fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Rannsóknarréttur yfir borgarfulltrúum? „Fyrr frýs í helvíti en að ég mæti á slíka samkomu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 9. maí 2019 18:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Svo ég endurtaki bara það sem ég sagði um málið á fundi borgarráðs í mars, þegar afgreiðslu þess var frestað: Fyrr frýs í helvíti en ég að mæti á slíka samkomu sem hér er verið að boða til,“ segir Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins, í samtali við DV. Tilefnið er svokallað bráðabirgðaferli sem nú hefur verið stofnað sem farvegur fyrir kvartanir starfsmanna borgarinnar yfir framgöngu einstakra borgafulltrúa.

Málið á sér aðdraganda frá í febrúar en þá greindi Eyjan frá kvörtunum Stefáns Eiríkssonar borgararitara sem skrifaði langan pistill á umræðusvæði borgarstarfsmanna þar sem sagði meðal annars:

„Undanfarna mánuði hafa fáeinir borgarfulltrúar ítrekað vænt starfsfólk Reykjavíkurborgar um óheiðarleika og vegið með ýmsum öðrum hætti að starfsheiðri þeirra. Þetta hefur verið gert beint og óbeint, orðum verið beint að nafngreindum sem og ótilgreindum starfsmönnum, starfsmannahópum, einstaka nefndum og fjallað um einstaka starfsstaði með niðrandi og niðurlægjandi hætti. Gert hefur verið lítið úr störfum þeirra, hæðst hefur verið að þeim verkefnum sem viðkomandi starfsmenn sinna, þeir jafnvel vændir um óheiðarleika og hafa í störfum sínum einhvern annan tilgang en að sinna hverju því verkefni sem viðkomandi hefur verið falið af fagmennsku og heiðarleika.

Og fáeinir borgarfulltrúar hafa ekki látið þar við sitja heldur jafnframt vegið að einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum sem unnið hafa með eða fyrir Reykjavíkurborg með sama hætti.“

Undir þetta tók meðal annars Gunnar Hersveinn Sigursteinsson, starfsmaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar sem hlóð í annan eins pistil.

Borgarfulltrúar minnihlutans brugðust hart við þessari framgöngu og Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, benti á að embættismenn ættu ekki að vera í pólitík. Um það var deilt hvort borgarfulltrúar væru að vega að embættismönnum borgarinnar eða hvort hinir síðarnefndu að forðast eðlilega gagnrýni, til dæmis vegna umframkeyrslu í verkefnum borgarinnar, þar sem braggamálið var frægasta dæmið af mörgum.  Hér er frétt Eyjunnar um málið í febrúar

Bráðabirgðaverkferill eða rannsóknarréttur?

Borgarráð hefur nú í krafti meirihlutans samþykkt innleiðingu bráðabirgðaverkferils fyrir kvartanir starfsfólks borgarinnar bæði vegna framgöngu annarra starfsmanna og borgarfulltrúa. Borgarfulltrúar minnihlutans kalla þetta rannsóknarrétt en ferlið getur tekið á sig þá mynd að miðlægt eineltis- og áreitniteymi hafi samband við borgarfulltrúa. Sjá nánar texta um verkferilinn neðst í fréttinni.

Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins, lítur á verkferillinn sem vopn borgarstjóra og meirihlutans til að beita á pólitíska andstæðinga. Hefur hann birt eftirfarandi yfirlýsingu vegna málsins:

Ráðhúsið í dag:

Dagur B.Eggertsson, borgarstjóri lagði í dag,enn eina ferðina, fram tillögu sína um spænskan Rannsóknarrétt og nú var verknaðurinn fullframinn. 
Tillagan keyrð í gegn.

Nú er borgarstjóri kominn með vopn til að beita á pólitíska andstæðinga sína í hópi borgarfulltrúa.

Nú skulu undirritaður og fleirri passa sig.
Næst þegar þegar við bendum á hneyklsi eins og Gistiskýli, Bragga, Hlemm Mathöll ofl. 
eða áfellisdóma Héraðsdóms, Persónuverndar ofl. skal það kosta.

Sem kjörnum fulltrúum ber okkur að sinna eftirlitsskyldu gagnvart borgarbatteríinu og í framhaldi benda á þær misfellur sem við kunnum að finna þar.

Nú er búið að gefa þeim sem við eigum að veita eftirlit skotleyfi á okkur.
Merkilegt það svo ekki sé meira sagt! Og auðvitað ólíðandi.

Undirritaður mun ekki að láta þetta nýja vopn borgarstjóra hafa áhrif á störf sín, heldur mun ég tvieflast í að sinna eftirlitsskyldu minni.

Fari svo að ég verði fyrir vikið sóttur af hettuklæddum mannskap borgarrstjóra, settur í gapastokk og skreyttur keðjum, þá bara ekkert mál.

Ég mun láta gapastokkinn og keðjurnar lúkka vel, engar áhyggjur 🙂

Enda þetta með tilvitnun:
Winter is coming – Vetur kemur
Taki til sín sem eiga.

Baldur Borgþórsson
Varaborgarfulltrúi Miðflokksins

Vigdís: Væri nær að huga að hatursorðræðu innan stjórnkerfisins

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, kallar verkferilinn líka rannsóknarrétt ráðhússins. Í bókun vegna málsins bendir Vigdís á að borgarfulltrúar beri ekki ábyrgð á því að almenn umræða í samfélaginu feli í sér neikvæðan dóm um störf starfsfólks borgarinnar. Óhjákvæmilegt sé að almenningur viti hvaða starfsmenn eiga í hlut í einstökum málum þar sem eftirlitsstofnanir hafa gefið tilteknum verkefnum borgarinnar falleinkunn og í sumum tilvikum hafi jafnvel lögbrot átt sér stað. Bókun Vigdísar vegna málsins er eftirfarandi:

„Borgarstjóri er pólitískur framkvæmdastóri Reykjavíkur og er pólitískur andstæðingur kjörinna fulltrúa. Þessi tillaga er áhlaup á lýðræðiskjörna fulltrúa og vopn til að þagga niður óþægileg mál sem þrifist hafa um langa hríð innan Reykjavíkurborgar.

Óhjákvæmilegt er eftir allar þá áfellisdóma og úrskurði sem eftirlitsstofnanir ríkisins hafa fellt yfir Reykjavíkurborg að almenningur viti hvaða starfsmenn eiga í hlut í einstökum málum. Finna má á heimasíðu Reykjavíkurborgar starfsmenn og ábyrgðaraðila hvers máls. Hér eru nefnd dæmi. Héraðsdómur í máli skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Voru nöfn málsaðila í málsskjölum og því óhjákvæmilegt annað en að ræða málin á þeim grunni.

Sama má segja í þeim lögbrotum sem komið hafa upp er snerta SEA eins og t.d. í Bragganum og Mathöll á Hlemmi. Kjörnir fulltrúar bera ekki ábyrgð á því að hin almenna umræða í samfélaginu „feli í sér neikvæðan dóm yfir viðkomandi starfsfólki eða störfum þess.“

Hins vegar er mikið áhyggjuefni að borgarstjóri sem framkvæmdastjóri Reykjavíkur taki ekki á starfsmannmálum og hatursorðræðu innan stjórnkerfisins og láti það ótalið að t.d. starfsmaður sem heyrir undir hann ráðist að nafngreindum einstaklingum í samfélaginu með orðunum: „ríða, drepa, giftast?“

Eins var látið ógert að áminna borgarritara þegar hann lýsti kjörnum fulltrúum sem „tuddum á skólalóð.““

 

Kolbrún: Verið að gefa þeim sem kvartar falskar vonir

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, hefur margt við verkferilinn að athuga og leggur hún til að fengið verði álit stjórnsýslufræðinga HÍ á verkferli meirihlutans ef starfsmaður kvartar yfir kjörnum fulltrúa. Kolbrún segir í bókun sinni við málið:

„Borgarritari hefur tekið við kvörtunum frá starfsfólki vegna kjörinna fulltrúa eins og opinbert er orðið. Það er ábyrgðarhluti að taka á móti kvörtun þegar ekki er til farvegur fyrir hana og ill gerlegt að búa hann til vegna ójafnar stöðu kjörins fulltrúa annars vegar og starfsmanns hins vegar. Verið er að gefa þeim sem kvartar falskar vonir um vinnslu til lausnar. Tillagan er órökrétt enda geta kvörtunarmál starfsmanns yfir kjörnum fulltrúa aldrei fengið neinar rökréttar málalyktir. Hins vegar hefur borgarritari veitt nánast skotleyfi á starfsfólk borgarinnar með því að bjóða kjörnum fulltrúum að senda mannauðsdeild formlega kvörtun teldu þeir starfsmann hafa gert á hlut sinn.  Að opna fyrir þennan möguleika er ekki réttlátt gagnvart hinum almenna starfsmanni borgarinnar. Formlegt ferli getur leitt til áminningar eða brottrekstrar starfsmanns allt eftir alvarleika málsins. Sama gengur ekki á hinn veginn þar sem hvorki er hægt að reka kjörinn fulltrúa né áminna hann. Kjörinn fulltrúi hefur á hinn bóginn engan stuðning af stéttarfélagi eins og starfsmaðurinn. Komi upp mál milli aðila er dómstólaleiðin eina færa leiðin þegar aðilar eru annars vegar kjörinn fulltrúi og hins vegar starfsmaður.

Borgarfulltrúi Flokks fólks leggur til og óskar eftir að fengið verði mat tveggja stjórnsýslufræðinga á hvort sú tillaga meirihlutans að bráðabirgðarverkferli sem hefur það markmið að skapa farveg fyrir kvartanir starfsfólks yfir kjörnum fulltrúum standist skoðun. Lagt er til að þetta verði metið út frá stjórnsýslulögum og öðrum lögum og reglugerðum sem hún kann að snerta vegna þeirrar ójöfnu stöðu sem kjörinn fulltrúi hefur annars vegar og starfsmaður hins vegar.  Borgarritari hefur tekið við kvörtunum frá starfsfólki vegna kjörinna fulltrúa. Það er hins vegar mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að það sé  ábyrgðarhluti hjá borgarritara að taka á móti kvörtun þegar ekki er til farvegur fyrir hana og útilokað að búa til slíkan vegna ójafnar stöðu kjörins fulltrúa annars vegar og starfsmanns hins vegar. Tillagan er að mati borgarfulltrúa órökrétt enda geta kvörtunarmál starfsmanns yfir kjörnum fulltrúa aldrei fengið neinar rökréttar málalyktir. Því er því mikilvægt að sérfræðingar leggist yfir hana út frá stjórnsýslulögum. Borgarritari og borgarstjóri byggja þessa hugmynd sína á afar óljósri og loðinni skýrslu frá siðanefnd sveitarfélaga. Þessu er við að bæta að það vakti furðu þegar borgarritari veitti nánast skotleyfi á starfsfólk borgarinnar með því að bjóða kjörnum fulltrúum að senda mannauðsdeild formlega kvörtun teldu þeir starfsmann hafa gert á hlut sinn.“

Allan texta bráðabirgðaferilsins má lesa hér að neðan:

Bráðabirgðaverkferill og leiðir til úrlausna vegna kvartana starfsfólks Reykjavíkurborgar vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð

Markmið þessa bráðabirgðaverkferils er að skapa vettvang og farveg fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar til að koma kvörtunum á framfæri vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð. Með þessu er stefnt að því að skapa vettvang sáttar og aukins trausts í samskiptum starfsfólks Reykjavíkurborgar og kjörinna fulltrúa. Þessi verkferill er til bráðbirgða og er settur fram í samræmi við leiðbeiningar í áliti siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 14. desember 2018 og með hliðsjón af þeim skyldum sem á Reykjavíkurborg hvíla sem atvinnurekanda skv. lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. einnig reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Forsendur: Starfsfólk Reykjavíkurborgar á rétt á því að starfa í öruggu og heilsusamlegu starfsumhverfi. Þann 19. mars 2019 var samþykkt í borgarstjórn stefna Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og um leið staðfestur verkferill og leiðir til úrlausna í eineltis og áreitnimálum hjá Reykjavíkurborg. Sá ferill tekur hins vegar ekki til þeirrar stöðu ef kvartanir starfsfólks Reykjavíkurborgar snúa að kjörnum fulltrúum. Ástæðan er sú að kjörnir fulltrúar njóta sérstöðu, sem m.a. byggir á því að Reykjavíkurborg gegnir ekki hefðbundnu vinnuveitendahlutverki gagnvart þeim og getur því ekki brugðist við slíkri hegðun af þeirra hálfu í garð starfsfólks Reykjavíkurborgar með sama hætti og þegar um tilvik er að ræða milli starfsmanna Reykjavíkurborgar. Eftir sem áður ber atvinnurekanda skylda til að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi starfsmanna Reykjavíkurborgar og því þarf að vera til staðar farvegur fyrir slíkar kvartanir, sbr. einnig í þessu sambandi álit siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 14. desember 2018.

Upphaf málsmeðferðar og hvert skal senda kvörtun: Starfsfólk, sem vill koma á framfæri kvörtun vegna framgöngu kjörins fulltrúa gagnvart sér eða öðrum úr hópi starfsfólks Reykjavíkurborgar, getur sent tilkynningu um slíkt til síns yfirmanns, til mannauðsþjónustu viðkomandi sviðs eða eineltis- og áreitniteymis sviðsins.

Form kvörtunar: Ekki er gerð krafa um að kvörtun sé sett fram á tilteknu formi en heimilt er að nýta fyrirliggjandi form fyrir tilkynningu um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða annað ofbeldi. Tilkynningu má einnig setja fram með munnlegum hætti ef þess er óskað og skal viðtakandi hennar sjá um að skrá tilkynninguna niður og fá hana staðfesta af tilkynnanda. Auk upplýsinga um þá aðila sem í hlut eiga þurfa að koma fram upplýsingar um þá hegðun sem um ræðir ásamt skýrri málavaxtalýsingu sem og fylgigögn eftir því sem við á. Ljóst þarf að vera hver setur kvörtunina fram og er ekki tekið við nafnlausum kvörtunum.

Málsmeðferð: Haga skal allri málsmeðferð í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 og farið skal með allar persónuupplýsingar í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 90/2018.

Kvörtun eða ábendingu skal komið til miðlægs eineltis- og áreitniteymis sem annast upphafsathugun málsins, þ.e. athugar hvort að kvörtun starfsmanns innihaldi nægjanlegar upplýsingar til að könnun geti farið fram. Ef talið er þörf á nánari upplýsingum leiðbeinir teymið starfsfólki.

Komist teymið að þeirri niðurstöðu að könnun skuli fara fram skal tilkynna hlutaðeigandi kjörnum fulltrúa um fyrirliggjandi erindi og málsmeðferð.

Könnun máls: Leita skal til óháðs og sérhæfðs aðila utan Reykjavíkurborgar til að annast könnun máls. Tillögu um til hvaða aðila skuli leitað skal bera undir þann/þá aðila sem báru fram kvörtun sem og hinn kjörna fulltrúa. Við könnun málsins hjá utanaðkomandi aðila gilda eins og áður ákvæði stjórnsýslulaga og farið skal með öll gögn sem trúnaðargögn. Meðan málið er til meðferðar skal eineltis- og áreitniteymið kanna þörf málsaðila fyrir stuðning og ráðgjöf fagaðila og veita slíkan stuðning eftir því sem við á.

Gögn og trúnaður: Aðilar máls hafa aðgang að gögnum þess í samræmi við ákvæði laga og skal aðilum í upphafi málsmeðferðar gerð grein fyrir því að um er að ræða opið og gegnsætt vinnsluferli sem felur það í sér að aðilar máls verða upplýstir um það sem fram kemur við könnun málsins. Á þeim fundum sem haldnir eru með málsaðilum og varða viðkomandi mál skal rituð fundargerð sem fara skal yfir í lok fundar. Þær skulu vera á stöðluðu formi með upplýsingum um hvar og hvenær fundur var haldinn, hvaða mál hafi verið til umræðu, hverjir mættu á fundinn, hvaða gögn voru lögð fram og hvaða ákvarðanir voru teknar. Öll gögn skulu merkt sem trúnaðargögn.

Niðurstaða og lok máls: Sá óháði og sérfróði aðili sem fenginn er til að kanna málið skal kynna niðurstöðu athugunar sinnar fyrir hlutaðeigandi starfsmanni/starfsmönnum og kjörnum fulltrúa að henni lokinni ásamt tillögum að lausn eftir því sem við á. Jafnframt skal miðlægt eineltis- og áreitniteymi upplýst um niðurstöðu málsins. Þegar niðurstaða hinnar óháðu könnunar hefur verið kynnt aðilum sem og eftir atvikum tillögur að lausn málsins telst meðferð þess lokið af hálfu Reykjavíkurborgar.

Greinargerð

Eins og rakið er í inngangsorðum þessa verkferils þá miðar hann að því að skapa vettvang fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar til að koma ábendingum eða kvörtunum á framfæri vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð. Sá farvegur miðar að því að skapa vettvang sáttar og aukins trausts í samskiptum starfsfólks Reykjavíkurborgar og kjörinna fulltrúa. Þessi verkferill er til bráðbirgða í ljósi þess að siðanefndin leggur til að hugað verði sérstaklega að þessum málum í tengslum við endurskoðun á gildandi siðareglum kjörinna fulltrúa sem og starfsmanna Reykjavíkurborgar. Verkferillinn er einnig settur fram með hliðsjón af þeim skyldum sem á Reykjavíkurborg hvíla sem atvinnurekanda skv. lögum og reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Starfsfólk Reykjavíkurborgar á rétt á því að starfa í öruggu og heilsusamlegu starfsumhverfi. Mikilvægt er að innan vinnustaðarins sé farvegur til að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi. Þann 19. mars 2019 var samþykkt í borgarstjórn stefna Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og um leið staðfestur verkferill og leiðir til úrlausna í eineltis og áreitnimálum hjá Reykjavíkurborg. Sá ferill tekur hins vegar ekki til þeirrar stöðu ef kvartanir starfsfólks Reykjavíkurborgar snúa að kjörnum fulltrúum. Ástæðan er sú að kjörnir fulltrúar njóta eðli málsins samkvæmt sérstöðu, sem m.a. byggir á því að Reykjavíkurborg gegnir ekki hefðbundnu vinnuveitendahlutverki gagnvart kjörnum fulltrúum og getur því ekki brugðist við staðfestri slíkri hegðun af þeirra hálfu í garð starfsfólks Reykjavíkurborgar. Eftir sem áður ber atvinnurekanda skv. lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 1009/2015 skylda til að láta einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað ekki viðgangast og því þarf að vera til staðar farvegur fyrir slíkar kvartanir, sbr. einnig í þessu sambandi álit siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 14. desember 2018.

Í framangreindu áliti siðanefndar Sambands sveitarfélaga er fjallað um það þegar kjörnir fulltrúar gera starfsmenn að umtalsefni í opinberri umræðu. Þar kemur fram um þetta atriði að almennt hljóti það að teljast óheppilegt að kjörnir fulltrúar geri störf starfsmanna sveitarfélags að umtalsefni í opinberri umræðu, sérstaklega ef ummælin feli í sér neikvæðan dóm yfir viðkomandi starfsfólki eða störfum þess. Ganga megi að því vísu að slík ummæli á opinberum vettvangi séu slæm fyrir viðkomandi starfsmenn og hafi áhrif í þá átt að veikja tiltrú almennra borgara á starfsemi sveitarfélagsins. Slík framkoma geti falið í sér brot á 1. mgr. 3. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar sem hljóðar svo: „Kjörnir fulltrúar gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum og virða verkaskiptingu í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Þeir sýna störfum og réttindum annarra kjörinna fulltrúa og starfsmanna Reykjavíkurborgar tilhlýðilega virðingu.“

Í áliti siðanefndarinnar segir síðan:

„Samkvæmt þessu ákvæði ber kjörnum fulltrúum að virða verkaskiptingu í stjórnkerfi borgarinnar. Sú verkaskipting felur í sér, samkvæmt 1. mgr. 56. gr. sveitarstjórnarlaga, að framkvæmdastjóri sveitarfélags er æðsti yfirmaður starfsliðs sveitarfélagsins. Eftirlit með störfum einstakra starfsmanna fellur samkvæmt þessari verkaskiptingu undir borgarstjóra en ekki kjörna fulltrúa, enda þótt sveitarstjórn hafi almennt vinnuveitenda- og eftirlitshlutverk.“

  • framhaldinu er síðan rakið innihald þess efnis sem lagt er til grundvallar á námskeiðum fyrir sveitarstjórnarmenn þar sem m.a. er fjallað um vinnuveitendahlutverk sveitarstjórna og tengsl kjörinna fulltrúa við starfsfólk sveitarfélags. Þar kemur fram að þótt framkvæmdastjórinn sé æðsti yfirmaður starfsliðs sveitarfélagsins beri sveitarstjórn hina endanlegu ábyrgð á því hvernig sveitarfélag ræki hlutverk sitt sem vinnuveitandi. Mannauðs- og launastefna sveitarfélags séu þess vegna þættir sem kjörnir fulltrúar geti látið sig varða. Einnig geti kjörnir fulltrúar látið sig varða það hvernig stjórnsýslan sem slík stendur sig í upplýsinga- og þjónustuhlutverki sínu. Hins vegar sé varhugavert fyrir kjörna fulltrúa að blanda sér í starfsmannamál þannig að þeir fari að skipta sér af einstökum starfsmönnum. Þar séu þeir komnir inn á verksvið og eftirlitshluverk framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Skýr mannauðsstefna og skýrar reglur um verkaskiptingu og málsmeðferð í starfsmannamálum stuðli að æskilegri einingu innan sveitarstjórnar um starfsmannamál.

Síðan segir í álitinu:

„Siðanefnd tekur undir þetta sjónarmið og telur tilefni til að leggja áherslu á mikilvægi þess að hafa skýrar reglur um verkaskiptingu og samskipti. Jafnframt verða kjörnir fulltrúar ávallt að vera meðvitaðir um skyldu sína skv. 1. mgr. 3. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg og sýna störfum og réttindum starfsmanna tilhlýðilega virðingu. Opinber gagnrýni kjörinna fulltrúa á störfum einstaka starfsmanna eru á skjön við þau gildi. Telji kjörinn fulltrúi að eitthvað sé aðfinnsluvert í starfsmannamálum sveitarfélags er rétti farvegurinn að beina málinu til framkvæmdastjóra sveitarfélagsins sem æðsta yfirmanns starfsmanna.“

Í  álitinu er síðan að finna leiðsögn siðanefndar um það með hvaða hætti sé rétt að hafa umgjörð þeirra mála þegar starfsmenn sveitarfélaga telja kjörna fulltrúa brjóta siðareglur með framferði sínu, eða öfugt. Fjallað er um hlutverk siðanefndar sambandsins í þessu samhengi og að hún hafi ekki það hlutverk að segja til um það hvort siðareglur hafi verið brotnar í ákveðnu tilviki. Nefndin leggi áherslu á það hlutverk siðareglna að fyrirbyggja óvandaða starfshætti og stuðla að því að jákvæðir lærdómar séu dregnir af tilvikum þegar kjörnir fulltrúar virðast breyta á skjön við siðferðilegar kröfur. Bent er á í þessu samhengi fræðsluefni sem Samband sveitarfélaga hefur birt á heimasíðu sinni um siðferði og samfélagslega ábyrgð í sveitarfélögum. Þar segir meðal annars að til að standa undir trausti íbúanna sé mikilvægt að „bregðast við siðferðislegum úrlausnarefnum sem upp koma í starfsemi sveitarfélags með því að skapa viðhorf og menningu sem byggir á opnum tjáskiptum þannig að hægt sé að ræða álitaefni sem upp koma og skiptast á sjónarmiðum og reynslu um það hvernig eigi að leysa þau.“

í álitinu er síðan fjallað um viðbrögð við athugasemdum eða ábendingum starfsmanna um að framferði kjörins fulltrúa uppfylli ekki þær siðferðilegu kröfur sem gera ætti til hans og hverjir séu mikilvægustu aðilarnir í lausnamiðaðri samræðu. „Þar ber að nefna starfsmanninn sjálfan og kjörna fulltrúann. Þetta eru beinir aðilar málsins. Siðferði og traust er þó ekki þeirra einkamál og því þurfa að koma að lausn málsins aðrir úr hópi kjörinna fulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins. Þar berist böndin annars vegar að yfirmanni starfsmannsins og framkvæmdastjóra sveitarfélagsins og hins vegar formanni byggðaráðs, með hliðsjón af því að ráðið fer skv. sveitarstjórnarlögum með eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélags. Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að starfsmaðurinn leiti til sinna yfirmanna og að tengingin við kjörna fulltrúa fari í gegnum framkvæmdastjóra.

Nefndin fjallar síðan um það hvernig leysa eigi úr slíkum málum þegar þau komi upp. Þar segir nefndin að reyni á mannkosti og dómgreind þeirra sem að þeim koma. Í sumum tilvikum kunni að vera ástæða til að fá utanaðkomandi fagaðstoð, til dæmis ef lausnin felst í að komast að rótum samskiptavanda einstaklinga. Grundvallaratriðið er að leitað sé að farvegi lausnamiðaðrar, heiðarlegrar og málefnalegrar og opinnar umræðu sem leitt geti til sátta og aukins trausts á því hvernig farið er með lýðræðislegt umboð innan sveitarfélagsins.

Í ljósi alls framangreinds, gildandi siðareglna, reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum sem og sveitarstjórnarlaga, er sá verkferill lagður til sem tilgreindur er hér að framan hafi starfsfólk Reykjavíkurborgar fram að færa kvartanir eða ábendingar vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð. Ferillinn miðar að því að skapa vettvang fyrir starfsmenn til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og skilgreina farveg fyrir formlegar kvartanir þeirra. Sá farvegur gerir ráð fyrir því að eftir frumathugun miðlægs eineltis- og áreitniteymis fari málið til frekari könnunar hjá óháðum og sérhæfðum, utanaðkomandi aðila. Hlutverk hans verði að kanna málið frekar og skila að athugun lokinni niðurstöðu sinni, eftir atvikum með tillögum að lausn. Ekki er farin sú leið sem lögð er til í framangreindu áliti siðanefndar Sambands sveitarfélaga að ætla borgarstjóra eða formanni borgarráðs hlutverk í þessu ferli heldur er miðlægu eineltis- og áreitniteymi falið að leggja mat á fyrirliggjandi kvörtun og koma því að undangenginni ákveðinni málsmeðferð til frekari könnunar hjá utanaðkomandi aðila. Felur þetta ferli í sér að skapaður er vettvangur sáttar og aukins trausts í samskiptum starfsfólks Reykjavíkurborgar og kjörinna fulltrúa, eins og fjallað er um í títtnefndu áliti siðanefndar Sambands sveitarfélaga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2