fbpx
Mánudagur 22.apríl 2019
Eyjan

Sjálfstæðisflokkurinn vill frítt í strætó á „gráum dögum“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 19. mars 2019 19:00

Svifryk hefur verið alvarlegt vandamál í Reykjavík.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samþykkt var samhljóða á fundi borgarstjórnar nú fyrir skemmstu að vísa tillögu Sjálfstæðisflokks um stefnumörkun í loftgæðamálum í fimm liðum um að svifryk fari ekki yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík til umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Meðal þess sem Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn lagði til var að farið yrði ítarlega yfir gæði malbiks sem lagt er á götur og að gerð yrði úttekt á gæðum í efnisvali Reykjavíkurborgar, þ.e. gæði sands sem dreift er um götur og stíga. Einnig að farið yrði yfir leiðir til að minnka losun jarðefna af umferðareyjum og gróðursvæðum meðfram umferðaræðum. Þá var jafnframt lagt til að þrif yrðu aukin á götum og stígum borgarinnar með sópun, þvotti og rykbindingu, samkvæmt tilkynningu.

Frítt í Strætó

Enn fremur var lagt  til  að Reykjavíkurborg beindi tilmælum til Strætó BS. um að frítt yrði í strætó á „gráum dögum“. Jafnframt yrðu skoðaðir möguleikar á takmörkun þungaflutninga með efni sem valdið geta svifryksmengun á „gráum dögum“,  að dregið yrði úr notkun nagladekkja í borgarlandinu og að íbúar í fjölbýlishúsum geti hlaðið rafbíla með auðveldum hætti. Að auki var lagt til að fylgja eftir samþykktri tillögu sjálfstæðismanna um nýtingu affallsvatns í auknum mæli til að hita upp göngu- og hjólastíga borgarinnar. Loks var lagt til að vinna gegn dreifingu byggðar með því að útvega hagstæðar byggingarlóðir í borgarlandinu.

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur og tillöguflytjandi, kveðst ánægður með að tillögunni hafi verið vísað til ráðsins enda brýnt að fara í aðgerðir til að koma í veg fyrir svifryk.

„Til að koma í veg fyrir að svifryk fari jafn oft yfir heilsuverndarmörk og raun ber vitni þarf að passa að göturnar sjálfar séu í lagi með því að bæta gæði malbiksins, sem myndar nær helming svifryksins í Reykjavík. Þá þarf að gæta þess að rétt efni sé sett á götur og gangstéttir, gæði sands sem dreift er um götur og stíga, svo það valdi ekki meira svifryki. Þessu tengt lögðum við til að borgarstjórn myndi fylgja eftir tillögu okkar um nýtingu affallsvatns til að hita upp göngu- og hjólastíga, sem samþykkt var í skipulags- og samgönguráði, en þannig þurfum við ekki að dreifa sandi á göturnar.  Svo þarf að þrífa göturnar en þrif hafa verið í lamasessi. Við lögðum enn fremur til að frítt yrði strætó þegar svifryksmengun er hvað mest,“ sagði Eyþór og bætti við:  „Það er ekki nægjanlegt að biðja fólk um að vera innandyra, við gerum meiri kröfur til hreinleika Reykjavíkurborgar.“

Eyþór las upp eftirfarandi bókun í borgarstjórn:

„Borgarstjórn samþykkti samhljóða 4. september síðastliðinn að svifryk fari ekki yfir heilsuverndarmörk. Talið er að 80 ótímabær dauðsföll eiga rót sína að rekja til svifryks á ári á Íslandi. Mikilvægt er að borgin vinni markvisst í að ná þessu markmiði sínu. Þrátt fyrir fögur fyrirheit fer svifryk ítrekað  yfir heilsuverndarmörk. Tillögur Sjálfstæðismanna eru ekki ný vísindi, en fjöldi vísbendinga eru um að þessi atriði þurfi að breytast. Ekki hefur verið farið í að hvetja fólk til að nota Strætó á gráum dögum, en hér er lagt til að hafa frítt í Strætó á þeim dögum. Enn er ekki komin áætlun um að auðvelda íbúum í fjölbýlishúsum að hlaða rafbíla, en orkuskipti verða ekki fyrir alvöru með tilraunaverkefni einu saman. Nýting affallsvatns er hagkvæm lausn sem minnkar þörf fyrir sand og saltaustur. Bætt efnanotkun í malbiki, minni losun jarðefna og bætt gæði sands eru stór atriði sem tekið er á í tillögunni. Þrifum gatna og stíga hefur verið ábótavant og undir þeim viðmiðum sem við sjáum hjá erlendum borgum. Hér hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt til lausn. Þá er mikilvægt að borgarfulltrúar átti sig á hver afleiðing núverandi húsnæðisstefnu er. Aldrei hefur meiri fjölgun verið á landsbyggðinni frá lýðveldisstofnun. Dreifing byggðar hefur aukið umferðarþungann á höfuðborgarsvæðinu til muna. Núverandi stefna hefur orðið til vaxandi umferðarþunga, þá hefur notkun nagladekkja aukist úr 32% í 47% á fjórum árum þvert á stefnu og fyrirheit. Fyrsta skrefið er að við horfumst í augu við staðreyndirnar til að takast á við vandann. Jafnframt að grípa til þeirra aðgerða sem löglegar og mögulegar eru. Þannig tillögur eru lagðar til hér í dag og samþykkt er að vísa til frekari úrvinnslu.“

 

Hér má nálgast tillöguna og greinargerð í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“