fbpx
Sunnudagur 26.maí 2019
Eyjan

Guðlaugur Þór svarar fimm sterkustu rökum Orkunnar okkar um þriðja orkupakkann

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 18. apríl 2019 10:00

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hart hefur verið tekist á um innleiðingu þriðja orkupakkans. Samtökin Orkan okkar hefur sett í dreifingu á samfélagsmiðlum Fimm góðar ástæður til að segja NEI við orkupakkanum. Má því telja að um fimm sterkustu rökin gegn honum sé að ræða.

Eyjan óskaði eftir viðbrögðum utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarssonar við listanum, þar sem óskað var eftir mótrökum úr hans herbúðum.

Svörin fara hér á eftir, rök Orkunnar okkar, andstæðinga orkupakkans eru skáletruð:

 1. Ekkert land framleiðir meiri raforku á hvern íbúa en Ísland. Orkan er hrein. Við megum ekki glata forræði okkar yfir þessari verðmætu auðlind. 
 
Þriðji orkupakkinn varðar ekki eignarrétt á orkuauðlindum á Íslandi, né hvort þær eru nýttar og í hvaða tilgangi. Hann varðar heldur ekki lagningu sæstrengs til og frá Íslandi. Enginn erlendur aðili getur fyrirskipað hvort lagður skuli sæstrengur til og frá Íslandi eður ei, eða hvernig eigi að fara með eignarhald á orku almennt á Íslandi. Það er og verður áfram ákvörðun íslenskra stjórnvalda.
Í minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar, lögmanns, kemur fram að þriðji orkupakkinn haggi í engu forræði íslenska ríkisins á náttúruauðlindum og er þar vísað bæði til 125. gr. EES samningsins og 2. mgr. 194. gr. Sáttmálans um starfshætti ESB. Kemur þetta auk þess skýrt fram í sameiginlegri fréttatilkynningu utanríkisráðherra og orkumálastjóra ESB: „The applicable provisions of the EU third energy package in no way affect the Government of Iceland‘s full sovereign control over Iceland‘s energy resources and the authority on how they shall be utilized and managed.“
Grunnreglur EES-samningsins um fjórfrelsið, ríkisstyrki og samkeppnismál hafa um árabil gilt um íslenska raforkumarkaðinn. Íslenski orkumarkaðurinn var markaðsvæddur með setningu raforkulaga árið 2003 sem innleiddu fyrsta orkupakka ESB. Þetta hefur haft margvísleg áhrif á íslensk orkumálefni án þess að því hafi verið haldið fram að við höfum afsalað okkur forræði yfir auðlindinni.
Auk þess hefur EES-samningurinn engin áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar. Þetta kemur skýrt fram í 125. gr. samningsins. Af því leiðir af EES-samningurinn haggar ekki forræði íslenska ríkisins á náttúruauðlindum í þeim skilningi að Ísland hefur heimild til þess að ákveða hvort náttúruauðlindir skuli vera í eigu ríkisins eður ei.
 
2. Meira en 90% orkukerfis landsins er í sameign þjóðarinnar. Orkuverð er lágt og þjónustan góð. Arðurinn er mikill og rennur til samfélagsins. Viljum við breyta þessu?
 
Ekkert í þriðja orkupakkanum kallar á að raforkuverð hækki eða þjónustan við almenning versni. Íslenski orkumarkaðurinn var markaðsvæddur með raforkulögum 2003. Áhrif þess hafa frekar verið til lækkunar á verði en hækkunar. Þriðji orkupakkinn er framhald af þeirri þróun, þ.e. hann styrkir markaðsvæðingu, samkeppni og jafnræði aðila, sem ætti almennt að stuðla að lægra verði en ekki hærra. Umræða um hækkað raforkuverð ef sæstrengur yrði lagður er svo allt önnur umræða og kemur orkupakkanum ekki við. 
 
3. Áhrif kjósenda á orkumál hverfa með orkupakkanum. Löggjöfin kemur frá ESB og hluti ríkis- og dómsvalds í orkumálum færist til erlendra stofnana. Við verðum skuldbundin til að innleiða löggjöf sem hentar ekki okkar aðstæðum og hagsmunum. 
 
Upptaka þriðja orkupakkans er niðurstaða samningaviðræðna Íslands, Noregs og Liechtenstein við ESB. Þrennar alþingiskosningar hafa farið frá því að nefndir Alþingis voru fyrst upplýstar um málið árið 2010. Formleg umfjöllun Alþingis hófst árið 2013 og hafa þrjár þingnefndir fjallað um málið. Á grundvelli þess var ákveðið í sameiginlegu EES-nefndinni árið 2017 að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn, með stjórnskipulegum fyrirvara frá öllum þremur EFTA-ríkjunum innan EES. Noregur og Liechtenstein hafa aflétt fyrirvaranum fyrir sitt leyti. Fullyrðingin um að ríkis- og dómsvald færist til erlendra stofnana stenst heldur ekki skoðun því ekkert ákvörðunarvald gagnvart EFTA-ríkjunum verður flutt til stofnunar ESB, þ.e. ACER. Ákvörðunarvaldið verður hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í samræmi við tveggja stoða kerfið. Stofnuninni yrðu veittar afmarkaðar valdheimildir gagnvart EFTA-ríkjunum, s.s. varðandi úrlausn deilumála og tæknileg málefni. Þær kæmu aðeins til framkvæmda ef íslenskur orkumarkaður verður tengdur ESB með sæstreng. Hvorki Acer né ESA geta ákveðið að leggja sæstreng til Íslands. Það er einungis á færi Alþingis og mun ekki gerast nema að Alþingi taki ákvörðun um slíkt að undangengnu lagalegu, efnahagslegu, umhverfislegu og samfélagslegu mati. Á meðan hafa ákvæði þriðja orkupakkans sem fela í sér takmarkað valdaframsal enga þýðingu hér á landi.
 
4. Ísland hefur enga tengingu við orkumarkað ESB og því er ekki ástæða til að innleiða hér löggjöf sameiginlega orkumarkaðarins.  
 
Samkvæmt EES-samningnum er „orka“ skilgreind sem „vara.“ Því eiga við reglur um frjálsa vöruflutninga sem eru hluti af fjórfrelsinu á EES-svæðinu. Ísland hefur þegar innleitt alla viðeigandi orkulöggjöf ESB með tilliti til fjórfrelsisins. Reglur um viðskipti með orku hafa verið hluti EES-samningsins frá gildistöku hans árið 1994 og það er ekkert nýtt í því.
 
Þótt Ísland sé ekki tengt innri orkumarkaði ESB með beinum tengingum eru samt sem áður góðar og gildar ástæður fyrir því að löggjöf um orkumál sé tekin upp í EES-samninginn og gildi á EES-svæðinu.
Löggjöfin lýtur einkum að neytendasjónarmiðum, umhverfisvernd, hagkvæmni í rekstri orkufyrirtækja, fyrirtækjaaðskilnaði sérleyfis- og samkeppnisþátta, jöfnu aðgengi og markaðsbúskap í raforku- og jarðgasviðskiptum. Þá fellur einnig undir orkumál, eldsneyti, hiti, raftæki, orkumerkingar o.fl. Má færa rök fyrir því að almenningur á Íslandi hafi þegar haft mikinn ávinning af innleiðingu fyrri orkupakkanna tveggja vegna samkeppnissjónarmiða.
Ennfremur má nefna að Ísland hefur umtalsverða útflutningshagsmuni á þessu sviði. Á Íslandi er t.d. framleitt eldsneyti sem flutt er m.a. til Hollands og íslensk iðnfyrirtæki framleiða raftæki og selja á markaði í Evrópu á grundvelli laga um orkumerkingar og visthönnun vöru (sem fellur undir orku viðauka EES samningsins). 
 
5. EES samningurinn fer ekki í uppnám þótt við segjum nei takk við orkupakkanum. Það er okkar réttur samkvæmt samningnum að segja nei.
 
Í aldarfjórðung hafa hindranalaus viðskipti með vöru og þjónustu aukið hagsæld á Íslandi. Samningurinn um EES hefur gerbylt neytenda- og vinnuvernd og einfaldað líf Íslendinga sem stunda nám og störf innan Evrópu eða njóta þar efri áranna. Orkupakkinn er hluti af þeirri heild, hann stuðlar að neytendavernd og aukinni samkeppni og tryggir snurðulaus viðskipti með rafmagnsvörur og eldsneyti innan EES. Hafni Ísland innleiðingu getur orkuhluti EES-samningsins orðið óvirkur innan hálfs árs með neikvæðum afleiðingum fyrir íslensk fyrirtæki sem flytja út raf- og tæknibúnað. Í 25 ára sögu EES-samningsins hafa aðildarríki aldrei beitt rétti sínum samkvæmt 103. gr. samningsins og neitað að staðfesta ákvarðanir sínar í sameiginlegu EES-nefndinni. Ástæðan er einkum sú að þegar aðildarríkin taka ákvörðun í sameiginlegu nefndinni um gerðir sem taka skal upp í samninginn er jafnan að baki áralangur undirbúningur þar sem þjóðþingin hafa beina aðkomu að málum. Réttur þjóðþinganna til að neita að staðfesta er vissulega til staðar en framkvæmd EES-samningsins í rúman aldarfjórðung, og upptaka á annan tug þúsunda gerða án þess að reynt hafi á þetta ákvæði, sýnir að ákvæðið er í reynd öryggisventill.
Að beita slíkum öryggisventli af litlu sem engu tilefni skapar slæmt fordæmi og grefur undan trúverðugleika Íslands í EES-samstarfinu og setur framkvæmd EES-samningsins í uppnám. Af öllum aðildarríkjum EES á Ísland langsamlega mest undir því að samningurinn haldi og að framkvæmd hans gangi vel. Það væri því ábyrgðarleysi gagnvart íslenskum hagsmunum að setja framkvæmd samningsins í uppnám af litlu eða engu tilefni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Jón hjólar í Grapevine: „Þannig byggjum við upp fasistaríki“

Jón hjólar í Grapevine: „Þannig byggjum við upp fasistaríki“
Eyjan
Í gær

Sanna Magdalena ósátt við viðbrögð Hauka vegna rasískra ummæla Björgvins

Sanna Magdalena ósátt við viðbrögð Hauka vegna rasískra ummæla Björgvins
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Katrín á kynjafræðiráðstefnu með Reykjavíkurdætrum: „Líkamar kvenna eru dregnir inn í pólitíska umræðu“

Katrín á kynjafræðiráðstefnu með Reykjavíkurdætrum: „Líkamar kvenna eru dregnir inn í pólitíska umræðu“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Svona gætu Malarhöfði og Lágmúli litið út í framtíðinni

Svona gætu Malarhöfði og Lágmúli litið út í framtíðinni