fbpx
Laugardagur 25.maí 2019
Eyjan

Sumardagurinn fyrsti – í sportsokkum

Egill Helgason
Fimmtudaginn 25. apríl 2019 13:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sumardagurinn fyrsti lifir í minningunni sem kaldur en oft bjartur dagur. Maður man eftir stelpum í sportsokkum og pilsum og strákum í sparifötum. Reyndar sé ég á vefnum að margar konur muna best eftir sportsokkunum á þessum degi, þær voru klæddar í þá og ekki skeytt um þótt þeim yrði kalt á lærunum.  Og uppábúnum strákum í dálítið karlalegum fötum, rétt eins og drengnum á myndinni hér að ofan. Hún birtist á vefnum Gamlar ljósmyndir og fangar anda sumardagsins fyrsta eins og hann var fyrir meira en hálfri öld.

Í dag er blíðviðri. Ég gekk upp Skólavörðuholtið í morgun, sólin gægðist fram, það var lykt af gróðri. Ég mundi að fyrir nákvæmlega hálfri öld,á sumardaginn fyrsta, norpaði ég í skátabúningi á þarna á holtinu. Síðan var marsérað í gegnum bæinn og út í Háskólabíó. Það er í eina skipti sem ég hef gengið í takt.

Ég fór í huga mér með ljóðlínur Tómasar:

Nú verður aftur hlýtt og bjart um bæinn,
af bernskuglöðum hlátri strætið ómar,
því vorið kemur sunnan yfir sæinn.
Sjá, sólskinið á gangstéttunum ljómar.

Ég er að verða svo viðkvæmur með árunum að ég var hálfpartinn farinn að tárast yfir kvæðinu um leið og ég rifjaði það upp.

Það var meiri viðhöfn á sumardaginn fyrsta í  gamla daga. Hátíðarhöldin fóru fram í Miðbænum nú hefur þetta verið meira fært út í félagsmiðstöðvar. Þessi mynd sem birtist á vef Þjóðminjasafnsins sýnir hvað var mikið haft við. Þarna eru börn í þjóðbúningum að dansa á palli í Lækjargötu og mikill mannfjöldi fylgist með.

Sumardaginn fyrsta ber alltaf upp á vikuna frá 19.-25. apríl. Þetta er fyrsti dagurinn í mánuðinum sem ber hið fagra nafn Harpa. Út frá því hef ég stundum velt fyrir mér hvort sé ekkert vor á Íslandi. Við köllum þetta sumardag en vorið er auðvitað rétt að byrja.

Ég sé að sumardagurinn fyrsti var gerður að lögbundnum fríðdegi 1971, en þá var 40 stunda vinnuvika líka sett í lög. Fyrir nokkrum árum var lögð fram á þingi tillaga um að veitt yrði frí föstudaginn eftir sumardaginn fyrsta. Það þætti mörgum óneitanlega þægilegt, en aðrir telja sjálfsagt að nóg sé af frídögum á þessum árstíma. Tillagan fékk a.m.k. ekki hljómgrunn.

Hér eru svo fleiri myndir sem tengjast sumardeginum fyrsta og sýna hvað hann þótti mikivægur í eina tíð. Einhvern veginn hefur fallið dálítið á hann síðan – en á þessum tíma hefur honum verið mætt með tilhökkun.

Það tíðkaðist til dæmis að gefa sumargjafir. Sá siður er að mestu aflagður. Hér er meðal annars stungið upp á harmonikum, kaffikvörnum, þvottabrettum og bleki.

Og svo voru gefin út blöð og bæklingar í tilefni dagsins – það gerði meðal annars sérstakur félagsskapur sem kallaðist barnavinafélagið Sumargjöf. Þarna er hvatt til þess að öll börn séu send í sveit.

Börn safnast saman í Miðbæjarskólaportinu á sumardaginn fyrsta. Þarna sést í hús sem standa við Miðstræti.

Þetta er af vef  Sumargjafar, en það stóð löngum fyrir margvíslegri starfsemi tengdri sumardeginum fyrsta. Hátíðarhöld í bænum á árunum eftir stríð.

Önnur mynd af vef Sumargjafar, þarna er mikill mannfjöldi samankominn á Fríkirkjuveginn og teygir sig alla leið út á Tjarnarbrúna.

Víðavangshlaup ÍR hefur verið haldið á sumardaginn fyrsta síðan 1916 og er enn. Fjöldi iðkenda hefur væntanlega aukist en áhorfendum hefur fækkað verulega ef marka má þessa ljósmynd sem sýnir hlaupara koma fyrir Dómkirkjuhornið.

Og hér sést víðavangshlaupari koma í mark í Aðalstræti. Fremst til hægri á myndini má sjá hatta eins og skátar báru í þá tíð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Úrskurður Persónuverndar í Klaustursmáli Báru Halldórsdóttur – Upptökur ólöglegar en ekkert samsæri

Úrskurður Persónuverndar í Klaustursmáli Báru Halldórsdóttur – Upptökur ólöglegar en ekkert samsæri
Eyjan
Í gær

Útrásarvíkingar toppuðu Everest – Lýður náði alslemmu – Tveir létu lífið

Útrásarvíkingar toppuðu Everest – Lýður náði alslemmu – Tveir létu lífið