fbpx
Mánudagur 24.júní 2019
Eyjan

Gamall módernismi sem ennþá stingur í stúf

Egill Helgason
Föstudaginn 7. júní 2019 11:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gegnum tíðina hefur maður heyrt margt fólk fussa og sveia yfir viðbyggingu Landsbankans í Austurstræti. Flestir álykta að hún hljóti að vera nokkuð ný af nálinni. En svo er aldeilis ekki, eins og sjá má á þessari ljósmynd sem er tekin þegar hún var í byggingu – það var árin 1938 til 1940.

Ljósmyndina setti Þorgrímur Þráinsson inn á vefsíðuna Gamlar ljósmyndir, hann segir að myndirnar séu teknar af Valsmanninum Sigurði Ólafssyni. Sjónarhornið er nokkuð skemmtilegt, myndin er greinilega tekin ofan af húsinu sem í þá tíð var kennt við Reykjavíkurapótek.

Staðreyndin er sú að viðbyggingin er ekki mikið yngri en bankahúsið sjálft. Húsið var byggt  á árunum 1922-24, þetta er stækkuð útgáfa af húsi sem var reist 1898 en brann í eldsvoðanum mikla í Miðbænum 1915. Það var enginn annar en Guðjón Samúelsson sem sá um byggingu hússins.

Ungum og róttækum arkitektum þótti Guðjón Samúelsson alltof einráður – og gamaldags í sínum byggingastíl. 1934 var haldin samkeppni um viðbygginguna við bankann og þar bar sigur úr býtum ungur arkitekt, Gunnlaugur Halldórsson. Hann var eindreginn módernisti. Viðbyggingin reis, það var að vissu leyti eins og Gunnlaugur væri að storka Guðjóni og hinum ríkjandi smekk.

Og enn talar fólk um að viðbyggingin sé lýti á hinu klassíska Landsbankahúsi. En staðreyndin er sú að hún er einungis svona fimmtán árum yngri en aðalbyggingin.

Nú er Landsbankinn byrjaður að reisa nýtt hús við Austurhöfnina. Það bætist við hinar stóru nýbyggingar þar – af ljósmyndum að dæma virðist það reyndar ætla að verða skásta húsið þar út frá sjónarmiði byggingalistar. En þá er spurning hvað menn ætla að gera við gamla Landsbankahúsið. Hvaða starfsemi getur verið þar? Beint á móti standa bæði gamla pósthúsið og lögreglustöðin auð eftir að fjárfestingarfélag eignaðist húsin.

Hér er svo önnur skemmtileg ljósmynd sem Þorgrímur birtir úr safni Sigurðar. Þetta er aðalbygging Háskóla Íslands. Hún er þarna í byggingu, en húsið var vígt árið 1940. Háskólinn var teiknaður af Guðjóni Samúelssyni – og er eitt besta verk hans.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Meiri agavandamál í íslenskum skólum en á hinun Norðurlöndunum

Meiri agavandamál í íslenskum skólum en á hinun Norðurlöndunum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn sakar Vilhjálm um að vega að nýlátnum föður sínum

Þorsteinn sakar Vilhjálm um að vega að nýlátnum föður sínum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Lögreglan má sekta þig fyrir að ryðjast framfyrir í röð – Vannýtt innheimtutækifæri fyrir ríkissjóð?

Lögreglan má sekta þig fyrir að ryðjast framfyrir í röð – Vannýtt innheimtutækifæri fyrir ríkissjóð?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Innlend netverslun í miklum vexti

Innlend netverslun í miklum vexti