fbpx
Mánudagur 24.júní 2019
Eyjan

Nei, gyðingahatur er ekki landlægt á Íslandi

Egill Helgason
Föstudaginn 31. maí 2019 14:34

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líklega hefur þorri Íslendinga samúð með Palestínumönnum, smáþjóð sem er beitt ofríki og ofbeldi í heimahögum sínum. Stór hluti þjóðarinnar hefur reyndar verið hrakinn á brott, aðrir lifa við sífellt þrengri skilyrði – þurfa sífellt að gefa eftir gagnvart landráni og nýlendukúgun sem er studd yfirburða hervaldi. Ekki einungis er ísraelski herinn grár fyrir járnum, með allan nýtísku vopnabúnað – heldur vill það stundum gleymast í umræðunni að Ísrael hefur yfir kjarnorkusprengjum að ráða. Það er á allra vitorði, þótt farið sé með það eins og ægilegt leyndarmál.

Að jafna samúðinni með Palestínumönnum og andstöðu við hernám Ísraela við gyðingahatur er vægast sagt óheiðarlegt. Þetta er það sem kallast skálkaskjól og núorðið óspart notað sem slíkt. Í dag er til dæmis vitnað í grein sem birtist í Jerusalem Post en þar er fimbulfambað um landlægt gyðingahatur á Íslandi – náttúrlega í framhaldi af gjörningi Hatara í Evróvisjón-keppninni.

Það er einfalt að staðhæfa: Þetta er einfaldlega rangt.

Íslendingar hafa reyndar afar litla reynslu af gyðingum, enda hafa þeir aldrei verið fjölmennir hér. Framkoma íslenskra yfirvalda gegn gyðingum sem reyndu að flytjast hingað fyrir heimsstyrjöldina var sannarlega ekki til fyrirmyndar. En á þeim tíma hröktust gyðingar um alla veröld og dyr lokuðust á þá út um allt – þeir voru ekki vel séðir fremur en flóttamenn í dag. Hér var framganga íslenskra stjórnvalda ekkert einsdæmi, þótt eftir á að hyggja hefði maður viljað að þau breyttu öðruvísi.

Að nefna lúterskt heittrúarskáld eins og Hallgrím Pétursson sem dæmi um gyðingahatur á Íslandi lýsir viljandi vanþekkingu á hugarheimi þeirra tíma kristindóms. Það er ekki dæmi um neitt sér-íslenskt hugarfar. Á Íslandi náði nasismi aldrei neinum verulegum ítökum í samanburði við mörg nágrannalönd, það er lítið að marka ómerkilegan sparðatíning um gyðingahatur Halldórs Laxness.

Gunnar Gunnarsson hitti vissulega Hitler og Björn Sv. Björnsson var í áróðursdeild SS. Báðir störfuðu þeir í Danmörku og voru undir áhrifum frá pólitískum straumum og stefnum þar. Þeir eru á engan hátt dæmigerðir fyrir viðhorf hér á Íslandi – þótt sannarlega sé ekki mikill sómi að því hvernig íslensk stjórnvöld redduðu forsetasyninum í stríðslok.

Þegar ég var að alast upp voru Íslendingar almennt hliðhollir Ísrael. Ég man eftir útbreiddri aðdáun á ísraelskum stjórnmálamönnum eins og David Ben Gurion (ljósmyndin hér að ofan er frá frægri Íslandsheimsókn hans), Goldu Meir, Moshe Dayan og Abba Eban. Íslendingar gengu fram fyrir skjöldu hjá Sameinuðu þjóðunum eftir stríðið og studdu stofnun Ísraelsríkis. En mál í þessum heimshluta hafa hins vegar þróast þannig að nær óhjákvæmilegt er að hafa samúð með lítilmagnanum – sem eru Palestínumenn – og skömm á hörkunni og yfirgangnum sem ofjarlinn – Ísrael – beitir.

Gjörningur Hatara bar heldur ekki vott um neitt sem líkist gyðingahatri. Þeir áræddu hins vegar að nefna það sem Ísraelar voru að reyna af megni að horfa framhjá í þessari keppni mitt í öllu talinu um samkennd og frelsi – hið hörmulega hernám sem á sér stað stutt frá keppnishöllinni og eitrar ekki bara líf hinna kúguðu heldur veldur líka sálartjóni hjá kúgaranum. Og Hatarar voru nógu djarfir til að fara sjálfir á herteknu svæðin til að sjá hlutina með eigin augum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Breyttir neysluhættir – hefðbundin verslun er alls staðar í kreppu og á sama tíma er byggt gríðarlega mikið af verslunarhúsnæði í Reykjavík

Breyttir neysluhættir – hefðbundin verslun er alls staðar í kreppu og á sama tíma er byggt gríðarlega mikið af verslunarhúsnæði í Reykjavík
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Stóra póstnúmeramálið

Stóra póstnúmeramálið
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Umhverfisstofnun vill friðlýsa Dranga á Ströndum – Tilraun tvö

Umhverfisstofnun vill friðlýsa Dranga á Ströndum – Tilraun tvö
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jákvæðar niðurstöður úr tilraunarverkefni um styttingu vinnuvikunnar – Meiri ánægja, minna álag

Jákvæðar niðurstöður úr tilraunarverkefni um styttingu vinnuvikunnar – Meiri ánægja, minna álag