fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Erdogan missir tökin í stórborgum – og Netanjahu stendur tæpt

Egill Helgason
Mánudaginn 1. apríl 2019 13:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrátt fyrir að blaðamenn séu lokaðir inni í fangelsum, dómarar og kennarar hafi verið settir af, stjórnarandstæðingar hafi flúið land, þá eimir ennþá nógu mikið eftir af lýðræði í Tyrklandi til að hægt sé að gera hinum einráða Erdogan skráveifu.

Undirsátar hans stjórna meira og minna öllum fjölmiðlum og ritskoðun er í gangi, en samt gerist hið ótrúlega – flokkur Erdogans tapaði stórum borgum í því sem flestir bjuggust við að yrðu tíðindalitlar bæjar- og sveitastjórnakosningar.

Nú er ljóst að AKP, flokkur Erdogans, missir stjórnina í sjálfri höfuðborginni Ankara eftir og það stendur tæpt í Istanbul – þar er útlit fyrir að stjórnarandstæðingar vinni líka sigur.

Dropinn holar steininn – þrátt fyrir linnulausan áróður er erfitt að dylja óstjórn Erdogans, hann beitti sér mikið í kosningabaráttunni og aðallega til að reyna að draga athyglina frá glundroða í efnahagsmálum. Það gerir hann á sinn hefðbundna hátt með blöndu af þjóðrembu, trúarkreddum og vænisýki.

Í öðru ríki þar sem lýðræði stendur á brauðfótum eru kosningar eftir rúma viku – þar er átt við Ísrael. Hinn þaulsætni Bibi Netanjahu gerir allt sem hann getur til að hanga á völdunum, hann gerir bandalög við svæsnustu öfgaflokka, lýsir því beinlínis yfir að Ísrael sé ekki „ríki fyrir allra þegna sína“ og berst með kjafti og klóm til að verjast spillingarmálum sem eru fyrir dómstólum. Eins og gengur hjá pólitíkusum af þessu tagi eru það allt samsæri að undirlagi óvina. Stjórnunarstíll Netanjahus gengur beinlínis út á tuddaskap og það að sundra.

Því miður eru meiri líkur en minni á því að Netanjahu muni halda áfram að stjórna – hann er enginn stjórnvitringur og en skortir ekki kænsku. Í forystugrein hvetur The Economist Ísraela til að fella Netanjahu í þeirri von að hægt verði endurreisa lýðræðið í landinu.

En hver veit – einhvern tíma gæti röðin jafnvel komið að Pútín?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt