fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

30 ár frá fjöldamorðunum á Torgi hins himneska friðar

Egill Helgason
Þriðjudaginn 4. júní 2019 10:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag eru liðin 30 ár frá fjöldamorðunum á Tiananmen-torgi í Peking. Þau komu í kjölfarið á miklum mótmælum námsmanna og ungs fólks sem héldu til á torginu vikum saman og kröfðust lýðræðisumbóta. Mótmælin voru algjörlega friðsamleg – líktust nánast skemmtilegri útihátíð. Heimsbyggðin horfði á með öndina í hálsinum. Þetta var árið sem kommúnisminn hrundi í Evrópu.

Áfallið var mikið þegar fréttist að kínverska stjórnin hefði brugðist við mótmælunum með skefjalausu ofbeldi. Enginn veit hversu margir létu lífið í fjöldamorðunum á Tiananmen-torgi. Mörg hundruð manns eða þúsundir? Margir voru handteknir – sumir hurfu og spurðist ekki til þeirra framar.

Kínversk stjórnvöld eru mjög viðkvæm fyrir því að þessir atburðir eru rifjaðir upp. Þeirra er ekki minnst í Kína – því er líkt og þeir hafi verið þurrkaðir út úr sögunni. Fréttir herma að öryggisgæslan á torginu hafi verið hert í dag. Erlendir fréttamenn fá ekki að koma inn á torgið.

Hjörleifur Sveinbjörnsson stundaði nám í Kína á sínum tíma. Hjörleifur skrifar magnaða grein um atburðina á Facebook. Ég ætla leyfa mér að endurbirta hana hérna:

„Í dag eru 30 ár liðin frá því að harðlínuöfl í kínverska kommúnistaflokknum siguðu hernum á námsmenn og borgarbúa á og í nágrenni við Torg hins himneska friðar í Beijing. Fjöldamorðin sem þarna voru framin voru til marks um rökþrot ráðamanna í alræðisríki andspænis lýðræðishreyfingu nýrrar kynslóðar um þjóðfélagsumbætur, lýðréttindi og aukið persónulegt frelsi. Viðbrögð ráðamanna voru í engu samræmi við tilefnið. Á hinn bóginn eru ofsafengin viðbrögð innbyggð í alræðisskipulagið þar sem ráðamenn skynja að þeir eiga ekki lögmætt tilkall til valda á sama hátt og í löndum þar sem stjórnmálamenn öðlast umboð almennings í frjálsum kosningum.

Æ síðan hefur þessi dagsetning, 4. júní, verið bannorð. Hún er ekki nefnd í skólabókum og ófinnanleg á Netinu. Stjórnvöld hafa lagt sig fram um að þegja hana í hel og bannað alla umfjöllun að viðlögðum refsingum. Það hefur þeim tekist svo vel að heilu kynslóðirnar í landinu hafa vaxið úr grasi án þess að hafa grænan grun það sem þarna gerðist. Svo eru öll hin sem meta þau hyggindi sem í hag koma og leiða ótíðindin hjá sér. En auðvitað er fólki vorkunn, sérstaklega á allra seinustu árum eftir að stafrænt einræði – digital dictatorship – náði flugi í landinu með áður óþekktu stigi eftirlits og þar með ágengu taumhaldi á íbúunum.

Fyrst eftir fjöldamorðin voru kínversk stjórnvöld í skammarkrók almenningsálitsins í heiminum og ráðamenn sem sóttu Beijing heim voru ódeigir að lesa þeim pistilinn í mannréttindamálum. Þetta er náttúrlega löngu liðin tíð og kínversk stjórnvöld sloppin úr sínum skammarkrók. Ýmsir vilja meina að þau hafi framleitt sig út úr honum. Eða hver vill setja sig upp á móti þeim sem mest efnahagslegt bolmagn hafa, með þeim afleiðingum sem það gæti haft?

Á seinni árum þykir mér farið að bera á því sjónarmiði að minningin um þessi fjöldamorð megi fara að sökkva í djúp gleymskunnar; langt sé um liðið og tími til kominn að kasta þessum syndum á bak við sig eins og segir í gamla hjálpræðisherssálminum. Á árunum þrjátíu sem liðin eru hafi Kína hvort sem er tekið hamskiptum með ótrúlegum efnahagsframförum og bættum lífskjörum og sé orðið óþekkjanlegt frá því sem áður var. Víst er mikið til í þessu síðastnefnda en hitt er jafnsatt að sama valdaapparat stjórnar landinu nú og þá og ber því áfram fulla ábyrgð á því sem gerðist. Meðan kínversk stjórnvöld sýna hvorki vott af iðrun né neinn lit á að gera þetta mál upp skal ég fyrir mitt leyti vera eins og rispuð plata uppá það að halda minningunni vakandi, hér eftir sem hingað til. Minna má það ekki vera til að heiðra það unga fólk sem herinn drap á Torgi hins himneska friðar fyrir þrjátíu árum og hafði drýgt þann eina glæp að kalla eftir umbótum í lýðræðisátt. Það verður heldur ekki nógsamlega minnt á að ef alræðisyfirvöld, hver sem þau eru, komast upp með óhæfuverk án afleiðinga er alltaf aukin hætta á að sagan endurtaki sig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt