„Eins og fram hefur komið þá var markmið okkar þegar við gerðum lífkjarasamninginn að skapa skilyrði til að ná fram verulegri vaxtalækkun íslenskum heimilum til mikilla hagsbóta,“ þetta minnir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, á í færslu sem birtist á Facebook fyrr í dag.
Vilhjálmur greinir frá því að verkalýðsforystan hafi fundað með seðlabankastjóra og tveimur fulltrúum í peningamálanefnd aðeins tveimur dögum fyrir undirritun samninganna. Þar upplýsti forystan fulltrúa bankans um hugmyndafræðina sem lífskjarasamningurinn ætti að byggja á og könnuðu jafnframt afstöðu fulltrúa bankans til þess hvort þessi hugmyndafræði gæti skapað grundvöll til vaxtalækkunar.„Það er skemmst frá því að segja að þessi fundur var mjög jákvæður.“
„Nú hefur komið í ljós að þessi hugmyndafræði okkar í lífkjarasamningum hefur nú þegar leitt til þess að Seðlabankinn hefur lækkað stýrivextina um 0,70% sem er algerlega í anda þess sem við vonuðumst eftir.“
Hins vegar má betur ef duga skal og Vilhjálmur bendir að að það sé ekki nægilegt að aðeins Seðlabankinn lækki stýrivextina ef fjármálakerfið tryggir ekki að vaxtalækkunin skili sér í vasa neytenda. „Eins og nú hefur komið í ljós og í sumum tilfellum hafa vextir hækkað eins og gerðist hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna á breytilegum verðtryggðum lánum.“
„Ég verð í þessu samhengi að vitna í Már Wolfgang Mixa Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík. En hann bendir réttilega á að um daginn hafi tveir af stærstu lífeyrissjóðum landsins ákveðið að breyta viðmiði sínu varðandi breytileg verðtryggð lán. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hækkaði vexti sína úr 2,06% í 2,26% og LSR lækkaði sína vexti úr 2,27% í 2,20%. Engin rök voru á bak við þeim ákvörðunum, heldur eiginlega bara rökleysa.“
„Már Wolfgang bendir á að með því að afnema viðmiðin sem stjórnirnar lögðu áður til grundvallar og auglýst voru á heimasíður lífeyrissjóðanna hafa þeir hækkað vaxtabyrði fjölskyldna um tæplega hálft prósent. Fyrir fjölskyldu sem skuldar 40 milljónir króna þá þýðir það að hún borgar 200 þúsund krónur árlega í vaxtakostnað umfram þeirri upphæð sem hún ætti að borga samkvæmt þeim viðmiðunum sem lífeyrissjóðirnir auglýstu á heimasíðu sinni þegar að lánin voru tekin.“
Vilhjálmur tekur undir málflutning Más Wolfgangs. Þessi ákvörðun stjórnar lífeyrissjóðs verslunarmanna geti ekki staðist lög þar sem á heimasíðu sjóðsins standi skýrt hvaða viðmið breytilegir vextir eigi að miða við. Því skorar Vilhjálmur á fjármálakerfið að skila vaxtalækkun þangað sem henni var ætlað að berast, til neytenda. Ef ekki, þá verði lífskjarasamningum sagt upp á grundvelli forsendu brests.
„Ég tek algerlega undir með Má Wolfgang þar sem hann segir að hann telji að þessi ákvörðun stjórnar lífeyrissjóðs verslunarmanna standist vart lög enda liggur fyrir á heimasíðu sjóðsins viðmið á því hvernig breytilegir verðtryggðir vextir eiga að miða við.“
Ég vil skora á fjármálakerfið í heild sinni að skila vaxtalækkun til neytenda því ef það gerist ekki þá er einsýnt að lífkjarasamningunum verði sagt upp, enda er vaxtalækkun undirstaða fyrir því að samningurinn haldi eða ekki.
Það er orðið morgunljóst að þetta fyrirkomulag þar sem fjármálakerfið ræður algerlega hvernig vaxtarstigið á Íslandi er gengur ekki upp enda er fjármálakerfinu ekki treystandi fyrir húshorn!
Það þarf að koma til lagasetningar þar sem vextir fjármálakerfisins taki mið af markaðsvöxtum með einhverju álagi eins og tíðkast á Norðurlöndunum. Eitt er víst að verkalýðshreyfingin mun ekki líða að geðþótta ákvarðanir stjórna fjármálakerfisins ráði því hvort vextir hækki eða lækki, þessu þarf að breyta og það verður ekki gert með öðru en lagasetningu.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tekur undir með Vilhjálmi.
„Sammála hverju einasta orði Vilhjálms. Nú er komið að fjármálakerfinu að skila vaxtalækkunum til almennings og fyrirtækja. Það er ekki í boði að lækka þá eingöngu á innlánsreikningum. Það er til mikils að vinna fyrir allt samfélagið að kjarasamningar haldi en það munu þeir ekki gera ef bankar og lífeyrissjóðir hirða til sín ávinninginn.“