fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Nýnasistar þurrkast út í Grikklandi – en í staðinn nær inn prédíkari sem reyndi að selja bréf með eiginhönd Krists

Egill Helgason
Mánudaginn 8. júlí 2019 11:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýnasistaflokkurinn Gyllt dögun dettur út af þingi í Grikklandi. Nær ekki þremur prósentunum sem flokkar þurfa að ná til að fá þingmenn kjörna. Það munar ekki miklu, flokkurinn er með 2,9 prósent. Þetta er fagnaðarefni. Gyllt dögun er andstyggðar félagsskapur. Þar með lýkur sjö ára vist Gylltrar dögunar á gríska þinginu, hann náði 7 prósenta fylgi í kosningunum 2015. Forystumenn úr flokknum hafa sætt lögreglurannsókn vegna morðs á rapparanum Pavlos Fyssas árið 2013. Flokkurinn er fullur af ofbeldismönnum.

Annar undarlegur flokkur tók fylgi af Gylltri dögun og náði inn á þing. Þetta er flokkur sem nefnist Elliniki Lysi eða Gríska lausnin. Hann er mjög þjóðernissinnaður og lítur á sig sem fulltrúa kristinna gilda. Hann er mjög hallur undir Pútín Rússlandsforseta. Stofnandi flokksins, Kyriakos Velopoulos, á býsna skrautlega fortíð. Hann er þekktur fyrir að hampa alls kyns samsæriskenningum, hefur meðal sjónvarpsprédíkari þar sem hann reyndi að selja allt frá lyfi gegn skalla til bréfa sem áttu að vera með eiginhönd Krists. Vinur minn einn sagði í gær að hann væri rugludallur og litlu skárri en Gyllt dögun.

Nea Demokratia, hægri flokkurinn sem sumpart er hliðstæða við Sjálfstæðisflokkinn, sigraði örugglega í kosningunum, fékk 39,8 prósent atkvæða. Þetta þýðir að flokkurinn fær 50 þingmenn sem nokkurs konar bónus – og tryggir honum hreinan meirihluta í gríska þinginu. Kyriakos Mitsotakis er þegar tekinn við sem forsætisráðherra, en hans bíður erfitt verkefni eins og ég lýsti í grein sem ég setti hér á vefinn í gær.

Sumpart eru hindranirnar mestar innan flokksins sjálfs. Þar þarf Mitsotakis að glíma við gamla spillingarhefð sem byggir meðal annars á því að útnefna flokksgæðinga, vini og vandamenn í stöður og úthluta þeim verkefnum. Þessi spilling lifir nánast sjálfstæðu lífi, hún er líkt og skrifuð í erfðaefni flokksins. Mitsotakis verður meðal annars dæmdur af því hvernig honum tekst að sporna við þessu.

Nea Demokratia er alls ekki eini flokkurinn sem stundar spillingu. Pasok, gamli sósíaldemókrataflokkurinn sem var lengi við völd, iðkaði hana líka. Ein helsta ástæðan fyrir því að Syriza, flokkur Alexis Tsipras, fráfarandi forsætisráðherra, vann hinn óvænta sigur í kosningunum 2015, var sú að flokkurinn var talinn hreinn og óspilltur. Enginn flokksmanna hafði komið nálægt völdum eða kjötkötlum. Sumir voru gamlir marxistar sem höfðu starfað í smáhópum yst á vinstri vængnum.

En reyndin varð önnur. Syriza var ekki fyrr komið til valda en flokkurinn tók að raða sínu fólki í stöður og embætti – í stað þess að hreinsa til reyndist hann alls ekki fráhverfur spillingunni.

Útkoma Syriza í kosningunum má þó heita viðunnandi. Flokkurinn fékk 31,5 prósent og Tsipras mun halda áfram í stjórnmálum og vera óskoraður leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Hann nýtur þess líka að vera mjög þekktur á alþjóðavettvangi. En það verður ekki lengur hægt að segja að Syriza sé harður vinstri flokkur – í raun má segja að hann hafi tekið stöðu gamla Pasok. Tsipras er mælskumaður, ekki hafinn yfir lýðskrum – þar minnir hann nokkuð á Andreas Papandreou, stofnanda Pasok. Mitsotakis stendur honum langt að baki í mælsku.

Það er reyndar merkilegt að sjá á kosningakorti að Syriza hefur mest fylgi á Krít – þar er Syriza alls staðar stærsti flokkurinn. Krít var áður höfuðvígi Pasok.

Ég skrifaði að ekki væri mikill áhugi á kosningunum. Þátttaka í þeim var sú minnsta síðan 1974, ekki nema 56 prósent mættu á kjörstað. Grikkir eru heldur ekki vanir að kjósa að sumarlagi. Mikill fjöldi fólks, ekki síst  ungmenna, er dreifður um landið við störf í ferðaþjónustu. Gærdagurinn var líka heitur – margir hafa frekar kosið að fara á ströndina en mæta á kjörstað. Það var líka merkilegt að skynja í gærkvöldi, það var eins og fólk sem ég hitti hefði ekki áhuga á að ræða úrslitin mikið.

Tvennt í viðbót. KKE, gamli kommúnistaflokkurinn, heldur alltaf sínu striki. Hann er eins og sement, líkt og ég sagði í grein um daginn. Fær sín 5 prósent. Þetta er gamli stalínistaflokkurinn. En það snýst mest um söguna, borgarastríðið sem var háð eftir heimsstyrjöldina seinni, langt minni. Samt skyldi maður ímynda sér að flestir sem hafa hugann við þessa fortíð séu dauðir – en minningarnar lifa þá í ættum. Við þekkjum fólk af fjölskyldum sem þurftu að flýja land eftir borgarastríðið, bjuggu í áratugi í kommúnistaríkjum Austur-Evrópu.

KKE tekur hins vegar aldrei þátt í neinni stjórn eða samstarfi – flokkurinn bara er.

Loks er að nefna að Mera25, flokkur Yanis Varoufakis, náði að merja þrjú prósentin og fær 9 þingmenn. Varoufakis lítur á flokk sinn sem alþjóðlega hreyfingu, hluta af því sem nefnist á ensku Progressive International. Þar er hann meðal annars í samstarfi við Bernie Sanders. Eins og ég hef áður sagt er Varoufakis í mun meiri metum utan Grikklands en innanlands – en hann má eiga það að hann kann að koma orðum að hlutunum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins