fbpx
Mánudagur 24.júní 2019
Eyjan

Hefur ekki áhyggjur af þeim sem vilja þagga niður í honum – „Þetta er viðfangsefni fyrir geðlækna“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 23. maí 2019 16:53

Mynd: Dv/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Í bókinni er lögð áhersla á tímabilið frá seinni heimstyrjöld og fram til 2015 þegar stöðugur innflutningur fólks til Evrópu frá öðrum heimsálfum varð að landamæralausu innstreymi fólks. Breytingarnar sem þetta er að valda og hefur þegar valdið eru án efa framandi Íslendingum. En innfæddir Englendingar hafa upplifað þá umbreytingu á höfuðborg sinni, London, að þar er nú minnihluti íbúanna af ensku bergi brotinn,“ segir Douglas Murray, rithöfundur og blaðamaður, en bók hans The Strange Death of Europe er nýkomin út í íslenskri þýðingu, undir heitinu Dauði Evrópu. Undirtitill verksins er: Innflytjendur, sjálfsmynd, íslam. Douglas Murray heldur fyrirlestur í Hörpu í kvöld um efni bókarinnar og svarar fyrirspurnum áheyrenda.

Bókin endurspeglar þau viðhorf Douglas Murray að evrópsk siðmenning eigi undir högg að sækja vegna fjöldainnflutnings fólks með menningarlegan bakgrunn ólíkan Evrópubúum. Hann hefur áhyggjur af framtíð heimsálfunnar án þess að kveða þar upp endanlegan spádóm. Douglas segir að pólitískur rétttrúnaður og djúpstæð sektarkennd Vesturlandabúa vegna landvinninga og stríðsreksturs í fortíðinni hamli því að innflytjendamál séu rædd hreinskilnislega á opinberum vettvangi. Douglas Murray er nokkuð hikandi í afstöðu sinni til þess hvað eigi að gera til að bregðast við þessum meinta vanda, en hann vill til dæmis ekki grípa til svo harkalegra aðgerða að vísa innflytjendum í stórum stíl burtu né loka fyrir innflutning undir eins. Hann segir að lykilorð sín hvað þetta varðar séu: „Förum varlega.“ Hann setur sig líka mjög upp á móti hugmyndinni um landamæralaus ríki enda sé óhægt um vik að halda uppi velferðarkerfi ef engin takmörk séu á því hverjir geti flutt til landsins.

„Þetta þýðir ekki að ég vilji vera vondur við innflytjendur eða segja að enginn megi framar skipta um heimkynni. Ég vil bara að við stígum varlega til jarðar og förum að ræða þessi mál af hreinskilni. Það þarf nefnilega að svara mjög erfiðum spurningum um hvert við Evrópubúar viljum stefna í innflytjendamálum.“

„Það hafa orðið miklar breytingar í löndum á borð við England, Frakkland og Þýskaland, sem eru Íslendingum eflaust framandi enda er innflutningur fólks hér frá öðrum löndum mjög lítill í samanburði við þessi lönd.“

Það er ekki tilviljun að orðið Íslam er í undirtitli bókarinnar en Douglas telur að mestu aðlögunarvandamálin varði íslamska innflytjendur. En aðlagast ekki flestir innflytjendur vel?

„Sem betur fer aðlagast margir innflytjendur vel og eru frábærir en það eru samt mikil aðlögunarvandamál, sérstaklega meðal íslamskra innflytjenda. Skoðanakönnun eftir skoðanakönnun birtir óþægilega mynd af afstöðu múslima á Englandi til þátta á borð við tjáningarfrelsi, jafnrétti kynjanna, afstöðu til kynferðislegra minnihlutahópa, t.d. samkynhneigðra; og til trúarfráhvarfs, þ.e. mikla óbilgirni er að finna í garð þeirra múslima sem ganga af trúnni,“ segir Murray og minnir á að nokkurra ára gömul yfirgripsmikil skoðanakönnun hafi leitt í ljós að naumur meirihluti múslima á Bretlandi vilji að samkynhneigð verði gerð ólögleg.

„Önnur skoðanakönnun leiddi í ljós að þriðungur múslima á Englandi hafði einhverja samúð með þeim sem frömdu morðin á ritstjórnarskrifstofum Charlie Hebdo árið 2015 til að hefna fyrir skopmyndir blaðsins af Múhameð spámanni. Þetta er vissulega minnihluti, sem betur fer, en þetta er alls ekki lítill minnihluti heldur óþægilega stór minnihluti.“

Sjálfsmynd er eitt orðið í undirtitli bókar Murray en hann telur að þessir þjóðflutningar undanfarinna áratuga hafi leitt til þess að Bretar séu orðnir mjög óvissir um það hvað felst í því að vera Breti. „Ein algengasta skilgreiningin núna er að umburðarlyndi sé breskt þjóðareinkenni. Umburðarlyndi er ágætt en þetta er afskaplega víð skilgreining sem segir lítið. Og sjálfur vil ég ekki vera umburðarlyndur gagnvart umburðarleysi.“

Segir örlítið brot vinstra öfgafólks fordæma sig

Douglas Murray er mjög virtur penni og þessi nýjasta bók hans, sem kom út á Englandi árið 2017, hefur fengið mjög góðar viðtökur. En hann á, eins og gefur að skilja, sína gagnrýnendur. Þeir hörðustu segja að skrif hans séu í raun ekki annað en útlendingaandúð klædd í búning fágaðrar framsetningar. Í ritdómi um bókina í Guardian sagði til dæmis að Douglas Murray sé svona maður sem vilji ekki hafa múslima eða Rúmena nálægt sér.

Enn fremur hafa nokkrir aðilar hér á landi hvatt til þess að fyrirlestur Douglas Murray í Hörpu verði blásinn af og meðal þeirra er framkvæmdastjóri stéttarfélagsins Eflingar, Viðar Þorsteinsson, sem skrifaði opið bréf til Svanhildar Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu, um að taka fyrirlesturinn af dagskrá, í nafni mannréttinda minnihlutahópa.

„Andstæðingar mínir setja stundum fram lygar til að ófrægja mig. Ég kippi mér ekki upp við það. Fólk sem svona skrifar ætti bara að vita um öll þau persónulega kynni sem ég hef af múslimum og fólki af ólíkum kynþáttum. Önnur ofsafengin viðbrögð sem ég fæ eru vegna þekkingarleysis og sum tilfellin eru þannig að þetta er viðfangsefni fyrir geðlækna en ekki mig.“

Almennt segist Douglas Murray alls ekki vera umdeildur enda fylgi hann meginstraumnum. Þeir sem fordæma hann séu örlítið brot fólks sem er lengst úti á jaðrinum vinstra megin í pólitíska litrófinu.

„Ég er mjög mainstream. Ég er dálkahöfundur í öllum víðlesnustu blöðum Bretlands, ég hef veitt ráðgjöf og átt samstarf við helstu stjórnmálamenn Bretlands og stjórnmálamenn víða um heim, ég hef talað í virtum háskólum um allan heim. Bókin mín komst í fyrsta sæti metsölulista á Bretlandi, hún hefur verið þýdd á öll evrópsk tungumál og fjölmargar aðrar tungur heimsins. Síðast en ekki síst, sýna allar skoðanakannanir að meirihluti fólks er sammála mínum viðhorfum. Það eru skoðanir meirihlutans sem ég er að tjá.

Þessi bók er byggð á traustum heimildum og milliliðalausum kynnum af viðfangsefninu. Ég hef ferðast og kynnst þeim löndum þaðan sem flestir innflytjendur koma og ég hef ferðast til þeirra staða þar sem þeir koma inn til Evrópu. Ég hef örugglega kynnst persónulega fleiri flóttamönnum en allir þessir gagnrýnendum mínir samanlagt.“

Ég er hins vegar alltaf tilbúinn í rökræður við hvern sem er og hvar sem er og hef ekki vikist undan því að takast á við menn og málefni við mjög fjandsamlegar aðstæður, til dæmis ræða við blaðamenn sem eru óvinveittir mér eða taka þátt í rökræðum fyrir framan áheyrendur sem eru andsnúnir mér.“

Tommy Robinson mistækur en ekki rasisti

Blaðamaður spyr Douglas Murray hvort tjáningarfrelsi sé á undanhaldi í vestrænum ríkjum og nefnir til dæmis mjög harða umfjöllun um íslamsgagrýnendur á borð við Tommy Robinson á Englandi. Sífellt fleira fólki með meintar óæskilegar skoðanir sé úthýst af samfélagsmiðlum.

