fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Babýlon Berlín – snilldarlegir sjónvarpsþættir

Egill Helgason
Miðvikudaginn 3. apríl 2019 20:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Babylon Berlin eru þýskir sjónvarpsþættir – sem RÚV sýnir um þessar mundir. Ég sá þá reyndar á Netflix í Bandaríkjunum síðastliðið sumar og skrifaði stuttan pistil um þá. Þættirnir byggja lauslega á glæpasögum eftir Volker Kutscher en þær gerast á tíma Weimarlýðveldisins, á árunum í kringum 1930. Sumar bækurnar hef ég lesið líka, það verður að segjast eins og er að þættirnir eru betri. Þeir eru meistaralega vel gerðir, snjallir og frumlegir.

Manni finnst eins og takist ótrúlega vel að fanga tíðaranda þessara ára: Hin öfgafullu pólitísku átök, ofbeldið sem lá í loftinu, spillinguna, lostann, örbirgðina, óvissuna, fanatíkina. Hönnun þáttanna og útlit er sérlega flott – með því að nota gamlar myndir af götum er endurskapað lífið á strætum og torgum, þarna birtist manni til dæmis Alexanderplatz eins og það leit út fyrir stríð.

Aðalsprautan bak við þættina er Tom Twyker sem leikstýrði meðal annars Cloud Atlas og Run Lola Run. Þetta eru dýrustu sjónvarpsþættir í sögu Þýskalands. Þarna er til dæmis endurskapaður frægur næturklúbbur sem kallaðist Moka Efti. Þetta var dansklúbbur, kabarettstaður, matsölustaður og vændishús – allt í senn, eins og hæfir þessum brjálaða tíma.

Í þætti númer tvö er þessi sena þar sem söng- og leikkonan Severjia flytur þetta lag – Að ösku, að ryki….  Einkennilega áleitið lag og flott kvikmyndagerð.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt