fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Samfylkingin á móti einkarekstri til styttingar biðlista : „Eins og hver önnur vitleysa“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 19. apríl 2019 10:38

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og Oddný G. Harðardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þau Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, vilja bæði skoða aðra kosti áður en að ríkið semji við Klínikina um liðskiptiaðgerðir til að stytta þá gríðarlöngu biðlista sem myndast hafa um slíkar aðgerðir.

Þetta kemur fram í svörum þeirra við spurningum Björns Birgissonar, sjálfstætt starfandi blaðamanns, á Facebook.

Sem stendur eru þeir sem þurfa á slíkum aðgerðum að halda sendir til Svíþjóðar, fyrir um þrefalt hærri kostnað en kostar að gera slíka aðgerð hér á landi, en þar sem Klínikin, sem framkvæmt getur slíkar aðgerðir, flokkast undir einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, virðist það ekki koma til greina samkvæmt Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Hefur þetta vakið gremju hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, en Jón Gunnarsson segir Svandísi fullkunnugt um þetta ósætti þeirra.

Setur spurningamerki við einkarekstur

Svo virðist sem Svandís eigi hauk í horni hjá Samfylkingunni, ef marka má svör Loga og Oddnýjar.

Logi sagði aðspurður um hvort hann styddi þá ákvörðun að samið yrði við Klínikina, að skynsamlegra væri að ræða við aðrar stofnanir fyrst:

„Það er auðvitað lykilatriði að sjúklingar eiga ekki að þurfa að þjást í bið eftir mikilvægum aðgerðum og alltaf spurning um hvaða aðgerðir skulu settar í forgang yfir aðrar. Við heyrum mikið talað um liðskiptaaðgerðir – og kröfur um að samið verði við Klínikina um að framkvæma þær.En væri ekki skynsamlegra að ræða fyrst við eigin stofnanir og kanna getu þeirra til að taka að sér fleiri aðgerðir? Það eru þær stofnanir sem við höfum fjárfest í. Auðvitað vilja allir stytta biðlista en það þýðir ekki að það sé skynsamlegt að færa meira af grunnstoðum kerfisins í einkarekstur. Mikill meirihluta Íslendinga vill að heilbrigðisþjónusta sé fyrst og fremst veitt af hinu opinbera – það viljum við líka. Það er í höndum ríkisstjórnarinnar að ákvarða fjármagn og semja við Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og Akranesi um fleiri aðgerðir og stytta þannig biðlista. Þegar hefur verið samið um tiltekinn fjölda aðgerða og Landspítalinn og hin sjúkrahúsin hafa sinnt verkefninu eins og um var samið. Ég held því að það þurfi því fyrst og fremst fjármagn í opinbera kerfið, að semja um aukagreiðslur fyrir þessar aðgerðir og fullnýta getu spítalans og sjúkrahúsanna.“

Þegar gengið var á Loga um hvort þetta þýddi að hann vildi ekki samning við Klínikina, sagði Logi:

„Ég vil að áherslan sé á opinbert heilbrigðiskerfi fyrir alla og tel að það vanti fé þar inn. Ég vil frekar nota fé til að byggja fyrst upp fyrsta flokks opinbert heilbrigðiskerfi og gera það skilvirkt. Það er til staðar. Ég set því spurningarmerki við að nota fé ríkissjóðs í slíkan einkarekstur.“

Aðeins ef Klínikin væri eina von sjúklinga

Oddný fékk sömu spurningu frá Birni í einkaskilaboðum á Facebook.

„Það þarf að stytta biðina eftir aðgerðum og eftir því að fólk fái bót meina sinna. Ég vil að burðir opinbera heilbrigðiskerfisins verði nýttir eins og ég hef tekið fram á Facebook síðu minni og víðar – og ég vil hvorki tvöfalt kerfi, né að arður sé greiddur út úr heilbrigðisgeiranum.“

Þess skal getið að Klínikin hefur aldrei greitt út arð til eigenda sinna, samkvæmt heimasíðu.

Þegar gengið var á Oddnýju, hvort hún væri á móti samningum við Klínikina, var hún afdráttarlaus í svari sínu:

„Já, vegna þess að ég vil gera samninga við opinberar heilbrigðisstofnanir og styrkja þær með þeim samlegðaráhrifum sem fylgja. En auðvitað ef Klínikin væri eina von sjúklinga þá væri ég ekki á móti henni, en þannig standa málin ekki hér á landi. Sjálfstæðismenn vilja svelta opinbera kerfið og hafa gert það. Það hallar sannarlega á hið opinbera ef litið er til aukinna fjárveitinga síðustu 5-6 ára.“

Þess skal getið að Oddný var ósátt við að Björn hafi birt svör hennar á Facebook, þar sem spjall þeirra fór fram í einkaskilaboðum.

Þar segir Oddný að Björn hafi komist að rangri niðurstöðu í túlkun sinni á svörum hennar, að Samfylkingin vildi frekar greiða þrefaldan kostnað við aðgerðirnar í Svíþjóð, í stað þess að semja við Klínikina sem millileik í stöðunni, meðan unnið væri í biðlistunum.

Oddný brást við þessu hjá Birni:

„Í fyrsta lagi skrifaðir þú mér í einkaskilaboðum og sagir mér ekki að þú ætlaðir að birta svarið. Í öðru lagi er niðurstaða þín alröng. Ég vil að unnið sé á biðlistum og fjármunir settir til þess í heilbrigðiskerfi okkar. Þá þyrfti ekki að senda fólk til Svíþjóðar í aðgerð./
Túlkun þín á mínum svörum er röng. Og til þess að þurfa ekki að senda fólk til Svíþjóðar eigum við að setja aukna fjármuni til þeirra heilbrigðisstofnana sem hafa sitt þessum verkefnum vel og hafa burði til að gera enn betur ef fjármagn fæst,“

skrifaði Oddný og sagði afstöðu sína ekkert leyndamál.

Eins og hver önnur vitleysa

Síðar skrifaði Oddný færslu á Facebook um málið:

„Nú halda menn því fram að eina leiðin til að lina þjáningar þeirra sem þurfa á liðskiptaaðgerðum að halda, sé að ríkið setji fjármuni til einkasjúkrahúss. Þá reddist allt. Þetta er eins og hver önnur vitleysa. Það þarf sannarlega fjármagn til að stytta biðlista og ríkisstjórnin þarf að leysa málið. Við eigum að sjálfsögðu að fullnýta getu þeirra stofnana sem við höfum fjárfest í og byggt upp saman.“

Skortir fjármagn

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, hefur einnig skrifað um málið líkt og Oddný bendir á. Hann segir að þegar ráðist var í átak um aukna fjármögnun tiltekinna aðgerða, þar á meðal liðskiptiaðgerða, hafi sú áætlun verið van-áætluð, þar sem þörfin hafi verið meiri en fjármagnið dugði til.

Þá segir hann einnig að þær fjárhæðir sem um er rætt varðandi kostnaðinn á aðgerðunum séu ekki réttar:

„Að lokum, vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um liðskiptaaðgerðir undanfarið þá er rétt að hnykkja á nokkrum atriðum. Það er í höndum ríkisvaldsins að ákvarða fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar og í sameiningu er verkefnum forgangsraðað. Mikilvægt er, sérstaklega í ljósi smæðar íslensks heilbrigðiskerfis, að þegar ákvarðanir eru teknar um einstaka verkefni sé horft til áhrifa þeirra á heilbrigðiskerfið allt, aðra sjúklingahópa og skattgreiðendur.
Fyrir rúmum þremur árum tóku stjórnvöld þá ákvörðun að auka sérstaklega við fjármögnun tiltekinna aðgerða, þ.m.t. liðskiptaaðgerða, og fól Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi verkefnið. Ríkisvaldið ákvað hversu margar viðbótaraðgerðir skyldu gerðar og hafa stofnanirnar sem verkefnið tóku að sér sinnt þeim af krafti. Tilteknu fjármagni var varið til verkefnisins, það hefur verið nýtt og Landspítali eins og hin sjúkrahúsin hafa sinnt verkefninu eins og um var samið. Það er því ekki svo að hjá garði liggi ónýtt fjármagn eða að sjúkrahúsunum hafi ekki tekist að sinna verkefninu eins og þeim var ætlað. Þess má geta að samningurinn gerir ráð fyrir umtalsvert lægri meðalkostnaði per aðgerð en fram hefur komið að einstaklingum standi til boða að greiða úr eigin vasa hjá einkaaðila hérlendis.
Fyrir liggur, að mati Embættis landlæknis, að þörfin sé meiri en átakið gerði ráð fyrir og fari vaxandi. Landspítali vinnur stöðugt að umbótum á þessu ferli og þar þarf til dæmis að skoða frekar einföldun biðlista og undirbúning sjúklinga fyrir aðgerðir, m.a. er unnið að tilraunaverkefni á þessu sviði með Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ákveði stjórnvöld að ráðast í frekara átak gegn biðlistum þá lýsir Landspítali sig tilbúinn til að taka þátt í því verkefni til að efla þessa mikilvægu starfsemi.

Ísland er lítið land og það er álit heilbrigðisráðherra, Embættis landlæknis sem og Landspítala að mikilvægt sé að sérhæfð þjónusta, svo sem bæklunarskurðlækningar, sé ekki dreifð um of á litlar einingar á sama svæði. Þetta er afar mikilvægt til að viðhalda þjálfun starfsfólks og tryggja getu spítalans til að gegna mikilvægu hlutverki sínu í öryggisneti landsins. sem og kennsluhlutverki.
Margítrekað hefur komið fram að sá vandi sem að spítalanum snýr vegna þeirra einstaklinga sem ekki geta útskrifast, þar sem þeir bíða annarra úrræða, dregur úr getu hans til sinna sínu lögskipaða hlutverki – sem er að veita háþróaða meðferð, hjúkrun og lækningar til sjúklinga sem sannarlega þurfa flókna meðferð. Lausnin við þessu er ekki að draga úr getu spítalans til að sinna sínu kjarnahlutverki og færa út af stofnuninni flókin verkefni. Lausnin er sú að byggja upp þau stuðnings- og búsetuúrræði sem fólk bíður eftir. Stjórnvöld hafa enda brugðist við með skynsamlegum hætti og stendur nú yfir öflug uppbygging hjúkrunarheimila auk þess sem nýtt sjúkrahótel verður opnað á næstu vikum sem enn eykur á slagkraft spítalans.
Það er forgangsmál okkar allra að fulllnýta getu opinberra stofnana og þeirra fjárfestinga sem ríkið hefur þegar ráðist þar í til að mæta þörfum þeirra sjúklinga sem sannarlega þjást í bið sinni eftir viðtali og aðgerð í öruggu umhverfi.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Katrín vildi Geir Haarde í fangelsi – hefur ekki beðist afsökunar

Orðið á götunni: Katrín vildi Geir Haarde í fangelsi – hefur ekki beðist afsökunar
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Katrín með forskot á Baldur – Halla Hrund sækir í sig veðrið

Katrín með forskot á Baldur – Halla Hrund sækir í sig veðrið
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kúrekar og jakkafatalakkar Alþingis – „Fólkið í fínu fötunum, með fínu skoðanirnar og fínu brosin“

Kúrekar og jakkafatalakkar Alþingis – „Fólkið í fínu fötunum, með fínu skoðanirnar og fínu brosin“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt