fbpx
Mánudagur 22.apríl 2019
Eyjan

Gulu vestin eiga fátt sameiginlegt – nema ólgandi reiðina

Egill Helgason
Þriðjudaginn 19. mars 2019 11:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvað eru gulu vestin? Eftir því sem tíminn líður verður það illskiljanlegra. Líklega eru þau ekki tákn um neitt annað en reiði? Ýmiss konar reiði. Reiði út í hitt og þetta. Og vissulega eru ýmsir hlutir sem hægt er að vera reiður yfir í nútímasamfélagi. Reiði er líka meira áberandi eftir að allur almenningur fékk rödd og gat farið að tjá sig fyrirhafnarlítið á samfélagsmiðlum.

Oft er reyndar hrollvekjandi að sjá birtingarmyndir reiðinnar. Ira furor brevis est, segir í latínu – reiðin er stutt æði. Rök hafa verið leidd að því að orðið „írafár“ sé þaðan komið.

Jón Vídalín biskup flutti fræga ræðu um reiðina sem er einn magnaðasti texti á íslensku:

„En sá sem reiður er, hann er vitlaus. Og því segir Horatius að hún sé nokkurs konar stutt æði, teiknandi þar með að enginn sé munur þess sem er reiður og hins sem vitstola er, nema að reiðin varir skemur, æðið lengur, og eru þó dæmi til þess að sumir hafa búið svo lengi að heiftinni að þeir aldrei hafa orðið heilvita aftur. Heiftin er eitt andskotans reiðarslag.“

Aftur að Gulu vestunum. Í Frakklandi upphófst þetta sem mótmæli gegn hækkunum á bensíni og olíu. Hækkanirnar höfðu það að markmiði að sporna gegn loftslagsbreytingum. Við nefndum það í síðasta Silfri, við Guðni Elísson, að þetta væri til marks um hvað væri erfitt að gera eitthvað í alvöru í loftslagsmálunum. Þarna er það almenningur sem bregst ókvæða við – það eru stundarhagsmunir sem ráða, ekki langtímahagsmunir.

Síðustu vikurnar er svo eiginlega búið að tálga allt utan af gulu vestunum nema löngunina til að brjóta og bramla, brenna og eyðileggja. Þannig safnast saman hópar ofbeldismanna í París um helgar gagngert til að brjóta rúður, kveikja í bílum og slást við lögregluna. Frægt varð þegar hópur manna í gulum vestum réðst með óbótaskömmum á aldraðan gyðing í miðborg Parísar. Þorri frönsku þjóðarinnar hefur algjörlega snúið baki við þessu.

Í Bretlandi hafa gulu vestin aðallega sést á fólki sem vill hart Brexit, í Kanada urðu gulu vestin tákn fólks sem vill leyfa byggingu olíuleiðslu sem stjórnvöld hafa hamlað. Leigubílstjórar á Spáni sem mótmæltu tilkomu akstursþjónustunnar Uber klæddust gulum vestum. Í Þýskalandi hafa bæði hægri samtök eins og Pegida og vinstri hópar eins og Aufstehen íklæðst gulu vestunum.

Á Ítalíu hafa gulu vestin verið áberandi í aðgerðum þar sem er mótmælt hörðum aðgerðum stjórnarinnar gegn hælisleitendum. Hin ítalska pópúlistastjórn þar sem helsti áhrifamaðurinn er hægriöfgamaðurinn Matteo Salvini lýsti reyndar yfir skilningi á aðgerðum gulu vestanna í Frakklandi – það þóti sæta tíðindum í samstarfi vinaþjóða. En í Finnlandi hafa vestin helst verið notuð af þeim sem mótmæla auknum fjölda innflytjenda til landsins.

Skilaboðin eru þannig algjörlega út og suður.

Hér á Íslandi hafa gul vesti sést í mótmæli  á Austurvelli. Þau hafa líka verið notuð í tengslum við verkfallsaðgerðir. En svo eru þeir sem leggja annan skilning í þetta tákn, eins og til dæmis framákona í Íslensku þjóðfylkingunni sem skrifar að sósíalistar hafi eyðilagt gulu vestin með því að tileinka sér þau – og noti þau undir „þeim formerkjum að styðja við hælisleitendur“. Þetta sé þvert á það sem eigi sér stað í Frakklandi, segir í þessari grein.

En það á engin gulu vestin, því þau tákna ekki neitt – nema reiði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi

Undirbúningur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs í fullum gangi
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“

„Bullyrðingum“ Sigmars svarað: „Meira og minna allt sem kom fram í máli Sigmars var rangt“