fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Eva hótelstýra sár út í Sólveigu Önnu: „Árangur næst ekki með því að vera í áróðri í fjölmiðlum“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 27. febrúar 2019 17:00

Eva Jósteinsdóttir og Sólveig Anna Jónsdóttir. Samsett mynd Eyjan

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég verð að viðurkenna að mér sárnar þessi umræða og þá sérstaklega það sem ég upplifi oft á tíðum sem áróður sem stéttarfélagið Efling og þá sérstaklega sem formaðurinn kemur fram með.“

Þetta segir Eva Jósteinsdóttir, hótelstjóri hjá Center Hotels í Reykjavík, um ummæli Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflinga, í garð ferðaþjónustunnar.

Fjölmiðlaáróður og alhæfingar

Hún bætir við:

„En að þessum áróðri sem formaður Eflingar kemur fram með um að „komið sé fram af vanvirðingu við erlenda starfsmenn“ og að „komið sé fram við þau eins og einnota drasl“ svo það sé haft eftir henni þá vil ég bara vera henni algjörlega ósammála. Ég get eðlilega bara talað við fyrir mig sjálfa í þessu málefni en mér sárnar að hlusta á þessar alhæfingar hennar og annarra.“

Þá segir Eva að mikilvægt sé að deiluaðilar tali saman í stað þess að standa í „áróðri“ í fjölmiðlum:

„Fyrir mér er mikilvægt að aðilar sem standa í deilum, eins og kjaradeilan er núna tali saman, því að árangur næst ekki með því að vera í áróðri í fjölmiðlum sem því miður fjölmiðlar éta upp, því að það virðist selja. Ég vil ekkert heitar en að samningar náist svo við getum haldið áfram á okkar vegferð. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það er mjög dýrt að búa á Íslandi og það að lifa af á lægstu launum, sérstaklega ef að það er bara ein fyrirvinna, er ómögulegt. Ég hef ekki hitt neinn eða talað við neinn sem er ekki sammála því að í þessum samningum þarf að tryggja kjarabætur fyrir þá launalægstu. En af því að fjölmiðlar eru með í þessu, finnst mér mikilvægt að hvatt sé til þess að koma umræðunni yfir á hærra plan. Sem betur fer, eru ekki allir vondir og þeir sauðir sem ekki koma vel fram eiga að vita betur og það á alltaf að stoppa.“

Svartir sauðir allsstaðar

Evu sárnar alhæfingar Sólveigar og segir þær ekki réttmætar, þó alltaf séu svartir sauðir sem eitri út frá sér:

„Mér þykir vænt um starfsfólkið mitt og okkar og ég er sár yfir því að formaður Eflingar komi fram með svona alhæfingar og yfirlýsingar sem eiga ekki við alla. Sem betur fer eru mörg fyrirtæki að gera góði hluti og koma vel fram við sitt fólk. Þeir sem ekki gera það, svei ykkur ! Við leysum ekki svörtu sauðina eða hálfvitaskap gagnvart starfsfólki í kjarasamningum. Tökum samtalið á hærra plan, talið saman um það sem skiptir máli og það er að bæta kjör þeirra lægst launuðu og finnið lausn sem báðir aðilar eru sáttir við. Hættið í áróðri, farið að tala saman og semjið!“

Mikilvæg hlutverk

Þá segir Eva að margt hafi breyst til betri vegar í bransanum  á liðnum árum:

„Ótal margir starfsmenn okkar sem eru í lykil stjórnendastörfum hjá okkur í dag, eru starfsmenn sem byrjuðu í starfi hjá okkur sem „hefðbundnir“ starfsmenn en með elju, dugnaði og áhuga tókst þeim að vinna sig upp í ábyrgðarstörf. Þetta gildir jafnt um íslenska starfsmenn sem og fjölda erlendra starfsmanna. Ég reyndir þoli ekki að það þurfi að vera einhver skilgreining á hvort að starfsmaður sé íslenskur eða erlendur.

Þær yndislegu konur (fyrst að formaður Eflingar talar alltaf um konur) sem vinna við þrif á okkar hótelum gegna mjög mikilvægu hlutverki hjá okkur og höfum við reynt að leggja okkur fram við að tryggja öruggt starfsumhverfi og veita þeim margvíslegan stuðning og fræðslu bæði innan og utan vinnustaðarins. Nú nýlega vorum við eina íslenska fyrirtækið sem tók þátt í að prufukeyra nýtt raunfærnimat sérstaklega hannað fyrir þernur, þar sem að þær fá tækifæri á að reynsla þeirra og hæfni sé metin eins og aðrar iðngreinar. Fyrsti hópurinn frá okkur kláraði það með sóma fyrir áramót.

Að vinna sér inn traust hjá samstarfsfólki sem kemur úr öðrum menningarheimum og eru ekki vanir íslensku atvinnulífi og menningu tók smá tíma og er eitthvað sem við erum stöðugt að vinna í. Á fyrstu árshátíðum og viðburðum fyrirtækisins þá var það ekki óalgengt að stór hluti starfsfólks í herbergjaþrifum mætti ekki. Það hefur sem betur fer breyst en það var ekki síst út af því að við vildum tryggja að svona viðburðir væru fyrir alla starfsmenn. Það þýddi að allar ræður og öll samskipti fóru fram á ensku til að tryggja að allir væru með, því auðvitað er stór hópur okkar starfsmanna af erlendi bergi brotinn.  Árshátíðir, jólahlaðborð og aðrir viðburðir okkar í dag einkennast af gleði og samhug þar sem langflestir okkar starfsmenn koma saman, dansa, hlæja osfrv óháð því í hvaða deild fyrirtækisins þeir vinna.

Ég hef tekið þátt í mörgum starfsmannamálum, miserfiðum auðvitað í gegnum þessi ár. Ég hef oft þurft að leita aðstoðar túlkar þegar ekki er hægt að notast við ensku og íslensku, en maður hefur reynt að gera það sem hægt er til að eiga góð samskipti við starfsfólk. Sum mál voru auðveld að leysa, önnur erfiðari eins og gengur og gerist. Í gegnum tíðina höfum verið með starfsfólk sem hefur verið feykilega ánægt í starfi, en við höfum líka verið með starfmenn sem hafa verið óánægðir. Hinsvegar, þá höfum við reynt að leggja okkur fram við að veita öllu okkar starfsfólki stuðning og aðstoð þegar við höfum getað. Ég hef ekki hikað við að mæta á foreldrafundi með starfsfólki á leikskóla, þar sem að erfitt mál hafði komið upp hjá barni viðkomandi starfsmanns, aðstoðað við að endurheimta tryggingu frá leigusala sem reyndi að svíkja starfsmann okkar, heimsótt veikt starfsfólk á spítala, tekið þátt í gleðinni þegar okkar góða fólk eignast börn eða barnabörn, þegar börn eða barnabörn útskrifast úr skóla , afmælisveislur, knús og svo mætti lengi telja. Ég geri það ekki einungis af því að ég ætti að gera, heldur af því að ég vil gera það og af því að mér þykir vænt um samstarfsfélaga mína.

Ég er lánsöm, því ég vinn með einstaklega góðu fólki. Ég trúi því að ég sem og fyrirtækið sem ég tek þátt í að stýra komi vel fram við alla starfsmenn, sama hvort þér séu íslenskir eða erlendir.

Á fyrstu árum mínum, þá þekkti ég alla starfsmennina okkar með nafni, en með vexti síðustu ára og breytinga á mínu starfi þá eru ennþá eitthvað af fólki sem ég á eftir að kynnast betur. En það mun koma með tímanum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki