fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2019  |
Eyjan

Töffarinn Dagfinnur

Egill Helgason
Þriðjudaginn 18. júní 2019 16:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagfinnur Stefánsson flugstjóri er í merkilegu hlutverki í þáttum sem ég hef verið að gera um Siglufjörð og verða væntanlega sýndir í haust.

Þegar Dagfinnur var ungur flugmaður tók hann þátt í síldarleitarflugi sem var stundað frá Miklavatni í Fljótum. Þar voru líka frumherjarnir, Alfreð Elíasson og Kristinn Olsen – þetta var upphafið að stofnun hins merka flugfélags Loftleiða, Loftleiðaævintýrisins eins og það er stundum nefnt.

Fyrst höfðust þeir við í tjaldi en flugvélarnar tóku á loft og lentu á vatninu. Síðar var reist lítið hús. Það stendur ennþá, Dagfinnur hélt því við, þarna er líkt og lítið safn um sögu Loftleiða með ljósmyndum, munum og minjum.

Við fórum og hittum Dagfinn þarna snemmsumars í fyrra. Hann var þá 92 ára. Taldi ekki eftir sér að aka frá Reykjavík til að hitta okkur í Fljótunum. Þegar við komum á staðinn var hann klæddur í gallajakka og gallabuxur, með tóbaksklút um hálsinn, í kúrekastígvélum og með hafnaboltahúfu á hausnum.

Honum fannst alveg ómögulegt að við værum að bera hluti – vildi endilega halda á græjunum fyrir okkur.

Dagfinnur rakti svo fyrir okkur söguna af síldarleitarfluginu. Hann var þá bara um tvítugt. Flaug yfir miðin og sagðist stundum hafa upplifað svartan sjó af síld. Þá var flotanum gert viðvart og hann stímdi í átt að síldartorfunum.

En Dagfinnur hafði líka svo ótalmargt annað að segja. Hann missti út úr sér að áður en hann fór í flugið var hann messagutti á varðskipi, rifjaði upp fyrir okkur þegar þeir sigldu í gegnum tundurduflagirðingarnar í Hvalfirði í stríðinu. Og svo var hann í slysinu fræga þegar flugvélin Geysir hrapaði á Vatnajökli 1950 og mannbjörg varð eftir marga daga vist á jöklinum.

Þegar við Ragnheiður Thorsteinsson og Jón Víðir Hauksson komum að skálanum við Miklavatn var Dagfinnur að draga Loftleiðafánann að húni. Loftleiðir voru í huga þjóðarinnar samnefnari fyrir dirfsku og athafnafrelsi. Frumkvöðlarnir þar nutu aðdáunar – en þeir voru aldrei innundir í klíkusamfélaginu íslenska.

Sjálfum fannst mér að væri ekki hægt að kalla Dagfinn annað en töffara, eins og hann birtist manni, teinréttur og keikur þótt hann væri kominn á tíræðisaldur. Það barst í tal að þeir hefðu kynnst hann og Clint Eastwood – Clint var þá að gera kvikmynd á Íslandi með aðstoð Leifs, sonar Dagfinns.

Það var aldrei nein spurning í huga okkar sjónvarpsfólksins hvor væri meiri töffari Dagfinnur eða Clint.

Dagfinnur Stefánsson lést nú á sunnudaginn. Hann lifði stórbrotna ævi. Og ég hlakka til að sýna viðtalið við hann í haust. Það er einn af hápunktum myndarinnar.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Konunglegt foreldrafrí
Fréttir
Í gær

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu
Eyjan
Í gær

Jim Ratcliffe á meira en 1% af Íslandi – Kallað eftir skattrannsókn – Þingmaður vill selja ríkisjarðir fyrir 6 milljarða

Jim Ratcliffe á meira en 1% af Íslandi – Kallað eftir skattrannsókn – Þingmaður vill selja ríkisjarðir fyrir 6 milljarða
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Vegagerðin kærir ákvörðun Skipulagsstofnunar

Vegagerðin kærir ákvörðun Skipulagsstofnunar
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Yfirlýsing frá landeigendum vegna Drangajökulsvíðerna

Yfirlýsing frá landeigendum vegna Drangajökulsvíðerna