fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Erum við tilbúin að fórna nokkrum flugferðum?

Egill Helgason
Fimmtudaginn 11. apríl 2019 11:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag birtust fréttir um það að sænska stúlkan Greta Thunberg hefði ávarpað ráðstefnu í Reykjavík. Hún hefði hins vegar ekki komið í eigin persónu vegna þess að hún ferðast ekki með flugvélum. Í staðinn var notaður fjarfundarbúnaður.

Maður sá að hér og þar á samskiptamiðlum spratt upp umræða um þetta. Sumum leist vel á fordæmi Gretu, en mér sýndist þeir vera fleiri sem eru ekki tilbúnir að fórna neinu varðandi flug – eitt viðkvæðið var að við Íslendingar værum byggjum svo afskekkt að við yrðum að komast burt.

Helsti vandinn varðandi loftslagsbreytingar er að mannkynið er í raun ekki tilbúið að gefa nema sáralítið eftir af, uppi eru kröfur um að stjórnmálamenn geri eitthvað, en það er minna um að fólk taki til í sínum eigin ranni – breyti lífsháttum sínum.

Vitundin um vandann hefur þó stóraukist á frekar stuttum tíma – Greta Thunberg á sinn þátt í því.

Það er máski ekki mikil fórn þótt borgar- og helgarferðum fækki. Stuttu skreppi til útlanda. Ferðum sem standa kannski yfir í þrjá til fimm daga. Og svo er það allt fólkið sem ferðast í viðskiptaerindum og embættismenn og stjórnmálamenn. Mikið af því er óþarft eða má að minnsta kosti leysa með því að nota nútíma samskiptatækni. Það er dálítið gamaldags viðhorf að líta á ferðir til útlanda sem sérstök hlunnindi sem er eftirsóknarvert að komast í.

Við getum til dæmis nefnt að meðan talað er á þingi um þriðja orkupakkann, og maður skyldi ætla af tóninum í umræðunni að himinn og jörð séu að farast og enginn megi liggja á liði sínu, þá er fimmtungur þingmanna í útlöndum í einhverjum erindgjörðum eins og lesa má í Kjarnanum. Til að mynda er hópur þingmanna kominn alla leið til Katar til að sitja fund Alþjóða þingmannasambandsins – sem maður getur ekki með nokkru móti ímyndað sér að sé mikilvægur félagsskapur.

En svo verður maður að spyrja sjálfan sig – hverju er ég tilbúinn að fórna? Eða þú, lesandi góður? Nokkrum flugferðum?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt