fbpx
Mánudagur 22.apríl 2019
Eyjan

Orkupakkasérfræðingar segja lögfræðilegan vafa ekki verða að veseni

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 11. apríl 2019 09:54

Mynd úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Utanríkisráðuneytið birti í gærkvöldi áréttingu frá þeim Stefáni Má Stefánssyni, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og Friðriki Árna Friðrikssyni Hirst, lögfræðingi, varðandi álitsgerðir sínar sem liggja til grundvallar þingsályktunartillögu Guðlaugs Þórs Þórðarssonar utanríkisráðherra um innleiðingu þriðja orkupakkans.

Andstæðingar orkupakkans telja að innleiðingin sé brot á stjórnarskrá og inngrip, jafnvel árás á fullveldi Íslands. Þeir Stefán og Friðrik árétta þó að þeir telji innleiðinguna í samræmi við stjórnarskrá, en telja þó nokkra ágalla á málinu, sem ekki séu „hafnir yfir allan lögfræðilegan vafa“.

Hinsvegar telja þeir ekki að sá vafi muni verða að veseni og fari athugasemdalaus í gegn hjá ESA.

Í tilkynningu utanríksráðuneytisins segir:

„Vegna sjónarmiða sem sett voru fram í umræðunni óskaði utanríkisráðherra frekari skýringa frá sérfræðingum sem unnu álitsgerðir sem fylgja þingsályktunartillögunni. Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögfræðingur árétta eftirfarandi af þessu tilefni í bréfi til utanríkisráðherra:

1. Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá. Að okkar mati skiptir sú staðreynd mestu.

2. Þeir ágallar sem við teljum vera á þessari leið lúta eingöngu að því hvort upptaka og innleiðing gerðarinnar með þessum hætti verði tilefni til athugunar af hálfu ESA, þ.e. hvort innleiðing gerðarinnar standist þjóðréttarlegar skuldbindingar samkvæmt EES samningnum.

3. Þrátt fyrir að við teljum að þessi leið sé ekki hafin yfir allan lögfræðilegan vafa að þessu leyti þá teljum við mjög ósennilegt að ESA muni gera athugasemdir við þessa leið. Ástæðurnar eru eftirfarandi:
a. Viðkomandi reglugerð er tekin upp og innleidd.
b. Ákvæði hennar sem varða raforkutengingar milli landa koma ekki til framkvæmda nema slíkri tengingu verði komið á.
c. Slíkri tengingu verður ekki komið á nema með samþykki Alþingis, samkvæmt þeim lagalega fyrirvara sem gerður er við innleiðinguna.
d. Valdheimildir ACER (ESA) ná ekki til ákvarðana um hvort sæstrengur verður lagður. Þær valdheimildir gilda einungis þegar slík tenging er til staðar. Því mun ekki reyna á þessi ákvæði nema Alþingi ákveði að tengja Ísland við raforkumarkað ESB með sæstreng og því getur enginn byggt rétt sinn á þessum ákvæðum.
e. Yfirlýsing orkumálastjóra ESB um að framangreindar reglur gildi ekki og hafi enga raunhæfa þýðingu hér á landi, í ljósi þess að Ísland er ekki tengt innri orkumarkaði ESB, dregur að okkar mati mjög úr líkunum á því að ESA geri athugasemdir við innleiðinguna. Þótt slík yfirlýsing sé pólitísk í eðli sínu þá hefur hún engu að síður verulegt gildi og þýðingu í þessu samhengi.

4. Í áliti okkar lögðum við einnig til aðra leið, að Alþingi hafnaði innleiðingu gerðanna og að málið yrði tekið upp að nýju í sameiginlega EES nefndinni með það fyrir augum að Ísland fengi undanþágu. Þessi leið hefur þann kost lögfræðilega umfram þá leið sem valin var að í henni felast ekki þeir lögfræðilegu óvissuþættir sem að ofan er lýst.

5. Þessi leið er hins vegar ekki gallalaus fremur en hin. Þeir ágallar lúta að hinu sérstaka eðli EES-samningsins og samstarfsins. Eins og bent hefur verið á hefur ekki reynt á þessa leið til hlítar í 25 ára sögu samningsins og því margir pólitískir óvissuþættir til staðar varðandi afleiðingarnar. Það kann að reynast torsótt að fá slíkar undanþágur samþykktar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“