fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Magnús Geir sótti um starf Þjóðleikhússtjóra: „Leyfi mér að vera bjartsýnn“ – Sjáðu bréfið

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 1. júlí 2019 11:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Magnús Geir Þórðarson, sem verið hefur útvarpsstjóri frá árinu 2014, hefur sótt um stöðu Þjóðleikhússtjóra, en skipunartími Ara Matthíassonar rennur út um áramótin. Umsóknarfrestur um starfið rennur út í dag.

Vísir greindir fyrst frá og segir að Magnús hafi sagt starfsfólki RÚV þetta í morgun í tölvupósti. RÚV segir að Magnús Geir sé bjartsýnn að fá starfið og sé stoltur af þeim árangri sem náðst hafi á síðustu misserum hjá RÚV:

„Á hverjum degi finn ég hvað RÚV skiptir landsmenn miklu máli og hvað RÚV er mikilvægt og jákvætt hreyfiafl. Þrátt fyrir að vera ánægður í starfi og að allt gangi hér vel, þá á leikhúsið samt alltaf rosalega stóran sess í hjarta mínu. Mér finnst fátt magnaðra en að sitja í leikhúsi þar sem hópur fólks deilir upplifun og lætur hreyfa við sér með sögum sem skipta máli.

„Ég trúi því að ég hafi heilmikið fram að færa í það starf og mig langar mikið að fá aftur að taka þátt í leikhústöfrunum. Þá hef ég að undanförnu fengið hvatningar frá leikhúsfólki sem ég tek mark á og þykir vænt um,“

segir í bréfinu meðal annars.

Skipt um skoðun

Þann 5. apríl birti Fréttablaðið grein um að Magnús Geir væri orðaður við starf Þjóðleikhússtjóra, en hann bar það til baka og sagði engin áform vera um breytingar. Virðist sem að Magnúsi hafi snúist hugur:

„Ég er í öðru krefjandi starfi núna. Það eru engin áform um breytingar á því enda fjölmörg spennandi verkefni fram undan.“

Sjá nánar: Útvarpsstjóri orðaður við Þjóðleikhúsið

Kristín sækir einnig um

Vísir greinir frá því að Kristín Eysteinsdóttir sé einnig meðal umsækjenda um starf þjóðleikhússtjóra, en hún hefur verið Borgarleikhússtjóri frá árinu 2014.

„Við höfum náð miklum listrænum og rekstrarlegum árangri á síðustu árum og nú langar mig að nýta reynslu og krafta mína til uppbyggingar og eflingar Þjóðleikhússins. Samningurinn minn sem Borgarleikhússtjóri rennur út í júlí 2021. Þegar það er ráðið í þessa stöðu er bara eitt og hálft ár eftir af mínum samningstíma. Ég met það því svo að nú sé rétti tíminn til að taka þetta skref.“

Vandi á höndum

Í bréfinu segir Magnús Geir:

„Á persónulegum nótum – staða þjóðleikhússtjóra.

Eins og þið vitið sjálfsagt, þá hafði ég verið í leikhúsinu allt mitt líf, þegar mér bauðst að taka við stjórn RÚV fyrir rúmum fimm árum. Ég er ótrúlega stoltur af þeim árangri sem við höfum náð í sameiningu á síðustu misserum og ég er mjög ánægður í starfi mínu hér. Á hverjum degi finn ég hvað RÚV skiptir landsmenn miklu máli og hvað RÚV er mikilvægt og jákvætt hreyfiafl. Þrátt fyrir að vera ánægður í starfi og að allt gangi hér vel, þá á leikhúsið samt alltaf rosalega stóran sess í hjarta mínu. Mér finnst fátt magnaðra en að sitja í leikhúsi þar sem hópur fólks deilir upplifun og lætur hreyfa við sér með sögum sem skipta máli.

Nú er mér ákveðinn vandi á höndum því staða þjóðleikhússtjóra er laus til umsóknar frá næstu áramótum. Ég vil tilkynna ykkur, fyrstum af öllum, að ég hef eftir nokkra umhugsun ákveðið að sækjast eftir starfinu. Ég trúi því að ég hafi heilmikið fram að færa í það starf og mig langar mikið að fá aftur að taka þátt í leikhústöfrunum. Þá hef ég að undanförnu fengið hvatningar frá leikhúsfólki sem ég tek mark á og þykir vænt um. Ég vona að þið skiljið og virðið þessa ákvörðun mína, kæru vinir. Ekkert er þó í hendi enn. Þótt ég leyfi mér að vera bjartsýnn, þá á að sjálfsögðu eftir að koma í ljós hvernig umsóknarferlið þróast og hver niðurstaðan verður. Ég þarf varla að taka fram að þótt ég hafi sótt um þessa stöðu nú, þá hefur það engin áhrif á öll þau skemmtilegu og mikilvægu verkefni sem við erum að vinna að saman. Sú góða sigling heldur áfram.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt