fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Súrrealísk útgáfa af enska búningadramanu – ætti að vinna mörg Óskarsverðlaun

Egill Helgason
Laugardaginn 9. febrúar 2019 14:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvikmyndin The Favourite kemst býsna nálægt því að vera snilldarverk. Þarna er tekinn mjög sérstakur snúningur á hinni hefðbundnu ensku búningamynd sem flestir áhorfendur þekkja vel – bæði úr sjónvarpi og kvikmyndahúsum. En í meðförum gríska leikstjórans Yorgos Lanthimos verður hún undarlegt og hálf súrrealískt sjónarspil.

Það eru þrjár konur sem eru aðalpersónurnar í myndinni, drottningin Anna sem er þjáð af gigt og er hálf utanveltu  – Anna var einstaklega óhamingjusamur þjóðhöfðingi í raunveruleikanum – og tvær hirðkonur sem keppa um hylli hennar með alls kyns undirferli og óþokkabrögðum. Konurnar eru snilldarlega leiknar af Olivia Colman, Rachel Weisz og Emma Stone. Það kynlíf sem er stundað er meira og minna í pólitískum tilgangi – til að ná aðeins meiri frama.

Karlarnir í myndinni eru annað hvort spilltir eða blábjánar, nema hvort tveggja sé. Að hætti barokktímans eru þeir uppábúnir eins og páfuglar, með máluð andlit og stórar hárkollur. Þetta er tími háaðalsins – alþýða manna er eins og hvert annað rusl enginn hirðir neitt um.

Fánýtið og fáránleikinn endurspeglast í leikjunum sem hirðin tekur upp á til að bægja frá leiðanum. Gangar hallanna eru endalausir og allt fullt af glingri. Eitt af undrum myndarinnar út frá sjónarmiði kvikmyndalistarinnar er hvernig atriði á endalausum göngum og herbergjum hallar drottningar eru lýst einungis með kertaljósum.

The Favourite er tilnefnd til tíu Óskarsverðlauna. Þar á meðal eru leikkonurnar þrjár, leikstjórinn, kvikmyndatökumaðurinn Robbie Ryan, sviðs- og búningahönnuðir. Í réttlátum heimi hirðir hún fullt af verðlaunum – þetta er kvikmyndin sem skarar fram úr ásamt Roma eftir Alfonso Cuarón.

Myndin er sýnd í Háskólabíói – en einungis á tveimur sýningum daglega.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn