fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Íslensk stjórnvöld íhuga risastóra peningagjöf frá Kína – Marshallaðstoðin bliknar í samanburði

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 15. maí 2019 12:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, segir íslensk stjórnvöld jákvæð fyrir því að þiggja gríðarlega fjármuni frá Kína í verkefni sem nefnist „Belti og braut“ og er um tíu sinnum stærra að umfangi en Marshall-aðstoðin á sínum tíma eftir seinni heimstyrjöldina. Þetta kom fram í þættinum Ísland og umheimur á Hringbraut um helgina.

„Belti og braut“ ku vera eitt helsta stefnumál Xi Jinping, leiðtoga Alþýðuveldisins Kína og miðar að stórtækum innviðaframkvæmdum um allan heim, sem kosta munu þúsundir milljarða dollara. Með þessu ætli Kínverjar sér að auka umsvif sín og áhrif til muna, en áætlunin fæddist árið 2013.

„Megintilgangur þess er að koma á kerfi sem gæti verið mikilvægur rammi fyrir alþjóðlega samvinnu og myndi hvetja til sameiginlegrar framþróunar. Þetta frumkvæði nær til fimm lykilsviða: Það er stefnumörkunar, innviða, viðskipta, fjármála og að tengja fólk saman. Það má segja þetta fimm tengingar á fimm lykilsviðum. Þetta stendur einnig fyrir opna, hreina og græna þróun, sem byggir á nánu samráði, sameiginlegu framlagi og ávinningi allra. Þetta var gert að frumkvæði Kína,“

sagði Zhijian sendiherra í þættinum á Hringbraut.

Ísland að skoða aðild

Zhijian segist vonast til að Ísland taki þátt í verkefninu Belti og braut, en nafnið vísar til gömlu Silkileiðarinnar, siglingaleiðarinnar milli Rómarveldis og Kína. Nær verkefnið frá Asíu og til Afríku, Mið-Austurlanda og Evrópu og skiptist í landleiðir (beltið) og sjóleiðir (brautin) og ná verkefnin yfir vegagerð, brúargerð, járnabrautir, hafnir og flugvelli, sem og ljósleiðara og annarskonar tækniuppbyggingu:

„Ísland var einn stofnaðila Innviðafjárfestingarbanka Asíu (AIIB). Síðan að „Belti og Braut“ var kynnt til sögunnar hefur ríkisstjórn Íslands sýnt vilja til að ræða mögulega þátttöku í „Belti og Braut“. Sem stendur eru báðar ríkisstjórnir að meta þetta. Ég vona að einn dag munum við komast að þeirri niðurstöðu með undirritun viljayfirlýsingar um samstarf (MoU) í Belti og Braut. Íslenska ríkisstjórnin hefur lýst þeirri afstöðu sinni að hún sé opin fyrir frumkvæðinu. Íslenska viðskiptaumhverfið hefur einnig sýnt mikinn áhuga á þátttöku í Belti og Braut. Eins og ég nefndi munu vonandi bæði ríkin innan tíðar taka ákvörðun um að ganga frá samkomulagi um málið. Ísland hefur ekki útilokað möguleikann á þátttöku í „Belti og Braut“. Ég tel líklegt, byggt á gagnkvæmum hagsmunum, miklum áhuga atvinnulífsins, sem og áhuga fólks innan stjórnsýslunnar, að bæði ríkin geti stigið það skref.“

Sendiherrann segir helstu samstarfsmöguleikana við Ísland vera norðurslóðasiglingarnar, en Kína hefur skilgreint sig sem „næstum því“ norðurslóðaland og hefur sett sér norðurslóðarstefnu:

„Í gegnum „Belti og Braut“ gætum við til dæmis horft til „Silkivegar Norðurslóða“ (“Polar Silk Road”) varðandi nýjar skipaflutningaleiðir um Norðurskautið. Við gætum horft til beins flugs milli ríkjanna tveggja, og annarra tækifæra á borð við hátækniiðnað, nýsköpun, baráttu við hlýnun loftslags, umhverfisvernd, sjálfbæra þróun, Netviðskipti, og svo mætti lengi telja. Ég trúi því að réttar ákvarðanir geti breytt miklu fyrir samskipti okkar í framtíðinni.“

Ekki að kaupa sig til áhrifa

Í dag eru 80 lönd þátttakendur í verkefninu og er fjöldi annarra ríkja að íhuga samstarf, þar á meðal Ísland. Verkefnið hefur verið harðlega gagnrýnt af Bandaríkjunum og nokkrum ríkjum innan Evrópu, þar sem því er haldið fram að Kínverjar séu að seilast eftir pólitískum áhrifum með því að kaupa sig inn í ríkisstjórnir, með slíkum upphæðum að svokallaðar skuldagildrur gætu myndast hjá efnaminni þátttökuríkjum.

Þessu neitar sendiherrann:

„Ég þekki til þessarar gagnrýni og hef skoðað hana. Ég hef tekið eftir viðbrögðum nokkurra ríkja. Mér sýnist að öll þessi ríki sem stjórnmálamenn og blaðamenn hafa gagnrýnt séu ekki sammála henni. Ég vil leggja áherslu á að frumkvæðið um Belti og Braut hefur skapa tækifæri til framþróunar og fyrir græna þróun. Þetta er ekki að skapa skuldagildrur. Það er niðurstaða allra þeirra ríkja er máli skipta. Það er einnig mín afstaða.“

Varar við þrýstingi Kínverja

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, hefur ítrekað varað við áhrifum Kínverja á alþjóðavísu, ekki síst á Íslandi. Sagði hann í grein í fyrra að Ísland þyrfti að hafa varann á þegar það tæki forystu í Norðurskautsráðinu, sem gerðist fyrr í þessum mánuði:

 „Þetta er mesta ábyrgðarstaða sem íslensk stjórnvöld takast á hendur á alþjóðavettvangi og mikilvægt að hún fari vel úr hendi og trúverðugleiki fullveldisins aukist en minnki ekki við þessa áraun og þann þrýsting sem henni fylgir.“

Á undan hafði Björn skrifað um framgöngu Kínverja í Ástralíu og á Grænlandi, en greinina má sjá hér.

Áróðurssendinefnd Kommúnistaflokks Kína hér á landi

Þá fjallaði Eyjan um heimsókn sex manna sendinefndar frá kommúnistaflokki Kína í fyrrasumar, sem titluð er sem alþjóðleg samskiptadeild, en hún hefur verið til frá tímum Maós og hefur leikið stórt hlutverk í áróðurs og áhrifastefnu Kommúnistaflokksins.

Í umfjöllun DV um sendinefndina segir meðal annars:

„Helstu málin sem nefndarmenn hafa beitt sér fyrir á undanförnum árum eru staða Kínverja gagnvart Tævan og eyjum í Suður Kínahafi sem Kínverjar hafa deilt við Filippseyjinga um. Hafa ýmsir ráðamenn heitið Kínverjum stuðningi í þessum málum í gegnum tíðina eftir að samskiptadeildin fundaði með þeim.“

Sjá nánar: Segir Bjarna Ben hafa verið þátttakanda í „sviðssetningu“ kínverska kommúnistaflokksins

Sjá nánar: Sendinefnd Kommúnistaflokksins fundaði með íslenskum ráðamönnum:Mannréttindi voru rædd

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt