fbpx
Laugardagur 25.maí 2019
Eyjan

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 16. apríl 2019 17:30

Samsett mynd DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður, var til viðtals í þættinum Harmageddon á X-inu í gær, en hann er einn helsti talsmaður andstæðinga orkupakkans. Í þættinum sagði Sigmar meðal annars nauðsynlegt að dýpka umræðuna um orkupakkann, sem hann sagði að myndi leiða til hækkunar á orkuverði fyrir „alla“.

Óforskömmuð umræða

Ísak Einar Rúnarsson, sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands og miðstjórnarmaður í Sjálfstæðisflokknum, skrifar um framgöngu Sigmars í pistlinum Bullyrðingar í útvarpi

á vefsvæðinu Rómur.is. Segir hann framgöngu Sigmars óforskammaða og málflutningur hans hafi að mestu verið rangur:

„Umræðan um þessar mundir um þriðja orkupakkann er óforskömmuð. Viðtal Harmageddon bræðra við Sigmar Vilhjálmsson var til marks um það. Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt. Og af því sem er rétt voru dregnar mjög undarlegar og langsóttar ályktanir. Þess utan var Sigmar mjög upptekinn af því að setja fram samsæriskenningar um persónur og leikendur en segjast í næstu setningu ekki vilja fara með umræðuna þangað þegar hann var inntur eftir rökum fyrir kenningum sínum. Samsæriskenningar um persónur og leikendur eru ekki svaraverðar en nauðsynlegt er að leiðrétta fimm atriði sem komu fram í máli Sigmars,“

segir Ísak og hrekur fullyrðingu Sigmars um að orkuverð hafi hækkað vegna skilyrða orkupakka tvö:

Sigmar segir að orkuverð hafi hækkað mikið síðan orkupakki tvö var innleiddur og rekur það til þess að það hafi þurft að skipta upp fyrirtækjum á orkumarkaði til þess að aðskilja sérleyfisstarfsemi frá samkeppnisrekstri. Skýrsla frá verkfræðistofunni Eflu sem forsætisráðuneytið lét vinna bendir hins vegar á að orkukostnaður heimila hafi fylgt almennri verðlagsþróun frá árinu 2005. Ennfremur sýnir rafmagnskostnaður heimila í vísitölu neysluverðs að rafmagn hefur hækkað að meðaltali um 0,3% á ári frá 2003 að raunvirði, eða umfram almennt verðlag. Þá hækkun virðist hins vegar nær alfarið mega rekja til hækkunar Orkuveitu Reykjavíkur á raforkudreifingu um 40% og raforku um 11% undir lok árs 2010 á einu bretti vegna rekstrarvanda þess tíma sem alþekktur er. Sú hækkun hefur ekkert með orkupakkana að gera, né uppskiptingu Orkuveitunnar en orkuverð hefur lækkað lítillega að raunvirði frá árinu 2012 eins og það birtist í vísitölu neysluverðs.“

Einkavæðing leiði ekki til hækkunar

Þá sagði Sigmar að einkavæðing hluta raforkukerfisins hafi valdið orkuverðshækkunum. Ísak segir að þvert á móti, hafi raforka sem sé í samkeppnisrekstri, lækkað:

„Dreifing raforku er sérleyfisstarfsemi þar sem landinu er skipt upp í 8 veitusvæði sem hvert fyrir sig er með eigin gjaldskrá. Í sérleyfi, til þess að reka dreifikerfi, felst einkaréttur og skylda til dreifingar raforku á viðkomandi svæði. Með öðrum orðum er ekki samkeppni í þessum hluta raforkukerfisins og aðeins ríki, sveitarfélög eða fyrirtæki í meirihlutaeigu þeirra geta fengið slíkt leyfi. Það er svo rétt að hækkunarþrýstingur á orkuverð hefur komið til vegna hækkunar á dreifingarkostnaði en á móti hefur sjálf raforkan, sem er í samkeppnisrekstri, lækkað. Það er þá miklu frekar, líkt og á öðrum mörkuðum, skortur á samkeppni sem þrýstir verði upp en þar sem er mikil samkeppni helst verðlag frekar í skefjum.“

Þá segir Ísak:

Sigmar gerir því skóna að orkufyrirtækin í landinu séu að skila hagnaði og hafi ekki getað dregið úr þeim hagnaði vegna þess að „við erum öll að nota raforkuna“. Árið 2016 fóru 77,3% af allri raforku á Íslandi til stórnotenda en aðeins 17,7% af orkunotkun var svokölluð „Almenn notkun“, sem vísar til allra annarra fyrirtækja og heimila sem ekki teljast stórnotendur. Það að „við séum öll að nota raforkuna“ hefur því mjög takmarkað með arðsemi orkufyrirtækja að gera, heldur ræðst arðsemin að mestu leyti af verði og magni til stórnotenda. Hagnaðurinn er því ekki sjálfgefinn heldur veltur á eftirspurn hverju sinni, og því skal haldið til haga að hún hefur verið misjöfn í gegnum tíðina. Sæstrengur gæti í þessu samhengi aukið eftirspurn umtalsvert eftir orku og aukið arðsemi Landsvirkjunar. Það skal þó tekið fram að innleiðing þriðja orkupakkans knýr ekki sjálfkrafa fram sæstreng milli Íslands og Bretlands. Þar að auki væri sæstrengurinn einn og sér fordæmalaus framkvæmd sem hleypur á hundruðum milljarða króna sem mörgum spurningum er ósvarað um.“

Lengi má gott bæta

Sigmar taldi að ástand orkumála væri afar gott hér á landi og því engin ástæða til að rugga bátnum, það myndi aðeins leiða til vandræða. Þetta segir Ísak vera rökleysu:

Það er rökleysa og heldur engu vatni, því með sömu rökum hefði mannkyn átt að hætta leitinni að framförum á bronsöld. Lengi má gott bæta.“

Þá segir Ísak að ekkert bendi til þess að til standi að einkavæða, eða markaðsvæða Landsvirkjun eða OR, líkt og Sigmar gefi sér:

„Að lokum er Sigmar mjög upptekinn af einhverskonar samsæriskenningu um einkavæðingu eða markaðsvæðingu á orkufyrirtækjunum sem megi leiða beint af innleiðingu á þriðja orkupakkanum. Það er ekkert sem bendir til þess að til standi að einkavæða eða markaðsvæða Landsvirkjun eða Orkuveitu Reykjavíkur. Það eru engar heimildir fyrir því í orkupakkanum að ACER, eða aðrir yfirboðarar frá ESB, geti skikkað Íslendinga til að einkavæða þessi fyrirtæki. Með öðrum orðum, þetta er algjörlega úr lausu lofti gripið.“

Ótrúleg orðræða

Ísak telur að höfnun orkupakkans gæti sett EES samninginn í uppnám:

„Sú orðræða sem birtist hjá Sigmari er ótrúleg og til marks um það að staðreyndir eru eitur í beinum þeirra sem mæla gegn þriðja orkupakkanum. Orkupakkinn mun ekki leiða til þess að Landsvirkjun eða Orkuveitan verði einkavædd. Orkupakkinn mun ekki leiða til þess að við missum forráð yfir orkumálum okkar og hann mun ekki leiða til þess að erlendir aðilar geti upp á sitt eindæmi lagt sæstreng hingað til lands að Íslendingum forspurðum. Höfnun orkupakkans mun hins vegar setja EES samninginn í uppnám og það er svo sannarlega ekki gott mál, enda fátt sem hefur gefið Íslendingum jafn mikla velferð og hagsæld og sá samningur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Úrskurður Persónuverndar í Klaustursmáli Báru Halldórsdóttur – Upptökur ólöglegar en ekkert samsæri

Úrskurður Persónuverndar í Klaustursmáli Báru Halldórsdóttur – Upptökur ólöglegar en ekkert samsæri
Eyjan
Í gær

Útrásarvíkingar toppuðu Everest – Lýður náði alslemmu – Tveir létu lífið

Útrásarvíkingar toppuðu Everest – Lýður náði alslemmu – Tveir létu lífið