fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Geta kjósendur treyst sjálfum sér?

Egill Helgason
Fimmtudaginn 28. febrúar 2019 21:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisútvarpið birtir mælingu á trausti í samfélaginu sem gerð er af Gallup. Kemur í ljós að nú er Alþingi neðar en bankarnir – traustið til þess mælist einungis 18 prósent en 20 prósent til bankanna.

Efst tróna Landhelgisgæslan með 89 prósent, svo  lögreglan og forseti Íslands – báðar stofnanirnar með 83 prósent.

Þetta er náttúrega hroðaleg niðurstaða fyrir stjórnmálin. Það er búið að kjósa aftur og aftur síðan í hruni en traustið eykst ekki. Það er búið að skipta út öllum þingheimi með örfáum undantekningum. Og það á við um sum þingsætin að þar er búið að skipta út oftar en einu sinni – jafnvel mörgum sinnum.

Undanfarin ár hefur verið kosið tvívegis í kjölfar hneykslismála – bókstaflega vegna þess að ríkisstjórnir hafa fallið út af hneykslum. En allt kemur fyrir ekki, kosið er til þings og niðurstaðan er þessi – traustið í algjöru lágmarki.

Það hafa líka komið fram nýir flokkar – sjaldan hafa setið fleiri flokkar á Alþingi en einmitt nú. Og ef kosið yrði á morgun er mjög líklegt að flokkunum myndi fjölga enn.

Kannski er eitthvað bogið við kerfið? Kannski skilar það alltaf vitlausri niðurstöðu? En miðað við þetta ætti eiginlega að spyrja hvort kjósendur geti treyst sjálfum sér?

Eiginlega spyr maður af hverju nokkur maður ætti að gefa sig að því að starfa í pólitík við þessar aðstæður? Eftir hverju er að slægjast? Alþingi virkar sannarlega ekki sem skemmtilegur vinnustaður þessa dagana.

Einhverjir svara því máski að þingið hafi verið betur mannað hér í eina tíð – en ég er fjandakornið ekki viss um það. Þá var hins vegar tími þegar tryggð við stjórmálaflokka og -foringja var meiri. Pólítíkusar gátu sett sig á hærri hest en er  mögulegt á tíma samskiptamiðlanna.

Svo segja aðrir líklega að þetta myndi breytast með nýrri stjórnarskrá. Það er ekkert sérstaklega sennilegt, spurning hvað snýst um inntak og hvað um form, á tíma Brexits og Trumps og Orbáns hefur áhuginn á þjóðaratkvæðagreiðslum og beinu lýðræði minnkað til muna, en hins vegar mætti að ósekju jafna atkvæðisréttinn. Það væri skref.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn