fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

„Sandeyjahöfn“ hefur lítið gagnast í ár – Kostnaðurinn ríflega 11 milljarðar

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 9. apríl 2019 13:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt Vegagerðinni voru góð skilyrði til dýpkunar í Landeyjahöfn, í klukkustundum talið, fimm sinnum fleiri í fyrra en í ár, miðað við tímabilið 1. mars til 7. apríl. Góð skilyrði voru í 336 klst. árið 2018 en hafa einungis verið í 61 klst. í ár. Það er sögð vera helsta ástæðan fyrir því að höfnin hefur ekki opnað:

„Áfram er unnið að dýpkun svo sem kostur er og hefur Björgun verið úti við dýpkun í vor í verri skilyrðum en kveðið er á um í útboði en það hefur ekki dugað. Nú er staðan sú að dýpi í höfninni er mjög nálægt því að vera nægilegt fyrir Herjólf, dýpkun er í gangi í dag og var í nótt og því er mögulegt að höfnin opnist næstu daga. Það er þó ekki víst þótt dýpið verði nægilegt að það eitt og sér dugi til þess að Herjólfur sigli í Landeyjahöfn. Spáin næstu daga er ekki góð og verri þegar líður á vikuna og  ólíklegt að Herjólfur geti siglt í Landeyjahöfn vegna ölduhæðar. Spáð er á fjórða metra ölduhæð undir helgina.“

Dýpkunarkostnaður meiri en stofnkostnaður

Aðstæður við Landeyjahöfn eru þannig að sífellt þarf að dýpka hafnarstæðið með tilheyrandi kostnaði, þar sem mikill sandur safnast saman á botninum, þannig að of grunnt þykir fyrir skip að leggjast við bryggju.

Hefur höfnin verið uppnefnd Sandeyjahöfn vegna þessa.

Í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata, um kostnað ríkisins við Landeyjarhöfn og Herjólf frá árinu 2010 til 2018, kemur fram að alls nemi kostnaðurinn við Landeyjahöfn og Herjólf um 11 milljörðum króna.

Í svarinu er sundurliðaður kostnaður hvers árs fyrir sig og samtals hafa um fjórir og hálfur milljarður farið í Landeyjarhöfn og sex og hálfur milljarður farið í Herjólf frá árinu 2010.

Viðhaldskostnaður við dýpkun Landeyjahafnar er því komin fram úr stofnkostnaði.

Nýr Herjólfur

Áfram er unnið við að ljúka uppgjöri vegna smíði nýs Herjólfs. Daglegum viðræðum er stýrt af danskri lögfræðistofu sem sérhæfir sig í málum er snúa að skipasmíðum, segir í tilkynningu Vegagerðarinnar, en pólska skipasmíðastöðin hefur haldið nýjum Herjólfi í gíslingu með því að hækka kaupverðið um þriðjung vegna meintra breytta forsenda, sem Vegagerðin hefur vísað á bug:

„Rétt er að ítreka enn vegna fjölmiðlaumræðu að þá er samningur Vegagerðarinnar við skipasmíðastöðina Crist S.A. í Póllandi alveg skýr um það að hönnun Herjólfs eftir frumhönnun er alfarið á ábyrgð skipasmíðastöðvarinnar líkt og er venja í skipasmíðum. Allar breytingar, þar með talin lenging skipsins, hefur verið samið um og það var Vegagerðin sem samþykkti að skipasmíðastöðin gæti lengt Herjólf til að geta staðið við kröfur um djúpristu. Hönnunin var þeirra. Þar sem eru til samningar um þessa breytingu sem og öll aukaverk þá kom það Vegagerðinni mjög á óvart að á síðustu stigum kæmi fram krafa sem nemur nærri þriðjungi smíðaverðsins, krafa sem á fyrri stigum hefur ekki verið sett fram.“

Upphafleg kostnaðaráætlun fyrir nýjan Herjólf var um fimm milljarðar, en um 800 milljónir bættust við þegar ákveðið var að rafvæða skipið að mestu strax.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt