fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Gætu hinar hörðu kjaradeilur leitt til stjórnarslita? Hvaða möguleikar eru þá í stöðunni?

Egill Helgason
Föstudaginn 22. febrúar 2019 12:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þetta er forsíða Morgunblaðsins frá því síðla árs 1958. Þá féll vinstri stjórnin sem hafði setið frá 1956, stjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, vegna kjaradeilna. Alþýðusambandið sjálft hafði beitt sér fyrir því að þessi stjórn yrði mynduð, en á tíma hennar fór verðbólgan á skrið. Hermann Jónasson forsætisráðherra fór fram á að verðlagsuppbótum yrði frestað, eins og lesa má í fréttinni sem hér fylgir með, en ASÍ féllst ekki neitt slíkt og einnig voru þingmenn úr röðum sósíalista á móti.

Það fór svo að Hermann rauf stjórnarsamstarfið í byrjun desember 1958. Það þótti mikið áfall fyrir vinstri hreyfinguna. Sú saga komst á kreik að hún væri óhæf um að stjórna landinu og vinstri mönnum gekk erfiðlega að reka af sér það slyðruorð, næsta vinstri stjórn komst ekki á laggirnar fyrr en 1971 eftir að Alþýðuflokkurinn hafði beðið afhroð en Samtök frjálslyndra og vinstri manna tekið frá honum fylgið. Viðreisnarstjórnin, stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sat í 12 ár samfleytt. Hafði ýmsar félagslegar áherslur – en í garð hennar ríkti oftlega mikil heift.

Nú eru menn jafnvel farnir að gera því skóna, líkt og Þorvaldur þegar hann birtir þessa gömlu frétt, að hinar hörðu kjaradeilur sem nú standa yfir gætu leitt til stjórnarslita. Vissulega reynir mjög á ríkisstjórnina og sérstaklega Vinstri græn, flokk Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

En þá er að skoða hvaða möguleikar væru á annarri stjórnarmyndun. Vinstri græn og Framsókn þyrftu að ganga út stjórninni svo hægt sé að mynda stjórn til vinstri, það væri mögulegt með Samfylkingu og Pírötum, en slík stjórn hefði eins manns meirihluta. Mætti bæta við tveimur þingmönnum Flokks fólksins eða Viðreisn sem er með fjóra þingmenn – eða sleppa Pírötum og mynda stjórn með FF og Viðeisn.

Þetta yrði semsagt stjórn á bilinu fjögurra til sex flokka og verður að teljast fremur ólíklegt eftir það sem undan er gengið.

Þannig er nánast hægt að segja að stjórn til vinstri sé ekki í kortunum.

Hægra megin væri mögulegt að mynda stjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Miðflokks og svo hinna tveggja brottreknu úr Flokki fólksins. Sú stjórn hefði 33 þingmenn, tveggja manna meirihluta.

Ekkert af þessu er sérlega líklegt. Framsókn er varla neitt sérlega snokin fyrir samstarfi við Miðflokkinn –  vildi sennilega frekar stúta þeim flokki en að hefja hann á stall með ríkisstjórnarþátttöku.

En það eru reyndar fleiri mál sem skekja ríkisstjórnina þessa dagana – hvalveiðar og innflutningur á fersku kjöti, hvort tveggja vekur miklar tilfinningar innan stjórnarflokkanna.

Hinn möguleikinn eru kosningar. Spurning hvort þær myndu breyta einhverjum meginlínum þannig að valkostirnir við myndun ríkisstjórnar yrðu skýrari. Sjálfstæðisflokkurinn er líklegur til að halda sínu, Samfylking er á þokkalegu róli í skoðanakönnunum – en almennt er vinstr vængur stjórnmálanna klofnari en nokkru sinni fyrr.

Þar höfum við VG sem langar örugglega ekki í kosningar, Samfylkinguna sem sýnir nú mjög á sér vinstri vangann, Pírata sem færast stöðugt til vinstri og eru alveg hættir að reyna að skírskota til beggja átta, Flokk fólksins sem talar aðallega til þeirra sem verst standa í samfélaginu og svo Sósíalistaflokkinn sem ætlar sér stóra hluti í kjölfar stéttaátaka.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Eyjan
Í gær

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn
Eyjan
Fyrir 2 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma
Eyjan
Fyrir 3 dögum

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun