fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Eyjan

Harka að færast í orkupakkamálið: Guðlaugur Þór og frú sögð græða milljarða verði virkjanaáform að veruleika – Uppfært

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 15. apríl 2019 14:59

Guðlaugur Þór. Mynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið gengur á í áróðursstríðinu vegna innleiðingar þriðja orkupakkans svokallaða. Um samfélagsmiðla gengur nú kenning sem segir Guðlaug Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hafa látið þess ógetið í hagsmunaskrá á vef Alþingis, að eiginkona hans væri skráður forráðamaður Steinkápu ehf. sem sé þinglýstur eigandi jarðar hvar fyrirhugað sé að reisa Búlandsvirkjun.

Muni þeir sem eiga jörð á svæðinu því geta hagnast um milljarða gangi áformin eftir og væntanlega enn meira ef Ísland tengist meginlandi Evrópu með sæstreng, sem Alþingi þarf þó að samþykkja sérstaklega, samkvæmt þingsályktunartillögu Guðlaugs Þórs um innleiðingu þriðja orkupakkans.

Þess má þó geta strax, að í reglum um hagsmunaskráningu ráðherra og þingmanna er hvergi minnst á að eignir maka eða eiginkvenna/eiginmanna þingmanna eða ráðherra, þurfi að skrá sérstaklega.

Þar segir hinsvegar:

„Ekki skal skrá íbúðarhúsnæði eða sumarhús til eigin nota fyrir alþingismann og fjölskyldu hans og lóðarréttindi undir slíkt húsnæði. Skrá skal heiti landareignar og staðsetningu fasteignar.“

Ekkert er skráð undir þessum lið í hagsmunaskrá Guðlaugs Þórs, en undir liðnum trúnaðarstörf skráir Guðlaugur sig sem formann veiðifélagsins Tungufljóts, sem er á sama svæði og landareign Steinkápu ehf.

Samkvæmt skráningu Steinkápu ehf. á vef Ríkisskattstjóra, er um orlofshús og annarskonar gistiaðstöðu að ræða.

Ásakanir um innherjaupplýsingar

Meðal þeirra sem hafa sett kenningu í dreifingu á Facebook er Guðmundur Franklín Jónsson, fyrrverandi formaður Hægri grænna og forsetaframbjóðandi, sem gaf kost á sér í 4.-6. sæti Sjálfstæðisflokksins 2016.

Guðmundur ritar þann 13. apríl á Facebook:

„Orkupakki 3 umhverfist um innherjaupplýsingar. Samþykki ráðherra var haldið leyndu í 2 ár meðan vinir og vandamenn keyptu upp jarðir og vatnsréttindi af bændum á spottprís.

Síðan hefur hlaðist utan á kenninguna. Ekki er vitað um höfund hennar að öðru leyti. Er hún birt hér í heild sinni, líkt og henni er nú dreift um Facebook:

„Tekið af netinu

Orkupakki 3 umhverfist um innherjaupplýsingar. Samþykki ráðherra var haldið leyndu í 2 ár meðan vinir og vandamenn keyptu upp jarðir og vatnsréttindi af bændum á spottprís.

Nú dynur yfir okkur 3. orkupakki ESB. Neðangreindar upplýsingar eru um hugsanleg hagsmunatengsl utanríkisráðherra. Spurning hvort hann hefur skráð hagsmunatengsl sín rétt hjá Alþingi?

Um er að ræða jörðina Hemrumörk í Skaftárhreppi, en hún er stór landspilda úr stærri jörð sem kallast Hemra. Hemrumörk er þinglýst eign Steinkápu ehf. Á vef RSK/fyrirtækjaskrá eru ekki gefnir upp eigendur Steinkápu, en Steinkápa er skráð til húsa á heimili utanríkisráðherra og er eiginkona hans forráðamaður Steinkápu.

Forráðamaður: Ágústa Þóra Johnson – stjórnarmaður

https://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/leit/kennitala/4805033250

Hemrumörk liggur upp með Tungufljóti. Hún er vestanmegin við fljótið. Hemra er austanmegin og norðar. Verði áform um Búlandsvirkjum að veruleika munu eigendur Hemrumarkar njóta góðs af og græða milljarða.

Á vef Alþingis í kaflanum hagsmunaskráning nefnir Guðlaugur Þór ekki þessi tengsl. Hins vegar kemur þar fram að hann er formaður veiðifélags Tungufljóts. Og hvers vegna ætli það sé?“

Uppfært

Guðlaugur Þór hefur svarað þeim ásökunum sem fram koma í bréfinu sem gengur á netinu. Hann segir þær dæmi um málefnafátækt andstæðinga orkupakkans og hrekur þær fullyrðingar sem þar koma fram:

 

Vegna fréttar Eyjunnar fyrr í dag, 15. apríl, um hagsmunaskráningu mína á vef Alþingis vil ég taka eftirfarandi fram:

1. Reglur forsætisnefndar Alþingis um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings, sem einnig taka til ráðherra, taka ekki til eigna eða skulda maka. Þetta hefur skrifstofa Alþingis staðfest við mig. Hagsmunaskráning mín er í fullu samræmi við þessar reglur.

2. Ágústa Johnson, eiginkona mín, hefur verið í eigin atvinnurekstri í rúma þrjá áratugi eins og flestum landsmönnum ætti að vera kunnugt um. Jörðin sem um ræðir er skógræktarjörð sem tengdaforeldrar mínir hafa ræktað upp síðan 1982. Félag, sem er í eigu Ágústu, keypti jörðina árið 2015 en hún hafði verið til sölu í nokkur ár þar á undan.

3. Allt tal um að mín fjölskylda hagnist á Búlandsvirkjun, hvað þá um milljarða króna, er fjarstæðukennt. Búlandsvirkjun er ekki í orkunýtingarflokki núgildandi rammaáætlunar. Hvorki ég né fjölskylda mín eigum nokkra aðild að áformum um þá virkjun. Ef svo ólíklega færi að hún yrði að veruleika yrðu áhrifin á Tungufljót og umhverfi þess afar neikvæð. Vonandi eru allar hugmyndir um þessa virkjun út af borðinu um alla framtíð. Um það erum við fjölskyldan öll sammála.

4. Samþykkt eða höfnun þriðja orkupakkans hefur engin áhrif á hagsmuni landeigenda á hugsanlegum virkjanasvæðum enda fjallar þriðji orkupakkinn hvorki um eignarhald né nýtingu á auðlindum. Staðreyndin er enn fremur sú að með innleiðingu þriðja orkupakkans eins og lagt er til eru settar enn frekari skorður við lagningu rafmagnssæstrengs en nú eru við lýði.

5. Dylgjur sem fram koma í ofangreindri umfjöllun Eyjunnar bera vitni um málefnafátækt þeirra sem hafa ákveðið að berjast gegn þriðja orkupakkanum með öðru en rökum. Vonandi verður hægt að ræða þetta mál með málefnalegri hætti í framtíðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega