fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Bruninn í Notre Dame og fárið á alnetinu

Egill Helgason
Þriðjudaginn 16. apríl 2019 11:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fárið sem grípur um sig vegna brunans í Notre Dame kirkjunni lýsir vel fjölmiðla- og samskiptamiðlaveruleika nútímans.

Það er ekki svo langt síðan, bara fáir áratugir, að maður hefði heyrt um svona atburð í kvöldfréttum, farið svo að sofa og fregnað nánar af honum í morgunfréttum eða á forsíðu Moggans.

Svo hefði atburðurinn verið ræddur á kaffistofum og flestir haldið ró sinni nokkurn veginn.

En á netinu í gær þurftu allir að taka þátt í atburðinum, hafa skoðanir á honum, láta vita af sér í tengslum við hann. Það er auðvitað ágætt að sýna hlutttekningu, en þetta gekk svolítið langt.

Fólk dró fram myndir af sér við kirkjuna og birti í stórum stíl. Margir hafa ferðast til París og eiga myndir af sér með Notre Dame í bakgrunninum. Sjáið, ég var þarna líka, einu sinni! Ég!

Það voru skrifaðar færslur um að bruninn hlyti að vera einhvers konar tímamót eða tákn – um hvað? – já, jafnvel hnignun eða endalok siðmenningar. Við lestur þessa rennur upp fyrir manni hvað margt fólk er í rauninni óstabílt.

Svo fór maður að rekast á samsæriskenningar í kimum alnetsins þar sem því var haldið fram að múslimar hefðu kveikt í kirkjunni. Eða að ekki væri hægt að útiloka það. Fyrr á tímum, þegar þetta guðshús var ekki orðið svo gamalt, hefði orðrómurinn hljómað aðeins öðruvísi, þá hefði verið sagt – gyðingarnir gerðu það!

Það er ákveðið skítverk að reyna að kveða niður falskar fréttir – en slíkt verður samt að gera. Það fer að verða nánast eins og þegnskylda.

Forseti Bandaríkjanna lá heldur ekki á liði sínu, hann tvítaði í miðjum brunanum og sagði að Frakkar væru vitlausir að hella ekki vatni úr flugvélum til að slökkva eldinn.

Þannig vorum við öll með í þessum kirkjubruna. Daginn eftir er maður barasta smá dasaður, því sem betur fer blessaðist þetta sæmilega – slökkviliðsmenn náðu tiltölulega fljótt tökum á eldinum, fyrr en hefði mátt ráða af fréttauppslættinum,  kirkjan brann ekki til grunna, helgigripir björguðust, það verður sett fé í að endurreisa bygginguna – sem reyndar var mjög illa farin. Í frétt BBC frá því í byrjun mánaðarins sagði að myndi kosta stjarnfræðilegar upphæðir að gera við Notre Dame. Nú streymir inn fjármagn til að gera við kirkjuna, peningar sem sárlega vantaði í viðgerðir á henni fyrir brunann.

Það dó enginn.

Einn toppurinn er svo reyndar Facebook-færsla fyrrverandi borgarfulltrúa þar sem hann nær að gera samasem merki milli brunans í hinni miklu kirkju og hótelbyggingar við hliðina á Víkurgarði. En það er kannski frekar eitthvað til að hafa gaman að.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt