fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Brynjar með bombu um mansal: „Stormur í vatnsglasi og hluti af pólitískri hugmyndafræði?“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 5. mars 2019 11:17

Brynjar Níelsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölnir Sæmundsson, varaþingmaður VG, lagði í gær á Alþingi fram fyrirspurn til Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um aðgerðaráætlun gegn mansali, en rúm tvö ár eru liðin síðan mansalsáætlunin rann úr gildi. Vísaði hann til mýmargra frétta um mansal hér á landi og sagði það „viðverandi vandamál“ sem alþjóðastofnanir hefðu gert athugasemdir við, til dæmis hversu fáar kærur hefðu verið lagar fram í þeim málaflokki hérlendis. Spurði Fjölnir hvort von væri á nýrri áætlun og hvort búið væri að tryggja fjármagn fyrir henni.

Tekið djúpt í árinni

Sigríður svaraði því til að enn væri unnið eftir lögum og reglum þrátt fyrir að áætlunin hefði runnið út, en unnið væri að nýrri áætlun. Ekki hefði þó sérstaklega verið gert ráð fyrir fé til hennar í fjármálaáætlun. Þá sagði Sigríður að Fjölnir tæki full djúpt í árinni er hann fullyrti að mansal væri viðvarandi vandamál, erfitt væri að rökstyðja þá fullyrðingu, þó slík mál hefðu verið hér til umræðu. Sagði hún að sér þætti menn stundum rugla saman hugtökunum mansali og félagslegu undirboði, annaðhvort vísvitandi eða vegna misskilnings og mikilvægt væri að aðskilja þetta tvennt. Þá sagði hún að mansal væri rannsakað líkt og önnur hegningarlagabrot hér á landi og lyti sömu lögmálum og önnur lögbrot.

„Ef við mælum ekki hraðakstur, þá er enginn að keyra of hratt samkvæmt lögum“ sagði Fjölnir í ræðupúltinu og sagði að ef ekki væri verið að leita að vandamálunum, kæmu þau aldrei í ljós.

Stormur í vatnsglasi

Brynjar Níelsson tók boltann á lofti fyrir Sigríði í þessu máli á Facebook í gær og taldi ekki tilefni til að hlaupa upp til handa og fóta yfir mansali.

Brynjar sagði:

„Varaþingmaður fullyrti í fyrirspurn til dómsmálaráðherra að hér á landi væri grasserandi mansal í hverju horni og spurði hvað ráðherrann ætlaði að gera í málinu. Þótt fulltrúar launþega og femínistahreyfinga trúi því að erlendir verkamenn og kynlífsseljendur séu meira og minna þolendur mansals er það ekki endilega raunin. Og það verður heldur ekki að staðreynd þótt slíkar fullyrðingar komi fram í fjölmiðlum.“

Þarna ýkir Brynjar nokkuð varðandi fullyrðingar Fjölnis, sem sagði aðeins að um viðvarandi vandamál væri að ræða. Það er hinsvegar rétt hjá Brynjari að fullyrðingar í fjölmiðlum verða ekki samstundis að raungerðum staðreyndum.

Eins og hvert annað hegningarlagabrot

„Flest þessi mansalsmál, ef ekki öll, sem hafa verið til umræðu í fjölmiðlum ýmist koma ekki til rannsóknar lögreglu eða eru felld niður eftir rannsókn. Ég vil benda varaþingmanninum á að mansal er bara eins og önnur hegningarlagabrot og rannsakað af lögreglu og ákært ef brot er talið sannað,“

segir Brynjar áður en hann lýkur máli sínu með eftirfarandi spurningu:

„Gæti verið að þessi mansalsumræða sé bara stormur í vatnsglasi og hluti af pólitískri hugmyndafræði að halda henni sem mest á lofti?“

Ekki er víst að þessi vangavelta Brynjars eigi upp á pallborðið hjá VG, samstarfsflokki Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, þar sem í stefnu VG segir að flokkurinn muni beita sér í baráttunni gegn mansali. Að vísu hefur flokkurinn þurft að gefa nokkuð eftir í ýmsum málum í ríkisstjórnarsamstarfinu, við lítinn fögnuð baklandsins.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Enn sérstakt áhættuálag á Ísland hjá erlendum fjárfestum – krónan þjóðhagslegt vandamál?

Guðjón Auðunsson: Enn sérstakt áhættuálag á Ísland hjá erlendum fjárfestum – krónan þjóðhagslegt vandamál?
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Rétthugsun?

Óttar Guðmundsson skrifar: Rétthugsun?