fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Össur hjólar í Hörð Ægis: „Þar yrði hann vel geymdur innan um hina frjálshyggjubesefana“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 14. mars 2019 10:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Samfylkingarinnar, tekur Hörð Ægisson, ritstjóra Markaðarins, viðskiptablaðs Fréttablaðsins, engum vettlingatökum í pistli sínum á Facebook í nótt.

Leiðarar Harðar virðast Össuri ekki að skapi og blöskrar honum svo mikið, að hann leggur til að Hörður skipti um starf. Þá leyfir Össur sér að uppnefna Hörð og aðra sem aðhyllast frjálshyggju og líkir þeim við getnaðarlimi.

Óvæntur stuðningur við Sólveigu Önnu

Össur hefur pistilinn á því að nefna að Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar og „byltingarforingja“ hafi borist liðsauki úr óvæntri átt í baráttu sinni fyrir mannsæmandi launum:

„ Hann birtist í Markaðinum en svo heitir fylgirit Fréttablaðsins. Það góða blað lifir nú sína glöðustu daga þegar því tekst í ritstjórnargreinum og fréttaáherslum að útmála hinn vaska formann Eflingar sem eins konar efnahagslega hryðjuverkakonu sem helst vill koma Íslandi á vonarvöl. Harðast gengur fram í þessum soraskrifum “star-reporter” Hörður Ægisson, sem af innblásnum þrótti ofsatrúarmannsins skrifar leiðara á leiðara ofan um það hvernig kröfur Sólveigar Önnu um 40 þúsund króna hækkun á 3 árum ofan á laun örbjarga láglaunakvenna muni steypa þjóðfélaginu fram af hamfarabrúninni.

En nú ber svo við að Markaðurinn, sem er undir sérstakri ritstjórn “star-reporter” birti í gær grein sem speglar allt aðra sýn en ausið er daglega úr súrum trogum hans og Fréttablaðsins. Í greininni er lýst þeirri sýn velmetins og þekkts evrópsks eignastýringarfyrirtækis, BluBay Asset Management, að á næstu tólf mánuðum muni gengi krónunnar styrkjast um tiu %, og nægja til að hemja verðbólgu og gera Seðlabankanum kleift að lækka vexti niður í evrópsk mörk. Þetta er töluvert annað slátur en forrit Viðskiptaráðs spúa hráu í leiðara „star-reporter“ Harðar í Fréttablaðinu,“

segir Össur og nefnir að hið vandaða fjármálafyrirtæki gef ekkert fyrir „rausið“ í Fréttablaðinu og enn minna fyrir leiðara Harðar gegn „hryðjuverkakonunni“ í Eflingu:

„Þvert á móti spáir BlueBay Asset Management batnandi tíð, þrátt fyrir verkföll. Markaðurinn, undir stjórn Harðar Ægissonar, segist meira að segja hafa heimildir fyrir því að fyrirtækið sé þegar byrjað að veðja á þessa þróun með því að kaupa íslensk ríkisskuldabréf fyrir hundruð milljóna króna. – Hvar er nú hið brennandi bál „Mr. star-reporter”?“

Frjálshyggjubesefar best geymdir í Viðskiptaráði

Þá leggur Össur til að Hörður skipti um starf og er óspar á  skrautleg lýsingarorðin:

„Ég legg til að Hörður Ægisson axli sem óðast sín skinn á Fréttablaðinu, og skundi af bragði heim í beitarhús Viðskiptaráðs. Þar yrði hann vel geymdur innan um hina frjálshyggjubesefana. Þá hættir vonandi Fréttablaðið að spúa fölskum heimsendaspám yfir ræfilsþjóðina okkar, og hættir að ofsækja í leiðurum hinn öfluga formann Einingar. – Mál er að linni!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt