fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Sandur heftir för Herjólfs í um 30% tilfella – Dýpkunarframkvæmdir kostað yfir þrjá milljarða

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 10. apríl 2019 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá því að Landeyjahöfn opnaði árið 2010 hefur gengið erfiðlega að halda henni opinni þar sem mikill sandur safnast saman á hafsbotninum við höfnina og gerir því skipum ókleift að leggjast við bryggju, þar sem dýptin er ekki nægjanleg.

Til dæmis hefur Herjólfur ekki enn siglt til Landeyjahafnar á þessu ári frá Vestmannaeyjum, þar sem dýpið hefur ekki verið meira en sex metrar eftir áramót, utan 18. mars. Hinsvegar eru aðstæður einnig metnar út frá veðri og vindum, sem ekki eru alltaf eins og best verður á kosið.

Nýtingin alls minnst 80 prósent

Samkvæmt svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Eyjunnar um hversu oft Landeyjahöfn hefur verið lokuð vegna ónógs dýpis, kom í ljós að ekki voru til tölur um það frá árunum 2010-2015.

Hinsvegar hafi ástandið að öllum líkindum verið ívið verra þá en undanfarin ár, þar sem sandmagnið hafi minnkað með tímanum.

Hinsvegar var ekki hægt að sigla til hafnar í um 30% tilfella á árunum 2015-2019, vegna sands, sem gerir um 70% nýtingu, samkvæmt grófu mati Vegagerðarinnar. Það segi hinsvegar ekki alla söguna:

„Herjólfur velur hvort hann sigli til Landeyjahafnar út frá veður- og ölduaðstæðum, flóðstöðu og dýpi og það eru mörg dæmi um að hann hafi siglt þótt dýpi hafi verið minna en 6m eða hann hafi ekki siglt þótt dýpi hafi verið meira en 6 metrar. Að teknu tilliti til þessa er sennilega réttara að segja að siglingaleiðin hafi verið fær Herjólfi 75-80% tímans, jafnvel meira.“

Viðhaldskostnaður meiri en stofnkostnaður

Heildarkostnaður við dýpkunarframkvæmdir Landeyjahafnar frá upphafi er alls rúmlega þrír milljarðar, samkvæmt svari Vegagerðarinnar.

Í töflunni sést heildarkostnaður hvers árs, á verðlagi hvers árs fyrir sig. Marsmánuður er ekki inni í þessum tölum fyrir árið 2019:

Ár 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 2019 Samtals
Kostnaður á verðlagi hvers árs í m.kr  

315,5

 

227,0

 

311,0

 

 

250,3

 

625,1

 

466,2

 

370,0

 

422,7

 

15,6

 

3.003,4

Ljóst er að viðhalds/dýpkunarkostnaður er kominn fram úr stofnkostnaði við byggingu Landeyjahafnar, sem árið 2010 var um 1.3 milljarður króna. Samkvæmt rannsóknum sérfræðinga á öldufari, straumum og sandflutningum, fannst þó enginn betri staður fyrir höfnina:

„Eftir byggingu hafnarinnar hafa þessar rannsóknir haldið áfram og ekki í minna mæli í ljósi reynslunnar. Ekkert í þessum rannsóknum bendir til þess að höfnin væri betur staðsett annars staðar á Landeyjasandi,“

segir í svari Vegagerðarinnar.

Ferjureksturinn er á fjárlögum og því rekin af opinberu fé og styrkjum. Öll innkoma fer því til rekstaraðila, en heildarkostnaður við Landeyjahöfn og Herjólf frá árinu 2010 eru rúmir 11 milljarðar samkvæmt svari samgönguráðherra í fyrra, við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, Pírötum.

Við það bætist kostnaður við nýjan Herjólf, sem eru um sex milljarðar króna.

Samtals hefur því Landeyjahöfn og Herjólfur kostað skattgreiðendur um 17 milljarða króna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt