fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Kaldur norðanvindur á suðrænum sólskinseyjum

Egill Helgason
Fimmtudaginn 27. júní 2019 22:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á meðan Evrópa engist í hitakófi er ekkert sérstaklega hlýtt hér á grískum eyjum. Það er reyndar í kaldara lagi. Hér blæs þessa dagana vindur sem kallast Meltemi. Í forngrísku kallaðist hann Etesiai. Þetta er staðbundinn vindur sem blæs í Eyjahafi á sumrin.

Hann orsakast af háþrýstisvæði yfir Balkanskaga og lágþrýstisvæði yfir Tyrklandi. Vindurinn getur verið býsna kaldur, hann er þurr og honum geta fylgt mjög sterkar vindhviður. Þannig þurfa þeir sem sigla um Eyjahafið að sumarlagi ávallt að vera á verði gagnvart Meltemi.

Himinn er heiður, sólin skín, en vindurinn getur náð allt að 7-8 vindstigum á Beaufort-kvarða.

Meltemi getur líka verið býsna þrálátur. Á heitum sumrum ferðast fólk úr heitum borgum eins og Aþenu út í eyjarnar þar sem er meiri svali. En þegar Meltemi hefur blásið í marga daga í senn getur hann farið að fara í taugarnar á manni. Sandur blæs upp á ströndum, gluggar slást til, sjórinn er hvítfryssandi, sumir bátar sigla ekki, á kvöldin þarf maður að fara í peysu þótt maður sé á suðlægri breiddargráðu.

Þessa dagana blæs semsagt Meltemi. Það kemur smá hrollur í mann þar sem maður situr í vindinum, það er einhver undirliggjandi kuldi í honum. Samt þætti hitastigið víst nokkuð gott á Íslandi, vel yfir 20 gráðum. Það er allavega betra að vera í skjóli sunnanmegin.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt