fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Sama veður og í fyrra?

Egill Helgason
Miðvikudaginn 17. apríl 2019 16:43

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Veðurfræðingurinn glöggi, Einar Sveinbjörnsson, skrifar skemmtilega pistla um veðrið á Facebook. En það er ekki alltaf fagnaðarerindi sem hann boðar. Í gær rýndi Einar í langtímaspár, frá maí til júní, og byggði á þremur mismunandi veðurlíkönum fyrir tímabilið, en þó aðallega túlkun á spá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar, sem hann kallar svo.

Af þessu virðist mega ráða að veðrið, að minnsta kosti frameftir sumri, verði ekki ósvipað því sem var í fyrra. Semsagt heldur dapurt sunnan- og suðvestanlands. Og nú hefur það breyst að erfiðara er að komast frá landinu en áður, verð á flugi hefur hækkað, í fyrra brugðu margir á það ráð að flýja land undan veðrinu.

En það gæti, líkt og í fyrrasumar, orðið gott fyrir norðan og austan.

En svona er þetta hjá Einari veðurfræðingi:

a.
Byrjum á sjávarhitanum. Köldu fráviki er spáð suður af Grænlandi og hlýju norðaustur á hafsvæðinu norðaustur af Íslandi. Mikið jákvætt frávik er og spáð áfram við Alaska og í Beringssundi. Eins minna en víðfeðmt suður í Atlantshafi. Frávikin móta lofthringrásina með öðru.

b.
Næst eru það frávik stöðu þrýstiflata í háloftunum (500hPa). Samkvæmt spánni er áberandi jákvætt frávik vestur af Írlandi, en jafnvægi suðvestur af Grænlandi og við Nýfundnaland. Með öðrum orðum: Ákveðnari SV-átt hér yfir en að jafnaði.

c.
Þá er það þrýstifarið. Mestu skiptir að sjá háþrýstifrávik við Bretlandseyjar. Gæti bent til norðlægar og austlægar legu Asoreyjahæðarinnar framan af sumri. Eða endurteknar fyrirstöðuhæðir á sömu slóðum. Reyndar er vísbending í þrýstiflata frávikinu um einmitt hitt síðarnefnda. Skv. þessu ríkjandi S- og SV-vindar og af nokkuð hlýjum uppruna.

d.
Frávik á hita eru sýnd sem líkur á því að meðalhiti hafni í efsta þriðjungi miðað við síðustu 30 árin á undan. Samkvæmt kortinu eru allt að 60-70% líkur á að hitinn verði yfir meðallagi norðan og austanlands. Ekki síst á hálendinu. Hins vegar eru 20-40% líkur á að hiti verði markvert undir meðallagi með suður- og suðvesturströndinni.

e.
Að síðustu úrkoman. Hana er að jafnaði erfiðast að túlka í þessum spám. Samkvæmt kortinu eru 40-60% líkur á að úrkoma teljist markvert mikil (efri þriðjungur) um vestan- og norðvestanvert landið. Staðsetning frávikanna, auk þeirra sem koma fram í N-Noregi gætu bent til þessa að vindur af SV og V verði nokkuð tíður þessa mánuði á kostnað A- og NA-átta.

Eins og fyrr segir gæti verið erfiðara að komast af landinu þetta sumar en síðustu ár. Hvað er þá til ráða? Það er ekki beinlínis ódýrt að ferðast um Ísland heldur. Tjaldútilega í Atlavík eða Ásbyrgi?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt