fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Fyrirmenni, fúlt veður og fyllerí – Gleðilega þjóðhátíð!

Egill Helgason
Mánudaginn 17. júní 2019 10:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisútvarpið birtir í dag á vef sínum kvikmynd sem þjóðhátíðarnefnd ársins 1944 lét gera um stofnun íslenska lýðveldisins á Þingvöllum. Það er athyglisvert að horfa á myndina – þetta voru aðrir tímar, það er geysilega mikið gert úr fyrirmönnum, alþingismönnum og sendiherrum. Meira að segja er hver einasti þingmaður kynntur með mynd og nafni og það er sagt frá því hverjir sátu í hvaða nefnd. Alþýðan sjálf, fólkið, er svo mestanpart í bakgrunni. Fyrirmennirnir sjást spígspora um, það eru allt karlar og allir með hatta.

Við sjáum á myndinni að það var leiðindaveður á Þingvöllum fyrir 75 árum, 17. júní 1944. Maður hefur heyrt margar sögur af því, tjöldum sem fuku og fólki sem forkældist. Veðurfræðingurinn góðkunni, Einar Sveinbjörnsson, rýnir í veðrið þennan dag og spyr hvort það hafi verið svona vont?

„Var virkilega rok og rigning eins og m.a. staðhæft var í fréttum á RÚV í morgun þegar þess var minnst að 75 ár eru frá stofnun lýðveldsins ? Svarið er já, það var slagveðursrigning þegar kuldaskil lægðar gengu yfir. Á vef Veðurstofunnar má finna veðurkort sem gildir kl. 15, 17. júní 1944. Þar hefur veðurfræðingur á vakt dagsins dregið brotalínu inn á mitt landið, skil sem eru á austurleið. Á Þingvöllum og suðvestan- og vestalands, rétt nýbúið að stytta upp eftir rigningu morgunsins.“

Þeim fer fækkandi sem muna þennan dag, en það virðist hafa verið sannur hátíðarbragur þrátt fyrir veðrið. Það var líka búið að magna upp stemmingu með þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 98 prósent landsmanna tóku þátt og sögðu já nær allir sem einn. Niðurstaðan var óhrekjanleg, en eins og Guðmundur Hálfdánarson segir í viðtali við RÚV er á mörkunum að kosningarnar hafi geta talist lýðræðislegar. Allt var gert til að ná fram „réttum“ úrslitum.

En svo finnst manni alltaf ráðgáta hvers vegna 17. júní hefur koðnað niður í áranna rás?Hátíðarbragurinn er til dæmis afar lítill miðað við það sem tíðkast hjá Norðmönnum á þjóðhátíðardegi þeirra 17. maí. Þeir fara í þjóðbúninga og veifa fánum. Má vera að þetta tengist því að Norðmenn þurftu að berjast fyrir frelsi sínu – voru sviptir því á tíma heimsstyrjaldarinnar og færðu miklar fórnir til að endurheimta það? Nýleg kvikmynd er ágæt heimild um þetta, hún nefnist Kongens nei og sýnir Hákon Noregskonung, Ólaf krónprins og norsku ríkisstjórnina á flótta undan innrásarliði nasista.

 

Íslenska þjóðin upplifði ekki neitt slíkt á 20. öld. Við fengum frelsi og lýðræði nokkuð áreynslulaust upp í hendurnar, hjá okkur var þetta mestanpart pappírsvinna – en eftir að það var komið hófust ákafar deilur um stöðu okkar í umheiminum sem klufu þjóðina, fyrst gagnvart Bandaríkjunum, síðan gagnvart Evrópusambandinu.

Það hefur verið eilífur vandræðagangur með hátíðarhöldin 17. júní. Þegar ég var lítill drengur voru þau flutt inn í Laugardal. Þá var Sjálfstæðisflokkurinn við völd – og honum var heldur í nöp við Miðbæinn. Á Laugardalsvellinum horfði fólk á fimleikasýningu, fótbolta, kúluvarp og hlýddi á ávörp fyrirmenna og fjallkonunnar. Þetta var satt að segja allt mjög austur-evrópskt, minnti á hátíðarhöld þeirra tíma í kommúnistaríkjum.

Löngum var 17. júní fyllerísdagur. Það voru dansskemmtanir í Miðbænum að kvöldi dagsins og þá datt unglingahjörðin í það. Svo hætti það – það voru gerðar ýmsar ráðstafanir til þess, eins og til dæmis að færa dansleikina út í skólaportin. Síðustu árin hefur ekkert verið dansað í Miðbænum 17. júní. Það er miklu meiri stemming á Menningarnótt og Gay Pride.

Megas syngur um 17. júní þessa tíma í laginu Hann á afmæli í dag: Uppþemdur þjóðarrembingi í rigningarsudda og roki ösla ég spýjupyttina, það rignir hálfétnum pulsum og pappírsfánaræflum…..

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki