fbpx
Mánudagur 24.júní 2019
Eyjan

Líkurnar á lagningu sæstrengs eru afar litlar

Egill Helgason
Fimmtudaginn 30. maí 2019 13:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á síðasta áratug 20. aldar var smá kreppa á Íslandi. Atvinnulífið var einhæft og stjórnvöld sáu ekki annað úrræði en að efna til mikilla virkjanaframkvæmda og selja orkuna til stóriðju til að koma hjólunum í gang. Fyrst átti að virkja á Eyjabökkum en eftir mikil mótmæli var söðlað um og ákveðið að virkja við Kárahnjúka. Iðnaðarráðherrar fóru víða um lönd og reyndu að draga hingað erlend álfyrirtæki. Fyrst var það Jón Sigurðsson – frægt varð orðatiltæki hans um stóriðjuna, „það er landsýn í málinu“. Þetta gekk ekki hjá Jóni, en þá  kom Finnur Ingólfsson til skjalanna og loks Valgerður Sverrisdóttir.

Allt varð þetta mjög umdeilt. Hér reis mikil hreyfing náttúruverndarsinna. Umhverfisvernd átti ekki eins mikið upp á pallborðið og nú – frægt var þegar helsti talsmaður hennar í Sjálfstæðisflokknum, Ólafur F. Magnússon, hrökklaðist úr flokknum eftir að hafa verið hálfpartinn píptur niður á landsfundi.

Niðurstaðan úr þessu varð á endanum Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði. Samstaðan um í pólitíkinni var í raun býsna mikil – Sjálfstæðisflokkurinn var með, Framsókn var með sem og drjúgur hluti Samfylkingarinnar, VG var á móti. En þetta var samt gríðarlega hörð barátta og grasrótarhreyfingar beittu sér með miklum krafti.

Tímarnir eru breyttir. Það væri ekki einfalt mál að sannfæra þjóðina um að fara í slíkar ofurframkvæmdir til að knýja eitt álver. Líklega þýddi ekkert að bjóða kjósendum upp á slíkt. Viðhorfin til orkunýtingar og náttúruverndar hafa tekið stakkaskiptum. Virkjanafyrirætlanir sem eru mjög litlar á mælikvarða Kárahnjúka vekja miklar deilur og komast ekki í gang. Það hafa verið reist hér smærri verksmiðjur, eins og í Helguvík og á Bakka – í báðum tilvikum eru framkvæmdirnar illa þokkaðar og þykja engan veginn til fyrirmyndar. Við vitum líka að of mikið af þeirri orku sem við framleiðum fer í að knýja áfram fánýta iðju eins og  gröft eftir rafmyntinni Bitcoin.

Nú er rætt um horfurnar á því að lagður verði sæstrengur til að flytja raforku milli Íslands og Bretlands. Af umræðunni að dæma þykir mörgum það ganga næst landráðum að bollaleggja þar um. Þar ná umhverfissinnar og þjóðernissinnar sumpart saman.

Staðreyndin er líka er sú að hið pólitíska andrúmsloft og almenningsálitið á Íslandi, fáum áratugum eftir bónsferðir Jóns Sig og Finns vegna stóriðju, er ákaflega andsnúið öllum þeim miklu framkvæmdum sem þyrfti að fara í til að koma sæstreng á laggirnar. Þar er átt við stórar virkjanir, háspennulínur og tengivirki – gríðarlegt rask á umhverfinu. Og svo er náttúrlega hitt, að vegna breytinga á orkubúskap í Evrópu í Evrópu er ólíklegt að verð fyrir raforkuna um sæstreng yrði eins hátt og horfur voru á þegar forsætisráðherrarnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og David Cameron ræddu sæstreng fyrir nokkrum árum.

Gæti þetta breyst? Auðvitað er ekki hægt að útiloka það, en þá aðeins ef yrði hér algjört efnahagshrun og menn teldu sig þurfa að finna leiðir til að koma aftur fótunum undir íslenska hagkerfið. Þá væntanlega eftir mikið hrun í túrisma og fiskveiðum – ekkert í líkingu við það litla bakslag sem við upplifum nú. Eða þá ef álverin lokuðu og við ættum allt í einu gríðarlegt magn af umframraforku. En þá er spurning hvort verður lengur hagkvæmt að flytja orku um streng til Bretlands – uppi eru talsverðar efasemdir um það.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Meiri agavandamál í íslenskum skólum en á hinun Norðurlöndunum

Meiri agavandamál í íslenskum skólum en á hinun Norðurlöndunum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn sakar Vilhjálm um að vega að nýlátnum föður sínum

Þorsteinn sakar Vilhjálm um að vega að nýlátnum föður sínum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Lögreglan má sekta þig fyrir að ryðjast framfyrir í röð – Vannýtt innheimtutækifæri fyrir ríkissjóð?

Lögreglan má sekta þig fyrir að ryðjast framfyrir í röð – Vannýtt innheimtutækifæri fyrir ríkissjóð?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Innlend netverslun í miklum vexti

Innlend netverslun í miklum vexti