fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Eyjan

Nauðsyn þess að kenna sögu

Egill Helgason
Mánudaginn 1. apríl 2019 23:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér er rætt um hvernig eigi að kenna íslensku. Rannsókn sýnir að kennslubækur eru gamlar – þær eru ekki líklegar til að höfða til nemenda.

Það er svosem ekki nýtt. Ég man varla eftir íslenskukennslubók í skóla sem ekki var gjörsamlega úrelt. Í barnaskóla voru settar í hendur manns lestrarbækur sem innihéldu mikið af textum úr gamla sveitasamfélaginu –það var mikið af orðum og orðatiltækjum úr gömlum búskaparháttum sem maður átti að skilja. Þetta kom manni einhvern veginn ekki mikið við.

Þá þótti manni það bera vott um dirfsku þegar maður handfjatlaði bókina Skólaljóð – og sá að þar voru kvæði eftir Stein Steinarr og Tómas Guðmundsson. Að sigra heiminn er eins og að spila á spil og Fjallganga – þetta var nútíminn.

Seinna man ég eftir íslenskukennslubók sem var miklu nútímalegri – þar var til dæmis að finna kvæði eftir Hannes Pétursson. Mér fannst þetta stórkostlegt þegar ég var 13 ára.

Sólglampandi fiðrildi
eru flugvélarnar á sumrin;
flögra þær yfir fjöllunum:
fagurbláum risaliljum Íslands.

Í menntaskóla fékk maður svo í hendurnar Sýnisbók íslenskra bókmennta sem Sigurður Nordal hafði tekið saman. Ekki man ég til þess að hún hafi vakið mikinn áhuga.

En svo breyttust tímarnir og samtímabókmenntir héldu innreið sína í skólakerfið. Yfir því var kvartað í mörgum blaðagreinum og velvakendabréfum. Ég man til dæmis sérstaklega eftir bráðskemmtilegum pistlum eftir Guðmund Guðmundarson sem titlaði sig sem fv. framkvæmdastjóra og birtust í Morgunblaðinu:

Margt af því sem var lesið þegar Guðmundur mundaði stílvopnið telst væntanlega úrelt núna. Það voru samtímabókmenntir þess tíma. Kristján Jóhann Jónsson sem stjórnaði rannsókninni segir:

„Kenn­ar­ar hafa mikið val en samt er val á bók­mennt­um í kennslu ein­hæft. Þetta er frek­ar spurn­ing um hvað er valið og hvers vegna. Það er af­skap­lega margt sem þarf að ræða. Frelsi er mjög gott til margra hluta en það þarf að halda út í gæðamati.“

Þetta er auðvitað verðugt umhugsunarefni. Hvað á að leggja áherslu á skólum og í hvaða mæli – klassískar bókmenntir, bókmenntir úr samtímanum, þess vegna úr síðustu jólavertíð, og þá í hvaða hlutfalli? Á að reyna að gefa þokkalegt heillegt yfirlit yfir strauma og stefnur  – eða á einungis að freista þess að gera nemendur læsa á fáa valda texta? Svo þeir geti lesið sér til skilnings?

Í asanum sem nú er komast menn kannski ekki yfir mikið. Það er eins og sé alltaf tímaskortur, svo margt sem glepur hugann. Þannig upplifði maður ekki heiminn í því Íslandi sem ég ólst upp í. Eins og Guðmundur talar um voru börn þá látin læra kvæði utanbókar – og það alls ekki svo fá. Ég bý að þeim sumum en hef ennþá fullkomið óþol gagnvart Sólskríkju Þorsteins Erlingssonar sem var eitt utanbókarkvæðanna. Þannig geta hlutir farið öfugt ofan í skólabörn.

Þetta leiðir hugann að öðru – og það er sögukennsla í skólum. Og það er ekki bara vandamál hér á Íslandi heldur um víða veröld. Kennslan í sögu virðist afskaplega rýr – og alveg hippsum happs hvað er kennt ef saga kemst þá að yfirleitt. Tilhneigingin er að fella hana inn í félagsgreinar þar sem hún verður einhvers konar aukabúgrein.

Við höfum lifað góða og friðsama tíma þar sem menn fóru kannski að ímynda sér að þekking á mannkynssögu væri ónauðsynleg. Ef til vill fóru þeir að trúa því að við værum komin að endalokum sögunnar?

En það er mikill misskilningur. Heimurinn er fullur af hættum og ein aðferðin til að læra að varast þær er að þekkja söguna. Þeir sem kunna ekki sögu eru berskjaldaðir. Hafa litlar varnir gegn lýðskrumi, öfgum og samsæriskenningum.

Það er fyrst og fremst saga síðustu tveggja alda sem þarf að gaumgæfa. Það á að kenna um nýlendustefnuna, glæpi hennar og arðrán, þrælahald og þrælasölu, iðnbyltinguna, kapítalismann, uppgang þjóðernisstefnu, fasismann og kommúnismann, helstefnur 20. aldar sem nú virðast eiga kombakk, helförina og gúlagið, vígbúnaðarkapphlaupið, kjarnorkusprengjuna, réttindabaráttu.

Nafnastagl er almennt óþarft, raunar var það mestanpart aflagt þegar ég var í skóla. Ég man ekki til þess að það hafi verið til trafala.Það þyrmdi hins vegar aðeins yfir mig þegar ég gluggaði í sögukennslubók sem sonur minn var með fyrir fáum árum og aá að enn var verið að skýra út af mikilli nákvæmni sætaskipun í Lögréttu til forna – eins og það skipti einhverju máli.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma