fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2019  |
Eyjan

Kaninn – og Netflix

Egill Helgason
Föstudaginn 21. júní 2019 22:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir muna sjálfsagt eftir þessari mynd – að minnsta kosti þeir sem eru farnir að gerast nokkuð aldurhnignir. Þetta er skjámyndin úr gamla Kanasjónvarpinu sem sendi út yfir Suðurnesin og höfuðborgarsvæðið fram til á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

AFTV stóð fyrir Armed Forces Television, en á íslensku hét þetta bara Kaninn og svo í hátíðlegra máli Keflavíkurstöðin. Um hana stóðu eilífar deilur. Þegar hún opnaði 1955 var þetta eina sjónvarpsstöðin á Íslandi – íslenska sjónvarpið tók ekki til starfa fyrr en ellefu árum síðar.

Fljótt kom í ljós að útsendingarnar náðust fyrir utan herstöðina og Íslendingar fóru að kaupa sjónvarpstæki. Þarna gátu þeir séð þætti eins og Combat, Bonanza, Lost in Space og Bottom of the Sea. Í lok dagskrár var svo spilaður bandaríski þjóðsöngurinn við blaktandi fána.

Útsendingin var reyndar nokkuð móskuleg – það var oft eins og éljagangur á skjánum, þetta var svart/hvítt, hljóðið heyrðist ógreinilega, og raunar má gera því skóna að flæstir Íslendingar sem fylgdust með hafi skilið mikið af því sem sagt var. Það var mjög erfitt að heyra orða skil, en það þótti ekki koma að sök – þetta var eina sjónvarpið sem var að hafa.

Svo skiptust heimili eftir því hvort þar var Kanasjónvarp eða ekki. Sá sem þetta ritar hafði ekki aðgang að Kananum, slíkt var ekki vel séð í fjölskyldunni, en maður gat laumað sér til vina þar sem Kanasjónvarpið var á mestallan útsendingartímann. Þá þótti Bonanza mest spennandi, allir drengir þekktu nöfn aðalpersónanna þar. Hoss, Little Joe og Adam.

Menningarlega sinnuðu fólki þótti náttúrlega ekki gott að erlend sjónvarpsstöð væri ein um að matreiða sjónvarpsefni ofan í Íslendinga. Þetta var talin mikil vá og það heyrðust háværar kröfur um að loka Kananum. Þær voru ekki einungis bundnar við vinstri menn. 1964 skrifuðu 60 þekktir einstaklingar undir skjal þar sem þess var krafist að útsendingar stöðvarinnar yrðu takmarkaðar. Þeirra á meðal voru Halldór Laxness, Sigurður Nordal, Gunnar Gunnarsson, Sigurbjörn Einarsson og Kristján Eldjárn.

Fleiri uppákomur urðu í kringum Kanasjónvarpið eins og til dæmis árið 1969 þegar meðlimir í Æskulýðsfylkingunni, með Birnu Þórðardóttur og Rósku í fararbroddi, réðust inn i stöðina, máluðu Viva Cuba á veggi og hrópuðu slagorð gegn Vietnamstríðinu.

Svo fór loks að útsendingar Kanans voru takmarkaðar. Áfram héldu þær þó að nást sums staðar fram á 8. áratuginn. Ekki sættu sig allir við þessar málalyktir. Albert Guðmundsson lagði fram þingsályktunartillögu árið 1974 og kvað hún á um að aftur yrði opnað fyrir útsendingar Kanans. Tillagan var felld með 40 atkvæðum gegn 5, svo ljóst mátti vera að nokkuð almenn samstaða var um að aftra landsmönnum frá því að horfa á þessa sjónvarpsstöð. Þá voru líka í gildi lög sem kváðu á um einkarétt Ríkisútvarpsins til sjónvarpsútsendinga. Það var meira að segja reynt að efna til undirskriftasöfnunar til að fá Kanann enduropnaðan, yfirskriftin var „Frjáls menning“, hvorki meira né minna. Undirtektirnar voru hins vegar frekar dræmar.

Nú er Kaninn hins vegar kominn aftur af fullum krafti. Í dag heitir hann Netflix.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Konunglegt foreldrafrí
Fréttir
Í gær

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu
Eyjan
Í gær

Jim Ratcliffe á meira en 1% af Íslandi – Kallað eftir skattrannsókn – Þingmaður vill selja ríkisjarðir fyrir 6 milljarða

Jim Ratcliffe á meira en 1% af Íslandi – Kallað eftir skattrannsókn – Þingmaður vill selja ríkisjarðir fyrir 6 milljarða
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Vegagerðin kærir ákvörðun Skipulagsstofnunar

Vegagerðin kærir ákvörðun Skipulagsstofnunar
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Yfirlýsing frá landeigendum vegna Drangajökulsvíðerna

Yfirlýsing frá landeigendum vegna Drangajökulsvíðerna