fbpx
Laugardagur 17.ágúst 2019  |
Eyjan

Síðasta bókin um Bernie Gunther – á upplausnartíma Weimarlýðveldisins

Egill Helgason
Laugardaginn 20. apríl 2019 23:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Metropolis heitir hinsta bók Philips Kerr – hún er líka fjórtánda og síðasta sagan um lögreglumanninn Bernie Gunther. Bækurnar hafa orðið geysivinsælar en það koma varla fleiri – því höfundurinn andaðist í fyrra. Metropolis kemur út eftir andlát hans og að ýmsu leyti er hún viðeigandi kveðja.

Í bókinni er farið fram fyrir hinar bækurnar í seríunni – hún gerist fyrr en þær allar. Sú fyrsta kom út 1989 – hún gerist 1936 þegar nasistar hafa náð völdum. Í bókunum sem á eftir komu  þvælist Bernie Gunther gegn vilja sínum inn i átök seinni heimsstyrjaldarinnar, hann neyðist til að starfa fyrir fúlmenni eins og Reinhard Heydrich, Arthur Nebe og Joseph Göbbels, hann lendir í fangavist hjá Rússum, en eftir stríðið flækist hann víða, meðal annars til Argentínu, Kúbu, Sviss, Frakklands og Grikklands.

Undir lokin er hann orðinn nokkuð roskinn maður, en þarna er hann ennþá ungur, árið er 1928, hann er nýbyrjaður að starfa í morðdeild Berlínarlögreglunnar  sem þótti reyndar framúrskarandi á þessum tíma undir stjórn frumkvöðuls á sviði morðrannsókna sem hét Ernst Gennat og svo Bernhards Weiss lögreglustjóra – sá átti erfitt uppdráttar vegna þess að hann var gyðingur, nasistar hötuðu hann og hann þurfti að flýja land undireins og þeir komust til valda.

Bókin heitir Metropolis eins og kvikmyndin fræga eftir Fritz Lang, Reyndar kemur þáverandi eiginkona Langs, handritshöfundurinn Thea Von Harbou, fyrir í bókinni sem persóna. Þau Bernie Gunther hittast á Adlon hótelinu til að ræða handritið að annarri frægri kvikmynd sem nefndist einfaldlega M. Áðurnefndur Gennat var fyrirmyndin að rannsóknarlögreglumanninum í myndinni.

Fleira þekkt fólk úr lífinu í Berlín kemur þarna við sögu, söngkonan Lotte Lenya sem er heldur skapstygg –  Bernie Gunther kemur í leikhús þar sem verið er að sýna Túskildingsóperuna, á þar í ástarævintýri með förðunardömu. Og svo er þarna málarinn Georg Grosz, en sumpart má segja að bókin sé byggð á myndverkum hans.

George Grosz málaði Berlín á millistríðsárunum á mjög vægðarlausan hátt – og það er einmitt mannlífið sem Philip Kerr lýsir í bókinni. Borgin er full af körlum sem hafa örkumlast í stríðinu, hafa misst hendur og fætur eða sjónina, en eru í raun fyrirlitnir og smáðir þrátt fyrir fórnir sínar. Vændisfólk er legíó – bæði karlar og konur. Á næturklúbbunum tíðkast alls kyns furðulegar og úrkynjaðar skemmtanir.  Margt fólk er fullt af beiskju vegna þess að það hefur tapað aleigunni í verðbólgunni miklu sem geisaði eftir stríðið. Nasistar og kommúnistar vaða uppi og einnig samtök fyrrverandi hermanna sem sitja á svikráðum við lýðveldið sem var kennt við Weimar.

Þarna er víti til varnaðar á þeim tímum sem við lifum, lýðræðið glatast vegna þess að alltof fáum þykir nógu vænt um það til að koma því til varnar.

Sem fyrr er Bernie Gunther kjaftfor og kaldhæðinn, en hann er líka góðhjartaður bak við hrjúft yfirborðið, óspilltur á sinn hátt í mjög spilltum heimi, og með ríka réttlætiskennd. Bækurnar um hann eiga marga aðdáendur hér á landi, þótt ekki hafi þær verið þýddar á íslensku. Þær eru góð skemmtun þar sem er líka farið vítt og breitt um tuttugustu aldar sögu og pólitík.

Þetta er í rauninni sami sagnaheimur og í sjónvarpsþáttunum Babylon Berlin sem nú eru sýndir í sjónvarpinu. Volker Kutscher hefur skrifað fimm bækur um lögreglumanninn Gereon Rath á árum Weimarlýðveldisins – hann er undir miklum áhrifum frá Philip Kerr. Raunar koma sumar persónur fyrir í bókum þeirra beggja. Hinn sögufrægi Ernst Gennat er eins og áður segir fyrirferðarmikill í Metropolis en hann er líka yfirmaður Gereons Rath í bókum Kutschers.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Gleðigangan er í dag
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Svört skýrsla ASÍ: Brotastarfsemi og jaðarsetning á íslenskum vinnumarkaði að aukast

Svört skýrsla ASÍ: Brotastarfsemi og jaðarsetning á íslenskum vinnumarkaði að aukast
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Guðfinna les yfir Guðmundi: „Nú er mér alvara“ – Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

Guðfinna les yfir Guðmundi: „Nú er mér alvara“ – Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ragnar Þór orðlaus: Bankastjórinn fær 312 þúsund á mánuði í 40 ár

Ragnar Þór orðlaus: Bankastjórinn fær 312 þúsund á mánuði í 40 ár
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Dýrt lambakjöt og Hagsmunagæslustofa bænda

Dýrt lambakjöt og Hagsmunagæslustofa bænda