fbpx
Mánudagur 22.apríl 2019
Eyjan

Minningarorð um móðurbróður minn, Harald Ólafsson

Egill Helgason
Laugardaginn 23. mars 2019 19:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fáein minningarorð um frænda minn Harald Ólafsson kristniboða sem andaðist í Kristiansand í Noregi 9. mars síðastliðinn, á 84 aldursári.

Haraldur var móðurbróðir minn, yngstur fimm systkina, barna Ólafs Ólafssonar og Herborgar Ólafsson – þau voru bæði kristniboðar. Hann var fæddur í Kína 1935 – kom þriggja ára til Íslands með fjölskyldunni.

Haraldur bjó mestallt sitt líf í Noregi og í Eþíópíu. Hann kvæntist norskri konu, Björgu, og eignaðist börnin Ólaf og Ragnhildi sem bæði búa í Noregi. En það var í Afríku að Haraldur undi sér best og þar var starfsvettvangur hans um langt árabil.

Það var ekki lítið sem ég dáði þennan kjarkaða frænda minn. Hann var í Eþíópíu á umbrota- og hörmungatímum. Hann kom þangað fyrst á tíma keisarans Haile Selassie – einhvers staðar er til mynd af Ólafi litla frænda mínum með keisaranum, einhverjum frægasta manni 20. aldar.

En svo tók við tímabil stanslausrar óaldar undir harðstjóranum Mengistu. Á tíma hans geisuðu hungursneyðir sem hefði að miklu leyti mátt koma í veg fyrir – voru í raun af pólitískum toga. Sú hræðilegasta og umtalaðasta var þegar haldnir voru hinir miklu Live Aid tónleikar til styrktar hungruðu fólki í Eþíópíu; þá komst þetta rækilega í fjölmiðlana.

Haraldur stóð í þarna eldlínunni í einhverju verstu hungursneyð 20. aldarinnar – og oftar þegar geisaði hungur. Það var átakanlegt starf og erfitt – og alls staðar reyndu yfirvöld að þvælast fyrir. Hann starfaði þá mest fyrir hjálparstofnun norsku kirkjunnar. Hann vann líka við að grafa brunna á svæðum þar sem skorti vatn.

Meðfram þessu vann Haraldur ótrúlega merkilegt bóklegt starf. Hann var mikill málamaður og  þýddi Bibliuna á mál þjóðar sem nefnist Bóranar og búa í syðst í Eþíópíu og nyrst í Kenýa. Þessi þjóð, hirðingjar að mestu leyti, átti sér ekki ritmál áður en Haraldur hófst handa við verkið – hann skóp semsagt ritmál fyrir Bóranaþjóðina.

Haraldur var kristinn maður og boðun guðsorðs var kjarninn í ævistarfi hans, þar fetaði hann í spor foreldra sinna. Hann var líka umburðarlyndur húmanisti, laus við dómhörku, sem skildi vel hvernig málum var háttað í Afríku, enda var hann árum saman innan um blásnautt snautt fólk þar.

Í eitt síðasta skiptið þegar ég hitti hann var talaði hann um kaffibændur í Eþíópíu og hvað þeir högnuðust lítið þótt spryttu upp kaffihús út um öll Vesturlönd og kaffidrykkja væri orðin gríðarleg tíska. En verðið til bændanna hefði lækkað. Ég rekst á eftirfarandi tilvitnun í Harald  úr Kirkjuritinu frá 1983: „“Við erum arðræningjar og kúgarar, þriðji heimurinn er öreiginn.” 

Í Noregi lagði hann sig eftir að tala ný-norsku. Við hittumst einhvern tíma í Osló og fórum saman í búðir. Haraldur talaði sitt klingjandi landsbyggðarmál og það kom skrítinn svipur á búðarkonur í höfuðborginni – þarna var sjálfur sveitavargurinn mættur, heimsborgarinn sem var fæddur í Kína og var eins og heima hjá sér í Afríku. Við hlógum mikið að þessu.

Haraldur var kraftmikill maður, yfirleitt glaðsinna, söngvinn, en gat hneigst til þunglyndis og efasemda um sjálfan sig. Líklega vorum við dálítið líkir frændurnir þótt við hittumst ekki nógu oft, báðir rauðbirknir. Fyrir fólk sem hefur fengist við nakinn raunveruleika og harða lífsbaráttu í Afríku er ekki alltaf auðvelt að ná aftur tengslum við velmegunina á Vesturlöndum, í samanburði geta vandamálin virkað býsna smá.

Haraldur bjó ekki á Íslandi eftir að hann lauk námi í Kennaraskólanum ungur maður en kom hingað og þá fann maður að hann var mikill Íslendingur – undi sér vel á íslenskum fjöllum og í íslenskri sveit, fór þá gjarnan upp í Norðurárdal þaðan sem við eru ættaðir. Okkur ættingjunum fannst leiðinlegt að hann skyldi ekki vera hér oftar með okkur.

Saga sem var sögð í fjölskyldunni og ég vil hafa fyrir satt er að Þórður á Brekku í Norðurárdal, afabróðir minn hafi eitt sinn gefið Haraldi fjallið Grábrók. Þannig stendur það í huga mér, ég hugsa alltaf til Haraldar þegar ég fer þar framhjá – frænda míns sem fékk fjall að gjöf.

 

Afi minn og amma, Ólafur Ólafsson og Herborg Ólafsson, með börn sín í Kína 1937, fremst er Haraldur í kerru, svo Rannveig, Hjördís, Guðrún og Jóhannes.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“