fbpx
Mánudagur 22.apríl 2019
Eyjan

Ólíklegt að Stundin höfði skaðabótamál – Dæmdur málskostnaður dugar ekki til

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 22. mars 2019 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögbann Glitnis HoldCo á Stundina og Reykjavík Media varðandi fréttaflutning upp úr gögnum úr þrotabúi Glitnis, var dæmt ólöglegt af Hæstarétti í morgun. Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, sagði við Eyjuna að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að höfða skaðabótamál á hendur Glitni, en taldi það þó ólíklegt:

„Það er tæknilega séð hægt að höfða skaðabótamál vegna tjóns sem við höfum orðið fyrir, en erfitt er að meta það til fjár.  Mesta tjónið felst í tímanum og orkunni sem farið hefur í málið, en svo eru aðrir þættir sem eru ómetanlegir. Til dæmis gæti það hafa fælt einhverja heimildamenn frá, þegar sýslumaður og lögmenn þrotabúsins mættu til okkar vopnaðir lögbanni. Ég tek þó fram að þeim var ekki hleypt inn á skrifstofurnar, aðeins í eldhúsið. En stóri skaðinn er aðförin að tjáningarfrelsinu og upplýsingaréttinum og erfitt gæti verið að meta slíkt og því efast ég um að sú leið verði farin.“

Dugar ekki til

Glitni var gert að greiða allan málskostnað, samtals 2,4 milljónir, sem skiptast jafnt á Stundina og Reykjavík Media. Í yfirlýsingu miðlanna kemur fram að dæmdur málskostnaður dugi ekki fyrir málsvörninni.

Jón Trausti hefur ekki fengið reikninginn í hendur frá sínu lögmannsteymi:

„Það er ekki ljóst með kostnaðinn ennþá. En það var öllum ráðum beitt til að lengja málið, farið í gegnum öll dómsstig og málskostnaður okkar er mun meira en 1.2 milljón. Við erum nauðug dregin fyrir dóm og mér finnst að við ættum að fá að njóta vafans þannig að málskostnaðurinn sé líklegur til að duga fyrir raunkostnaði,“

segir Jón og viðurkennir að það sé ansi súrt í broti að vera dæmdur fullnaðarsigur í málinu, en koma samt út í mínus.

Hér að neðan er yfirlýsing Stundarinnar og Reykjavík Media:

Frelsið hefur sigrað
522 dögum eftir að lögbann var sett á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavik Media um viðskipti Glitnis og þáverandi forsætisráðherra hefur fallið endanlegur dómur Hæstaréttar tjáningarfrelsinu og upplýsingarétti almennings í vil.
Stefnandinn, þrotabú Glitnis, fékk því framgengt fyrir tilstuðlan Sýslumannsins í Reykjavík að stofna til fyrirvaralauss dómþings á skrifstofu Stundarinnar og á heimili ritstjóra Reykjavik Media og stöðva umfjöllun um viðskipti þáverandi forsætisráðherra landsins 12 dögum fyrir alþingiskosningar.
Þrotabúið lagði mikið til dómsmálsins gegn fjölmiðlunum tveimur. Aðstöðumunurinn er verulegur. Hann birtist í því að aðeins laun forstjóra Glitnis HoldCo ein og sér eru hærri en samanlögð velta Stundarinnar og Reykjavik Media, samkvæmt nýjustu aðgengilegu tölum. Ljóst er að stuðningur almennings skipti sköpum í málinu og málsvörninni.
Með lagatæknilegum flækjum tókst þrotabúinu að tefja málið og reka það í gegnum öll dómstig á 522 dögum með tilheyrandi skaða fyrir blaðamennsku og rétt almennings til upplýsinga.
Lögbannsmálið í heild sinni hefur án efa haft fælingaráhrif á fólk í samfélaginu sem hefur undir höndum upplýsingar eða gögn sem eiga mikið erindi til almennings sem það vill koma til fjölmiðla í krafti réttlætiskenndar. Þrotabú Glitnis reyndi hvað eftir annað að fá að taka skýrslu af blaðamönnum um heimildarmenn en á öllum dómstigum var því hafnað. Í dómnum er skýrt kveðið á um vernd heimildarmanna og það með mjög afgerandi hætti. Við viljum hvetja fólk sem hefur undir höndum mikilvægar upplýsingar sem varða almenning að leita til okkar.
Dæmdur málskostnaður nægir ekki til þess að tryggja þá nauðsynlegu vörn sem þurfti til að forða ólögmætu lögbanni á sjálfsagða og mikilvæga samfélagsumræðu í þágu almannahagsmuna.
Eftir stendur að brotið var gegn upplýsingarétti almennings og þar með vegið að réttinum til frjálsra kosninga. Aðstandendur Stundarinnar og Reykjavik Media vonast til þess að þessi dómur, og þeir sem hann staðfestir, standi sem bautasteinn til framtíðar með varðstöðu um upplýsingarétt almennings og frelsi fjölmiðla.
 
Fyrir hönd Stundarinnar: 
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir
Jón Trausti Reynisson
 
Fyrir hönd Reykjavik Media:
Jóhannes Kr. Kristjánsson
Tilvitnanir í dóm Hæstaréttar:
„Við mat á því hvort ganga skuli framar í tjáningarfrelsi stefndu eða friðhelgi þeirra aðila sem nefnd gögn lúta að verður að hafa í huga að þegar lögbannið var lagt á 16. október 2017 voru einungis 12 dagar í að kosið yrði til Alþingis og því sýnu brýnna en ella að upplýst fréttaumfjöllun yrði ekki skert meira en nauðsyn bar til, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 19. febrúar 1998 í máli Bowman gegn Bretlandi. Verður jafnframt að líta til þess að meginþungi fréttaumfjöllunar stefndu laut að viðskiptum þáverandi forsætisráðherra og aðila honum tengdum við Glitni banka hf. í aðdraganda falls íslensku viðskiptabankanna þriggja í október 2008. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að fréttaumfjöllun stefndu hafi breyst að þessu leyti eftir að lögbannið féll niður. Hefur hún eftir sem áður einkum beinst að viðskiptaumsvifum þáverandi forsætisráðherra og aðilum tengdum honum í aðdraganda og kjölfar falls bankanna haustið 2008 með sömu áherslum og verið hafa frá upphafi umfjöllunar stefndu.“
„Verður að líta svo á að umfjöllun stefndu um viðskipti þáverandi forsætisráðherra sé liður í því uppgjöri og eigi sem slík erindi við almenning.“
„Svo sem nánar er rakið í forsendum héraðsdóms leiðir af 73 gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, að allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Er hér um víðtæka vernd tjáningarfrelsisins að ræða og hefur stjórnarskrárákvæðið verið skýrt svo að í því sé fólginn réttur manna til að miðla upplýsingum með öllum formum tjáningar. Frelsi þetta nær þannig bæði til prentaðs og talaðs máls, auk tjáningar sem kann að felast í annars konar athöfnum.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“