú ekki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt