fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Landhelgisgæslan tekur við formennsku í Arctic Coast Guard Forum

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 4. apríl 2019 10:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landhelgisgæsla Íslands tók í dag við formennsku í Arctic Coast Guard Forum, samtökum strandgæslustofnana á norðurslóðum, til næstu tveggja ára. Um er að ræða samráðsvettvang átta strandgæslustofnana en finnska strandgæslan hefur farið með formennsku í ráðinu undanfarin tvö ár.

Georg Kr Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, veitti sérstökum heiðursplatta viðtöku við hátíðlega athöfn í Turku og áréttaði mikilvægi samstarfs stofnananna á norðurslóðum. Hann hrósaði finnsku strandgæslunni fyrir vel unnin störf á undanförnum árum.

Á meðan Landhelgisgæslan gegnir formennsku verður sértök áhersla lögð á að efla samstarf ríkjanna átta enn frekar þegar kemur að leit og björgun auk þess sem mengunarvarnir og umhverfismál verða sett á oddinn. Þá verður umfangsmikil æfing haldin á Íslandi á vormánuðum 2021.

Undanfarna daga hafa sérfræðingar norðurskautsríkjanna átta fundað um helstu áskoranir á svæðinu auk þess sem æfingin Polaris 2019 fór fram á þriðjudag. Þar voru æfð viðbrögð við neyðarástandi um borð í skemmtiferðaskipi undan ströndum Finnlands. TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, tók þátt auk þess sem starfsmenn stofnunarinnar voru í æfingarstjórn í samhæfingarstöð finnsku strandgæslunnar.

Strandgæslustofnanir átta ríkja, Bandaríkjanna, Danmerkur, Finnlands, Íslands, Kanada, Noregs, Rússlands og Svíþjóðar, mynda samráðsvettvanginn en þjóðirnar undirrituðu yfirlýsingu um áframhaldandi samstarf á fundi forsvarsmanna stofnananna í Turku í Finnlandi í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt