fbpx
Mánudagur 22.apríl 2019
Eyjan

Einar Kárason um hægrimenn á Íslandi: „Þess vegna eru þeir svona brjálaðir“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 26. mars 2019 08:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rithöfundurinn Einar Kárason, varaþingmaður Samfylkingarinnar, stígur fram fyrir skjöldu í Fréttablaðinu í dag hvar hann ver borgarmeirihlutann fyrir árásum í fjölmiðlum. Vill hann ekki að almenningur láti „blekkjast“ af „níðinu“ um borgarstjórn:

„Það líður varla sá dagur að ekki sé ráðist í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins af offorsi á stjórnendur Reykjavíkurborgar. Í Staksteinum og leiðurum er hamast á borgarstjórninni, og á sama tíma keppast fulltrúar minnihlutans, með Miðflokkinn fremstan, við að gera allt tortryggilegt sem borgin aðhefst og gjarnan með dylgjum um svik, lögleysu og spillingu. Þetta hefur gengið svo langt síðasta árið að það er jafnvel eins og stuðningsfólk meirihlutans sé sumpart farið að trúa því að í borginni sé allt í kaldakoli, ef marka má skoðanakannanir.“

Borgin í fínum málum

Einar nefnir að rekstur borgarinnar sé á fínu róli og yfir standi merkilegt uppbyggingarskeið en kemst ekki hjá því að nefna braggamálið, sem hann virðist réttlæta með því að það sé ekkert einsdæmi:

„Auðvitað koma upp mál eins og um hinn umtalaða bragga í Nauthólsvík, en einnig í því máli hefur verið ýkt og logið, meðal annars um umfang verksins, og jafnframt er það augljóst að mistökin á borð við þau sem þar urðu eiga sér fjöldann af hliðstæðum í opinberum framkvæmdum hér á landi og fjölmörg af þeim dæmum eru á miklu stærri skala; má þar nefna framúrkeyrslur í byggingaframkvæmdum í borgarstjóratíð þess sem nú ritstýrir Morgunblaðinu.“

Einar talar um þráhyggju þegar gagnrýni á meirihlutann er annarsvegar, líkt og það sé eina sveitarfélagið á landinu, en þó séu fleiri sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu einnig:

„Samt var í baráttunni fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar reynt að láta áætlanir um borgarlínu hljóma eins og þar færi prívatdella Reykjavíkur, eða hrein geðbilun borgarstjórans, þótt staðreyndin væri sú að þar væri á ferðinni samstarfsverkefni allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hið fíngerða ryk sem verður til þegar stálnaglar bíldekkja höggva í malbik og fer að rjúka upp í þurrviðri þegar það losnar úr snjó eða klaka er útmálað sem trassaskapur borgarstjórnar, þótt það sé eins á öllu svæðinu. Sama má segja um tilheyrandi slit á malbiki. Þróun íbúðaverðs hefur verið á undanförnum árum í sama takti um mestallan landsfjórðunginn, en samt er hækkunin sett á reikning þéttingarstefnu borgaryfirvalda,“

segir Einar og minnist á áhyggjur Vigdísar Hauksdóttur af geisluninni á Úlfarsfelli vegna masturs sem þar á að rísa:

„Sumt af hinum daglega rógi um borgarstjórn er jafnvel svo fáránlegt að það verður aðhlátursefni vísindamanna, eins og kenningar um geislun við Úlfarsfell.“

Brjálaðir hægrimenn

Í lokin sendir Einar hægrimönnum pillu:

„Munum það aftur að borgin er að taka stakkaskiptum til hins betra, og að við getum verið stolt af forystu okkar í þeim efnum. Það sem málið snýst um er einfaldlega að borgarstjórnin er eitt af fáum stórum valdakerfum landsins sem hægrimenn geta ekki ráðskast með eins og það sé þeirra eigin eign. Og þess vegna eru þeir svona brjálaðir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“