fbpx
Mánudagur 24.júní 2019
Eyjan

Frábær kvikmynd um fótbolta

Egill Helgason
Laugardaginn 27. apríl 2019 15:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég horfði, nánast fyrir tilviljun, í gær á kvikmynd sem nefnist The Damned United. Það er skemmst frá því að segja að þetta er frábær mynd, ef til vill sú besta sem hefur verið gerð um fótbolta og kannski íþróttir yfirleitt.

The Damned United, er gerð af Tom Hopper, þeim sama og síðar gerði The King’s Speech. Hún fjallar um það þegar knattspyrnustjórinn Brian Clough var ráðinn til að taka við Leeds árið 1974 – það entist ekki nema í 44 daga.

Enski fótboltinn var allt öðruvísi á þessum árum en hann er nú, miklu nær uppruna sínum í verkamannahverfum enskra borga. Það var ekki bara að leikmennirnir reyktu og drykkju bjór, væru sumir í þyngri kantinum, heldur voru vellirnir frekar niðurníddir, grasið skellótt og með moldarflögum – og mikið um hrindingar og pústra og fautaleg brot – karla að veltast um í drullusvaði í grenjandi rigningu, eltandi bolta. Og áhorfendurnir voru fólkið úr hverfinu.

Þetta var á sinn hátt skemmtilegur tími í boltanum, öðruvísi en nútíminn þar sem félögin eru orðin eins og fyrirtæki: Leikmennirnir eru óaðfinnanlega þjálfaðir og snyrtir, vellirnir rennisléttir og flottir, meira að segja um hávetur – og launin fáránlega góð. Það er heldur ekki mikið enskt við enska boltann lengur. Fátt er í raun alþjóðavæddara en hann, leikmennirnir eru erlendir upp til hópa, framkvæmdastjórarnir líka og eigendur félaganna koma frá fjarlægum löndum.

Maður þarf að fara í niður í neðri deildirnar til að finna alvöru enskan bolta.

En á þessum tíma var það öðruvísi. Brian Clough var sjálfur frá Middlesborough í Norður-England, fæddur í verkalýðsstétt. Um 1970 náði hann ásamt samstarfmanni sínum Peter Taylor að koma litlu félagi,  Derby County, frá botni annarrar deildar og gera þá að Englandsmeisturum. Þetta þótti ótrúlegt afrek, og bera vott um mikil klókindi, en Clough var alla tíð kjaftfor, ögrandi og stór upp á sig – hafði gaman af því að láta allt vaða í fjölmiðum. Þrátt fyrir árangurinn var hann látinn fara frá Derby, en tók svo nokkru síðar við stjórninni hjá Leeds.

Leeds var á þeim tíma aðalliðið í ensku deildinni með leikmenn eins og Billy Bremner, Norman Hunter, Johnny Giles og Peter Lorimer. Liðið átti fjölda aðdáenda á Íslandi á þessum tíma og sumir halda enn með Leeds, þótt allt hafi gengið á afturfótum hjá liðinu í langan tíma.

Framkvæmdastjórinn sem gerði Leeds að þessu stórveldi hét Don Revie. Hann lét ekki af störfum þar fyrr en honum bauðst að taka við enska landsliðinu. Brian Clough þoldi ekki Don Revie. Samkvæmt myndinni átti það rót sína í leikjum þar sem Leeds hafði niðurlægt Derby.

Leeds þótti spila grófan fótbolta, leikmennirnir áttu til að beita óþverrabrögðum, það var ekki sérstaklega mikil reisn yfir þessu liði, en það náði árangri. Þegar Clough tók við stjórninni byrjaði hann á því að lýsa því yfir að nú yrði breyting – hann ætlaði að láta hina margföldu meistara fara að spila alvöru fótbolta. Hann sagði við leikmennina að þeir gætu hent bikurunum og verðlaunapeningunum í ruslið, þeir hefðu ekki verið unnir með heiðarlegum hætti.

Leedsliðið, með skoska rauðhausinn Bremner í fararbroddi, gerði þá uppreisn gegn stjóranum, þeir gerðu í því að tapa öllum leikjum.  Clough entist eins og áður segir ekki nema einn og hálfan mánuð. Eftir þetta hófst hnignunarskeið hjá Leeds, ekki mörgum árum síðar var liðið komið niður í aðra deild.

En Clough var ekki dauður úr öllum æðum. Hann átti eftir að vinna annað stórt afrek á fótboltasviðinu. Hann tók við stjórn Nottingham Forest sem var þá í annarri deild. Clough lék sama leik og í Derby og gott betur, hann gerði Forest að meisturum og svo tvívegis að Evrópumeisturum. En það er önnur saga sem ekki er rakin í þessari snjöllu kvikmynd.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Meiri agavandamál í íslenskum skólum en á hinun Norðurlöndunum

Meiri agavandamál í íslenskum skólum en á hinun Norðurlöndunum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn sakar Vilhjálm um að vega að nýlátnum föður sínum

Þorsteinn sakar Vilhjálm um að vega að nýlátnum föður sínum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Lögreglan má sekta þig fyrir að ryðjast framfyrir í röð – Vannýtt innheimtutækifæri fyrir ríkissjóð?

Lögreglan má sekta þig fyrir að ryðjast framfyrir í röð – Vannýtt innheimtutækifæri fyrir ríkissjóð?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Innlend netverslun í miklum vexti

Innlend netverslun í miklum vexti