fbpx
Mánudagur 22.apríl 2019
Eyjan

Hin fallvalta gæfa í verslunarrekstri á Laugaveginum – tilraun til að sjá deiluna um umferðarmálin frá báðum hliðum

Egill Helgason
Miðvikudaginn 20. mars 2019 20:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Verandi íbúi í þessum blessaða Miðbæ Reykjavíkur hef ég skiling á margvíslegum sjónarmiðum varðandi hann. Þekkjandi fólk hérna, horfandi á mannlífið, hvernig það breytist, og hinar miklu nýbyggingar, finnst mér eins og þetta sé ekki sérlega klippt og skorið. Ég á erfitt að koma mér upp einstrengingslegri línu varðandi Miðbæinn, æsingurinn í kringum þettta allt er hálfleiðinlegur, ég veit ekki hvort er hvimleiðara, fúndamentalismi hörðustu uppbyggingarsinna eða illa ígrundaðar skoðanir og upphlaup fólks – t.d. stjórnmálamanna – sem maður sér aldrei á ferðinni hérna.

Ég er til dæmis þéttingarsinnaður í meginatriðum og skil að það er gott að fá fleira fólk í bæinn. En mér í leiðinni finnst mér uppbyggingin vera alltof groddaleg, alltof mikið drifin áfram af peningahagsmunum – fagurfræðilega fær hún eiginlega núll.

Ég sé hvernig túrisminn hefur að sönnu fjölgað fólki sem er á ferli í bænum, skapað auð og eflt margvíslega starfsemi. En á sama tíma hefur hann rutt burt ýmsu sem var þess virði að halda í. Föstum íbúum á Miðbæjarsvæðinu hefur fækkað – næstum heilu göturnar eru lagðar undir hótelíbúðir og Airbnb. Það býður ekki upp á sérlega skemmtilegt mannlíf. En veitingahúsin eru fleiri og betri og ekki öll svo dýr. Mér sýnist líka að skemmtanalífið í borginni sé aðeins sívílíseraðra – ef má nota það orð – ekki eins gírað á brjálað fylleri eftir miðnætti á föstudögum og laugardögum.

Og svo eru það hinar eilífu deilur um bílana. Nú stendur til að gera neðri hluta Laugavegar og Skólavörðustígs að göngugötu fyrir fullt og allt – þetta gerist frá og með 1. maí. Þetta eru götur sem ég fer um á hverjum degi, annað hvort gangandi eða akandi. Ég drekk morgunkaffið mitt á Skólavörðustígnum. Báðar göturnar eru reyndar fullar af túristabúðum – það er í raun voða lítið verslunarkyns sem Íslendingur hefur að sækja þangað núorðið. Kannski ekki furða þótt Íslendingar séu orðnir fáséðir viðskiptavinir í búðunum í Miðbænum.

Kaupmenn á svæðinu mótmæla ákaft – segja að þetta kippi fótunum undan versluninni hjá sér. Þeir efna ti funda og undirskriftasafnana. Það er engin ástæða til annars en að bera virðingu fyrir skoðunum þeirra, auðvitað mun þetta hafa áhrif. Íslendingar eru ein mesta bílaþjóð veraldar, vilja helst ekki fara spönn frá bifreið sinni. Þrátt fyrir gagnstæðan áróður versnar þetta frekar en hitt, bílaumferðin bara eykst og eykst. Unglingar keyra sjálfir á bíl í skólann – það þekktist varla þegar myndirnar sem birtast hér á síðunni eru teknar.

En svo er auðvitað sitthvað annað sem hefur haft áhrif á verslunina. Túristavæðingin fyrst og fremst, svo aukin netverslun – alls staðar á Vesturlöndum berst hefðbundin verslun í bökkum. Það eru bæði verslanamiðstöðvar sem veslast upp, standa jafnvel tómar og yfirgefnar, og búðir á aðalverslunargötum – því sem Bretar kalla High Street – sem eru á fallanda fæti. Þarf ekki að fara í mikið gúgl til að sjá þetta. Og meðfram fasteignabólu undanfarinna ára hefur húsaleiga rokið upp úr öllu valdi og sömuleiðis fasteignagjöld.

Svo  er það viss þversögn að í hjarta Miðborgarinnar hefur nú risið stór verslunarkringla sem nefnist Hafnartorg. Þar undir eru 1200 bílastæði. Viðskiptavinir geta semsagt komið akandi á Hafnartorgið, farið í bílakjallarann, notað lyftuna upp og tekið til óspilltra málanna við að njóta verslunar og veitinga. Á sama tíma þurfa kaupmennirnir á Laugavegi og Skólavörðustíg að aðlaga sig að lífi í göngugötu árið í kring. Líka í janúar og febrúar og mars. Það er ekki alltaf gott veður á Íslandi. Þeir skipta tugum dagarnir sem fæsta langar að vera á ferli í göngugötum.

Á Hverfisgötunni er reyndar að verða til gríðarlega mikið rými undir verslanir og veitingahús líka. Það gerist á sama tíma og ferðamönnum fækkar nær örugglega og það er að verða ansi mikil kólnun í efnahagslífinu. Margt bendir til að á næstu árum verði þetta býsna pínlegt fyrir borgarstjórnina – að öll uppbyggingin sem hún hefur veðjað á eigi eftir að skila sér illa. Við eigum eftir að sjá urmul af tómu verslunarplássi, bæði í nýju húsunum og gömlu húsunum. Tóm hús við göngugötur eru ekki sérlega aðlaðandi. Borgarstjórnin er óvinsæl og vinsældir hennar eiga ekki eftir að aukast þegar bólan breytist í samdráttarskeið. Einhvern tíma verður kannski fólk og starfsemi í öllu þessu húsnæði – en á því verður einhver bið.

Það rifjast upp að Smárahverfið í Kópavogi stóð hálfkarað í mörg ár eftir krepputíma fyrir nokkrum áratugum.

En annars er gæfan í verslunar og veitingarekstrinum við Laugaveginn mjög fallvölt. Hér eru aldeilis dæmi um það. Þetta er ótraustur bisness. Birna Gunnarsdóttir tók saman þessar myndasyrpur og setti á Facebooksíðuna Gamlar ljósmyndir. Þarna má sjá verslanir sem störfuðu við Laugaveginn á árunum 1975 til 1987. Myndirnar eiga sér sérstaka sögu. Þær fundust í Góða hirðinum, voru þar í safni 3500 myndskyggna. Það kom í ljós að höfundur myndanna var Kristinn Guðmundsson, en hann starfaði sem bókavörður á Bókabílnum og tók myndir af húsum í bænum í frístundum. Eitthvað af myndunum birtust á sýningu sem var haldin í Þjóðminjasafninu 2015 og eru myndirnar varðveittar þar.

Það er merkilegt að fletta myndunum og sjá nöfnin á búðunum sem störfuðu á þessum tíma og eru horfnar. Þetta er nánast algjör umbylting. Brynja er eina verslunin sem hægt er að greina á ljósmyndunum sem er enn starfandi á sama stað. Lífstykkjabúðin er ennþá til, en hún fluttist ofar á Laugaveg.

Svo er að finna þarna búðir, sumum er maður búinn að steingleyma, aðrar lifa enn í minninu:  Leikhúsið, Skósalan, Vísir (starfaði í 100 ár), Hattabúð Reykjavíkur, Jón Sigmundsson gullsmiður (nýhættur), Biering, Bláa búðin, Gjafahúsið, Verslunin Anna María, Regnhlífabúðin, Janus, Jóhannes Leifsson gullsmður, Kjötbúðin, Bonny, Faco, Marella búsáhalda og gjafavöruverslun, Adam, Glugginn, Norðfoss, Buxnaklaufin, Fataskápurinn, Viktoría, Sápuhúsið, Barnafataverslunin Berglind, Plötuportið, Rauða myllan, Hamborg, Málning og járnvörur, Dyngja, Benedikt Guðmundsson gullsmiður, Veitingahús 28 (Askur?), fataverslunin Capella, barnafataverslunin Sísí, kjólabúðin Elsa, Vík, Bókabúð Æskunnar, Antík-Bólstrun, Bessí og Sola, 

Allt farið veg allrar veraldar.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“