„Ég hef tvisvar tekið viðtal við Tommy Robinson og ég hef aldrei heyrt hann segja neitt sem bendir til þess að hann sé rasisti. Öðru nær virðist honum líða mjög vel í návist fólks af öðrum uppruna. En hann hefur gert margt afskaplega óviturlegt. Árið 2017, rétt eftir afar mannskæða hryðjuverkaárás í Manchester, þá var uppi grunur um að hryðjuverkamaðurinn hefði haft kynni af öfgaklerkum í Didsbury moskunni í Manchester. Tommy fór þarna um með myndavél og benti á húsin í kring og sagði: Þarna geta búið hryðjuverkamenn, þarna og þarna. Þetta er afskaplega ábyrgðarlaust framferði.“

Douglas bendir hins vegar á að Tommy Robinson sé dæmi um alþýðurödd sem ráðandi aðilar vilji þagga niður í vegna þess að hann bendi á óþægileg vandamál sem þeir vilja ekki horfast í augu við. „Hvað áttu að gera ef þú ert verkamaður í Bradford eða Luton þar sem erlend glæpagengi hafa komist upp með að nauðga börnum í stórum stíl og það hefur verið þaggað niður? Máttu tala um það? Eða áttu að þegja? Ef þú ert ómenntaður og hefur ekki aðgang að helstu fjölmiðlum, áttu þá bara að hafa þig hægan?“

Varðandi þessa síauknu ritskoðun á samfélagsmiðlum þá er hún sorgleg og varhugaverð. Við höfum góð lög í Bretlandi um viðurlög við því að hvetja til ofbeldis og slíkum lögum á að framfylgja af hörku. En það á ekki að útvíkka þau til að taka úr umferð fólk með meintar óæskilegar skoðanir. Sjálfur er ég svo lánsamur að hafa aðgang að öllum fjölmiðlum til að tjá mig en með netinu opnaðist tækifæri fyrir venjulegt fólk að viðra sín viðhorf. Ég vara eindregið við því að troðið sé á þeim rétti almennings.“

En það eru vissulega til rasistar og hættulegir hægri öfgamenn. Ég fullyrði að þeir eru ekki margir. Það þarf að ganga gegn slíkum aðilum af fullri hörku en ekki klína þessum stimpli á fólk sem þér líkar ekki við, bara af því það er ekki sammála þér. Slíkt gera margir í von um pólitískan ávinning til skamms tíma.“

Mynd: Dv/Hanna

Eins og að gefa barninu sínu óprófað bóluefni

Blaðamaður bendir Douglas á að bók hans leiði ekki með óyggjandi hætti fram að innflytjendur almennt muni ekki aðlagast vestrænum gildum í framtíðinni. Getur ekki verið að þetta verði bara í lagi og evrópsk menning haldi velli eins og hingað til?

„Það má vera. En þetta er risastór þjóðfélagsleg tilraun, gerð af ábyrgðarleysi. Þetta er sambærilegt því að þú gæfir barninu þínu nýtt bóluefni sem hefði aldrei verið prófað á tilraunastofu, og bara vonaðir að allt myndi blessast.“

Blaðamaður minnist jafnframt á það að síðan bókin kom út, fyrir rúmum tveimur árum, hafi ekki átt sér stað neinar alvarlegar hryðjuverkaárásir í Evrópu. Jafnframt hafi mjög dregið úr innflutningi fólks til álfunnar. Bendir það ekki til þess að ástandið sé að lagast og það hratt?

„Ástandið hefur lagast – tímabundið. Við vitum ekki hvað gerist næst og tvö ár eru stuttur tími. En ég vil bara endurtaka fyrri varnaðarorð: Við skulum fara varlega. Við erum alltaf bara einum brjálæðingi frá því að upplifa skelfilegan atburð sem hefur varanleg áhrif á samfélagið. Sjáðu bara hvað gerðist í Christchurch þar sem þessi brjálæðingur myrti 50 varnarlausar manneskjur. Svona atburður markar spor sín á samfélagið á Nýja-Sjálandi um ókomna framtíð.“

Douglas bendir líka á að vilji gífurlegs fjölda jarðarbúa standi til þess að flytja til Evrópu: „Ný skoðanakönnun leiðir í ljós að þriðjungur Afríkubúa sunnan Sahara vill skipta um heimkynni. Vandamálin eru ekkert að hverfa, við verðum að horfast í augu við og ræða þessi mál af hreinskilni og glíma við erfiðar spurningar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Breyttir neysluhættir – hefðbundin verslun er alls staðar í kreppu og á sama tíma er byggt gríðarlega mikið af verslunarhúsnæði í Reykjavík

Breyttir neysluhættir – hefðbundin verslun er alls staðar í kreppu og á sama tíma er byggt gríðarlega mikið af verslunarhúsnæði í Reykjavík
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Stóra póstnúmeramálið

Stóra póstnúmeramálið
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Umhverfisstofnun vill friðlýsa Dranga á Ströndum – Tilraun tvö

Umhverfisstofnun vill friðlýsa Dranga á Ströndum – Tilraun tvö
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jákvæðar niðurstöður úr tilraunarverkefni um styttingu vinnuvikunnar – Meiri ánægja, minna álag

Jákvæðar niðurstöður úr tilraunarverkefni um styttingu vinnuvikunnar – Meiri ánægja, minna álag