fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Eyjan

Elliði Vignisson í yfirheyrslu – „Það er orðið helvíti þröngt í draugheimum ef hinir látnu halda áfram að hrúgast þar upp“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 24. maí 2019 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elliði Vignisson tók við bæjarstjórataumunum í Ölfusi í lok júlí 2018, en þar áður starfaði hann sem bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í 12 ár, en Elliði hefur 20 ára reynslu af sveitarstjórnarstörfum. Elliði er sálfræðingur og með grunn- og framhaldsskólakennaramenntun.

DV tók Elliða í yfirheyrslu og hann svaraði um hæl á léttan og skemmtilegan hátt eins og honum er lagið.

Hjúskaparstaða og börn?

Ég er kvæntur Berthu I. Johansen og engum dylst að ég var mikið heppnari með maka en hún. Við eigum tvö börn, þau Nökkva Dan, nemanda í fræðilegri stærðfræði við HÍ, og kvenskörunginn hana Bjarteyju Bríeti framhaldskólanemanda.

Fyrsta minningin?

Mín elsta minning er gosnóttin í Eyjum 23. janúar 1973. Þótt erfitt sé að átta sig á hvað nákvæmlega er hrein minning og hvað hefur orðið til vegna ljósmynda og sagna þá stendur sú nótt mér ljóslifandi fyrir sjónum. Það er enda ekki á hverri nóttu sem fólk vaknar upp um miðja nótt og verður vitni að heimsviðburði rétt við svefnherbergisgluggann.

Hvað er skemmtilegt?

Lífið er skemmtilegt, reyndar alveg magnað hvað það skemmtilegt. Við fjölskyldan höfum alla tíð lagt mikla áherslu á að finna gleðina og hamingjuna í hversdagslegu hlutunum frekar en að vera alltaf að bíða eftir einhverju. Við reynum að njóta ferðalagsins frekar en áfangastaðarins. Ég er svo heppinn að vera vinmargur og nýt mín vel í hópi fjölskyldu og vina. Það sem færri vita er að ég er ákveðinn einfari í mér og veit fátt skemmtilegra en að vera einn með hugsunum mínum og eftir atvikum með áhugaverða bók og góðan bjór.

Hvað er leiðinlegt?

Það er leiðinlegt þegar maður lendir í því að særa einhvern. Ég er orðhvatur og í raun átakamaður í eðli mínu. Sérstaklega áður fyrr átti ég það til að láta þetta eðli mitt ráða og lenti þá stundum í því að valda fólki ama sem ekkert átti nema gott skilið. Það þótti mér og þykir enn mjög miður.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst krakki?

Ég spáði nú ekkert mikið í það. Foreldrar mínir gerðu þá einu kröfu til okkar bræðranna að við yrðum góðir menn og hamingjusamir. Það var minna lagt upp úr því hvað við yrðum. Hugurinn leitaði snemma í átt að öllu sem tengist mannlegu eðli og svo fór að ég lagði sálfræðina fyrir mig og lauk masternámi í þeirri góðu grein.

Versta ráð sem þú hefur fengið?

Í kringum mig er gott fólk og ég svo heppinn að fá frá þeim góð ráð. Eitt versta ráð sem ég hef nokkru sinni fengið fékk ég núna í apríl síðastliðnum þegar ég hélt upp á fimmtudagsafmælið mitt og hún Bertha mín reyndi að fá mig og fleiri úr vinahópnum ofan af því að fara í sjósund í Þorlákshöfn klukkan sex um morguninn. Sem betur fer fórum við ekki eftir því.

Trúir þú á álfa, drauga eða eitthvað slíkt?

Nei, ég er of jarðbundinn til að trúa slíku. Til að mynda þetta draugatal, það bara gengur ekki upp fyrir mér stærðfræðilega. Maðurinn hefur verið til í núverandi mynd í sirka 50.000 ár og á þeim tíma hafa um 108 milljarðar fæðst. Það er orðið helvíti þröngt í draugheimum ef hinir látnu halda áfram að hrúgast þar upp.

Hverjir eru mannkostir þínir?

Það fer nú allt eftir því hvern þú spyrð. Sjálfur er ég afar þakklátur fyrir þá sterku sjálfsmynd sem foreldrar mínir gáfu mér í veganesti. Ég er líka mjög þakklátur fyrir einurðina, vinnusiðferðið og hina léttu lund.

En lestir?

Ég er í eðli mínu of bardagafús og það verður, og varð sérstaklega áður fyrr, til þess að ég stofnaði til átaka við fólk sem ég gæti í dag látið mér lynda við.

Fyrsta atvinnan?

Fyrsta atvinnan var að hjálpa til við að skera af netum, gella, hamfletta lunda og salta síld í tunnu. Fyrsta fasta vinnan var árið fyrir fermingu þegar ég fór að vinna við fiskmóttöku hjá Gunnari á Ártý og Valda í Kinn

Mikilvægast í lífinu?

Án nokkurs vafa fjölskyldan. Fast þar upp við vinirnir og svo það að geta látið gott af sér leiða með því að leggja hart að sér við vinnu.

Stærsta augnablikið?

Þegar ég plataði Berthu til að verða unnusta mín og svo náttúrulega afleiðing þess, fæðing barna okkar.

Mestu vonbrigðin?

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég var farinn að taka þátt í stjórnmálum og fattaði hvernig hlutirnir gerast í raun og veru. Ég hafði alltaf haft óljósa hugmynd um að þegar taka þyrfti stórar ákvarðanir eða tryggja mikla hagsmuni fyrir þjóðina þá kæmi skynsamt fólk saman og tæki yfirvegaða ákvörðun. Í ljós kom hins vegar að þetta er oftar en ekki í tómu rugli þar sem enginn veit neitt og ákvörðun verður til fyrir einhverja málamiðlunarmoðsuðu sem engum gagnast.

Hvað er það erfiðasta sem þú hefur upplifað?

Ég er nú svo heppinn að hafa farið í gegnum lífið án teljandi erfiðleika. Ég held að erfiðasta nótt sem ég hef upplifað hafi verið þegar sonur okkar var á fyrsta aldursári og var lagður inn á spítala í Danmörku, þar sem bjuggum þá, vegna gruns um að hann væri með heilahimnubólgu. Þá upplifði ég í fyrsta og eina skipti á ævinni algert hjálparleysi og ótta. Það fannst mér ömurlega erfitt.

En mest gefandi?

Að sjá fjölskylduna dafna. Svo er ég nægilega hégómagjarn til að finnast það mjög gefandi í þau skipti þegar maður hefur jákvæða aðkomu að lífi einhvers, til dæmis í gegnum sálfræðistörf og kennslu, og snertir það á þann veg að viðkomandi er betur settur á eftir. Að mörgu leyti á hið sama við þegar maður stjórnar bæjarfélagi. Manni þykir gefandi þegar vel tekst til og fólk er hamingjusamt.

Leiðinlegasta húsverkið?

Langleiðinlegast er að taka niður hvíta tjaldið á þjóðhátíð á mánudegi eftir þriggja sólarhringa fjör. Það er samt eitthvað svo gott vont og ég myndi því ekki vilja vera án þess.

Best að vera kennari, sálfræðingur eða bæjarstjóri?

Ég hef það frá honum pabba mínum að verða alltaf hugfanginn af því sem ég er að gera í hvert skipti. Eins og hann þá langar mig alveg rosalega mikið að gera það vel sem ég er að fást við og vil leggja mikið á mig til að standa undir því trausti sem mér er sýnt þegar mér er falin ábyrgð. Það á sérstaklega við þegar staðan sem maður gegnir er langtum stærri en sú persóna sem gegnir því tímabundið. Í dag þykir mér skemmtilegast í heimi að vera bæjarstjóri í Ölfusi. Ég elska bæði svæðið og íbúa.

Fyrsti bíllinn

Fyrsti bíllinn sem ég hafði til eigin nota var Renault 4, 1981 módel, sem pabbi átti. Þann bíl notaði ég þegar ég var 14 ára í skólann og til að fara á rúntinn með vinahópnum þegar mamma og pabbi voru uppi á landi. Ég þorði ekki að segja mömmu frá því fyrr en ég var rúmlega fertugur og hún tók mig heldur betur í gegn. Ég mun ekki aftur þora að stela bíl frá þeim.

Eitthvað að lokum?

Lífið er dýrt, dauðinn þess borgun. Drekkum í dag og iðrumst á morgun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega